Samráðshópar um markmið ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum

Félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, kynnti í ríkisstjórn í morgun ákvarðanir sínar og fjármálaráðherra um að skipa þrjá starfshópa til að fylgja eftir markmiðum er fram koma í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí sl. á sviði jafnréttismála. Þar er megináhersla lögð á að unnið verði markvisst gegn kynbundnum launamun og að endurmat fari fram á kjörum kvenna hjá hinu opinbera.

Félagsmálaráðherra mun skipa fimm manna starfshóp sem ætlað er meðal annars að leita leiða til að eyða óútskýrðum launamun kynjanna á almennum vinnumarkaði sem og að jafna stöðu kvenna og karla í nefndum og stjórnum stofnana og fyrirtækja. Auk fulltrúa stjórnvalda verður óskað tilnefninga frá samtökum aðila á almennum vinnumarkaði til setu í starfshópnum.

Enn fremur mun félagsmálaráðherra skipa sjö manna ráðgjafarhóp sem hefur það hlutverk að vera ráðherra til ráðgjafar um framvindu verkefnisins og mun vinna eða láta vinna mat á raunverulegum árangri aðgerða. Óskað verður tilnefninga frá Háskóla Íslands, Háskólanum á Bifröst, Háskólanum í Reykjavík, Jafnréttisstofu, Jafnréttisráðs og Kvenréttindafélagi Íslands.

Þá mun fjármálaráðherra skipa sjö manna hóp er kemur til með að vinna að verkefnum tengdum opinberum vinnumarkaði. Meginverkefni starfshópsins er að setja fram áætlun um að minnka óútskýrðan launamun kynjanna á opinberum vinnumarkaði með það að markmiði að hann minnki um helming á kjörtímabilinu sem og að endurmeta kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta. Auk fulltrúa stjórnvalda verður óskað tilnefninga frá samtökum aðila hjá hinu opinbera til setu í starfshópnum.

Fulltrúar ráðherranna ásamt formönnum framangreindra þriggja starfshópa munu síðan starfa saman að því að samhæfa störf hópanna og fara yfir tillögur þeirra.