Samstarfsyfirlýsing um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra, Ólöf Nordal innanríkisráðherra og Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra kynntu í dag áform um aukna samvinnu gegn ofbeldi í íslensku samfélagi. Ráðherrar eru einhuga um mikilvægi þess að bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála. 
Samstarfinu er sérstaklega ætlað að ná til ofbeldis gegn börnum, ofbeldis í nánum samböndum, kynferðislegs, andleg og líkamlegs ofbeldis og ofbeldis gagnvart fötluðu fólki og öðrum berskjölduðum hópum.

Í yfirlýsingunni er þess sérstaklega getið að til ofbeldis teljist einnig hatursfull orðræða sem hvetur til ofbeldis eða annarrar refsiverðrar háttsemi sem er lítillækkandi eða ógnandi. Hatursorðræða hefur síðastliðin ár fengið aukið vægi í umræðunni um jafnréttismál og var áberandi í tengslum við dagskrá Norrænu kvenna- og jafnréttisráðstefnunnar Nordisk Forum 2014.

Jafnréttisstofa fagnar yfirlýsingu ráðherranna. Frá árinu 2008 hefur Jafnréttisstofa haft sérstöku hlutverki að gegna í baráttunni gegn ofbeldi, þar sem í lögum segir að Jafnréttisstofa skuli „vinna að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi í samstarfi við önnur stjórnvöld og samtök sem sinna slíkum forvörnum sérstaklega“