Stuðlað að fjölgun vottunaraðila vegna vottunar jafnlaunakerfa

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur undirritað reglugerð sem á að flýta fyrir því að nýjar vottunarstofur geti haslað sér völl á markaði/ hafið starfsemi og öðlast faggildingu til að votta jafnlaunakerfi samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST 85.

Samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi þarf vottunarstofa að hafa framkvæmt tiltekinn lágmarksfjölda úttekta á jafnlaunakerfum fyrirtækja eða stofnana áður en faggildingasvið Einkaleyfastofa getur veitt henni faggildingu. Á móti kemur að vottunarstofa gerir ekki úttektir fyrir viðskiptavini án faggildingar. Hingað til hefur engin vottunarstofa öðlast faggildingu til að votta jafnlaunastaðalinn ÍST 85. Engu að síður hafa tvær vottunarstofur unnið við vottun jafnlaunastaðalsins frá því að lög um jafnlaunavottun tóku gildi. Það hafa þær gert samkvæmt tímabundinni heimild í reglugerð á grundvelli þess að þær voru með faggildingu til að vinna að úttektum og vottunum á stjórnunarkerfum fyrirtækja og stofnana samkvæmt tveimur tilteknum stjórnunarstöðlum.

Mikil og vaxandi eftirspurn er frá fyrirtækjum og stofnunum um að hefja vottunarferli til undirbúnings lögbundinni jafnlaunavottun. Sú eftirspurn mun aukast á næstu misserum þar sem fyrirtækjum og stofnunum sem skylt er að öðlast vottun fjölgar við hver áramót allt til ársins 2022. Enn fremur er Stjórnarráðinu skylt að hafa uppfyllt skilyrði jafnlaunavottunar og öðlast hana fyrir næstu áramót.

Fjölga þarf vottunaraðilum og stuðla að samkeppni á markaði

Með reglugerð félags- og jafnréttismálaráðherra er sett viðbótarákvæði við gildandi reglugerð sem veitir vottunarstofum svigrúm til að vinna úttektirnar sem eru forsenda faggildingar meðan á umsóknartíma stendur. Vottunarstofur þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði og hljóta samþykki faggildingarsviðs Einkaleyfastofu til að hljóta þetta svigrúm og jafnframt er gert ráð fyrir að Jafnréttisstofa gefi út bráðabirgðastarfsleyfi þeim til handa sem gildir í eitt ár.

Ákvæði reglugerðarinnar er í samræmi við tillögu faggildingasviðs Einkaleyfastofu og voru drög að reglugerðinni meðal annars kynnt fyrir aðgerðahópi stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti.

Reglugerðin hefur verið send Stjórnartíðindum og öðlast gildi við birtingu.

Fréttin birtist fyrst á vef velferðarráðuneytisins