Starfshópur um aukinn þátt karla í jafnréttismálum

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur skipað starfshóp til að gera tillögur um hvernig auka megi þátttöku karla í umræðum um jafnrétti kynja og auka aðild karla að jafnréttisstarfi.
Skipað er í starfshópinn í samræmi við tillögu til þingsályktunar í jafnréttismálum til fjögurra ára sem velferðarráðherra hefur lagt fram á Alþingi, þar sem lögð er fram stefna ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum árin 2011–2014.

Hópurinn skal fjalla um hvernig breikka megi náms- og starfsval karla og vinna gegn kynskiptum vinnumarkaði. Hann á einnig að skoða áhrif staðalmynda kynjanna á stöðu karla í samfélaginu, hlutverkaval og þátttöku þeirra í verkefnum fjölskyldunnar. Gera þarf greiningu á stöðu karla í samfélaginu og möguleikum þeirra til virkrar þátttöku á nýjum og breyttum forsendum og skal starfshópurinn hafa frumkvæði að samstarfi um verkefni sem stuðla að því að slík greining fari fram.

Starfshópurinn er eingöngu skipaður körlum og er formaður hans Jón Yngvi Jóhannsson, bókmenntafræðingur. Samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er heimilt að grípa til sérstakra aðgerða til að koma á jafnri stöðu kynjanna á ákveðnu sviði þar sem hallar á annað kynið og unnt að veita undanþágu frá jafnri skipan kynja í nefndir og ráð séu til þess hlutlægar ástæður.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem nefnd er skipuð til að auka hlut karla í umræðum um jafnréttismál. Árið 1991 skipaði Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, nefnd um stöðu karla í breyttu samfélagi með jafnari fjölskylduábyrgð og verkaskiptingu. Þá skipaði Jafnréttisráð nefnd í ársbyrjun 1994 sem átti að stuðla að auknum hlut karla í umræðu um jafnréttismál og var nefndin oft kölluð „karlanefnd jafnréttisráðs“. Þetta fyrirkomulag þótti gefa góða raun og með skipun starfshópsins nú er markmiðið að skapa nýjan vettvang til umræðu um hlut karla í jafnréttismálum, enda í samræmi við lögbundið hlutverk Jafnréttisstofu að auka virkni í jafnréttismálum, meðal annars með aukinni aðild karla að jafnréttisstarfi. 


Skipunartími starfshópsins er 14. janúar 2011 til 31. desember 2011 og hann skipa

Jón Yngvi Jóhannsson, formaður
Andrés Ingi Jónsson, blaðamaður
Arnar Gíslason, jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands
Georg Páll Skúlason, formaður FBM
Hilmar Magnússon, utanríkisráðuneyti
Ólafur Elínarson, ráðgjafi Capacent
Pétur Georg Markan, guðfræðinemi
Theodór Kristjánsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn
Tryggvi Hallgrímsson, Jafnréttisstofu
Þórður Kristinsson, kennari