Skýrsla um störf jafnréttisfulltrúa Stjórnarráðsins

 Jafnréttisfulltrúar Stjórnarráðsins hafa tekið saman skýrslu um störf sín á tímabilinu 2011-2014. Skýrslan byggist á starfsáætlun jafnréttisfulltrúanna sem tekur mið af jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins og verkefnum í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum 2011-2014.Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna starfa samkvæmt 13. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 en þar segir: ,,Í sérhverju ráðuneyti skal starfa jafnréttisfulltrúi sem hefur sérþekkingu á jafnréttismálum. Jafnréttisfulltrúi fjallar um og hefur eftirlit með jafnréttisstarfi á málefnasviði viðkomandi ráðuneytis og stofnana þess, þar á meðal skal hann vinna að kynjasamþættingu á málefnasviði ráðuneytisins." Í nóvember 2010 samþykktu ráðuneytisstjórar nýjar starfsreglur fyrir jafnréttisfulltrúa þar sem hlutverk þeirra og verkefni voru skilgreind. Þar kemur fram að meginverkefni jafnréttisfulltrúa séu: Að fylgja eftir jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins, vinna að kynjasamþættingu, sinna samstarfi og ráðgjöf á sviði jafnréttismála við stofnanir ráðuneytisins, hafa eftirlit með framkvæmd ráðuneytisins á verkefnum í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum og fleira.
  
Á grundvelli jafnréttislaga og ofangreindra starfsreglna settu jafnréttisfulltrúar sér starfsáætlun fyrir starfsárin 2011-2013. Í áætluninni eru 18 verkefni sem snúa að starfi jafnréttisfulltrúa í hverju ráðuneyti, sameiginlegum verkefnum ráðuneyta og samstarfi jafnréttisfulltrúa við Jafnréttisstofu. Starfsáætlunin var framlengd út árið 2015. Árið 2012 settu jafnréttisfulltrúar sér einnig fræðsluáætlun með það að markmiði að auka sérþekkingu sína á kynjajafnrétti. Auk þess var samþykkt ný jafnréttisáætlun fyrir Stjórnarráðið í febrúar 2013 en hún gildir fyrir öll ráðuneytin og eiga jafnréttisfulltrúarnir að framfylgja verkefnum hennar sem eru 23 talsins. Jafnréttisáætlunin tekur m.a á málum sem snerta launajafnrétti, starfsmannamál, kynbundnið ofbeldi og kynferðislega áreitni, þátttöku kvenna og karla í nefndum og ráðum Stjórnarráðsins, kynjasamþættingu og jafnréttismat á frumvörpum. Endurskoðun jafnréttisáætlunarinnar er þegar hafin og tekur sú vinna meðal annars mið af sáttmála UN Women UN Global Compact sem Stjórnarráðið skuldbatt sig við undirritun hans þann 27. maí 2014.

Skýrsla um störf jafnréttisfulltrúa Stjórnarráðsins pdf.