Sjö mál til kærunefndar jafnréttismála 2019

Kærunefnd jafnréttismála bárust á árinu 2019 sjö mál. Í fyrsta sinn reyndi á lög nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Aðrir úrskurðir vörðuðu lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og snerust um hæfnismat vegna ráðninga í störf.

Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði tóku gildi 1. september 2018 og ná m.a. til aðgengis að störfum, þ.m.t. ráðningar. Í umræddu máli reyndi á hversu langt atvinnurekandi mætti ganga í kröfum um íslenskukunnáttu í starfi sendibílstjóra. Var niðurstaða kærunefndarinnar sú að ekki væri um brot á lögum að ræða.

Af þeim sex málum sem sneru að brotum á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla vísaði kærunefndi tveimur frá þar sem þau fullnægðu ekki lagaskilyrðum til að nefndin tæki þau til efnislegrar meðferða og kvæði upp úrskurð. Hin málin fjögur lutu öll að ráðningum og hæfnismati. Tvö þeirra voru talin brjóta gegn lögum og tvö ekki.

Katrín Björg Ríkarðsdóttir framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu var í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 16. janúar og ræddi m.a. um úrskurði kærunefndarinnar. Sjá nánar hér. 

Kveðið er á um skipan kærunefndar jafnréttismála í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Verkefni hennar er að taka til meðferðar erindi og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort brotin hafi verið ákvæði laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, laga nr. 85/2018 um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu.

Einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök í eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna sem telja ákvæði ofangreindra laga brotin gagnvart sér geta leitað til kærunefndar.

Nánari upplýsingar um nefndina, kærur, málsmeðferð og úrskurði er að finna á vef Stjórnarráðs Íslands