Stundin er runnin upp

Á þessu ári eru 40 ár liðin frá því að fyrstu jafnréttislögin voru sett  og Jafnréttisráð var stofnað. Á 16 ára afmælisdegi Jafnréttisstofu 15. september síðast liðinn efndu Jafnréttisráð og stofan til ráðstefnu undir heitinu „Stundin er runnin upp“ en það er tilvitnun í textann Áfram stelpur frá árinu 1975. Eins og allir vita er Jafnréttisstofa staðsett á Akureyri og því þótti við hæfi að halda afmælisráðstefnuna þar. Daginn eftir var landsfundur um jafnréttismál í sveitarfélögunum einnig á Akureyri og því rík ástæða til að tengja þessa viðburði saman. 

Dagskráin hófst á því að Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra ávarpaði ráðstefnuna. Hún rifjaði upp söguna og það sem áunnist hefur í þessi 40 ár, þar á meðal fjölgun kvenna á þingi og í sveitarstjórnum, stóraukna menntun kvenna og sókn þeirra á vinnumarkaði. Hún ítrekaði nauðsyn þess að karlar tækju ríkari þátt í jafnréttisbaráttunni sem auðvitað væri þeirra hagur. Eygló greindi frá því að nýbúið væri að samþykkja framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir árin 2016-2020en í henni er að finna áherslur og verkefni sem unnið verður að á næstu árum. Þar má nefna launajafnrétti kynjanna, baráttu gegn kynbundnu ofbeldi, aukna áherslu á kynjasamþættingu inn í alla stefnumörkun o.fl.


Aðal erindi dagsins flutti Brynhildur Flóvenz dósent í lögfræði við Háskóla Íslands. Hún rakti þróun jafnréttislaganna í 40 ár og hvernig þau hafa ýmist verið kynhlutlaus (sbr. núgildandi lög frá 2008) eða þá að þau hafa lagt áherslu á að það hallaði á konur og að heimilt væri að grípa til sértækra aðgerða til að rétta hallann af. Hún sagði að þetta væri grundvallarspurning um tilgang laganna sem yrði að taka á við næstu endurskoðun.

Þá var röðin komin að lið sem bar yfirskriftina: „Þó ýmsir vilji afturábak en aðrir standi í stað, tökum við aldrei undir það!“Aftur var vitnað í textann Áfram stelpur. Þrjár konur og þrír karlar létu gamminn geisa um hvað þeim væri efst í huga hvað varðar jafnrétti kynjanna (allra) á þessum tímamótum.

Fyrst kom í pontu Fanný Gunnarsdóttir formaður Jafnréttisráðs en hún hefur lengi verið virk í jafnréttisbaráttunni. Fanný benti á að enn væri við að eiga sömu baráttumálin og fyrir 40 árum, svo sem launamisréttið og kynskiptan vinnumarkað, en við hefðu bæst áherslur t.d. á klám og hatursorðræðu. Hún benti sérstaklega á skort á umræðu um heilsu út frá kynjabreytunni en þar er sannarleg margt að rannsaka og greina.

Einar Mar Þórðarson sérfræðingur í Fjármála- og efnahagsráðuneytinu gerði launamisréttið að umræðuefni. Hann sagði að konur sem ynnu hjá ríkinu hefðu 10% lægri laun en karlar þegar tillit hefði verið tekið til vinnutíma. Hann sagði að setja þyrfti markmið um að allar ríkisstofnanir innleiði jafnlaunastaðalinn á næsta kjörtímabili. Hann ræddi um hlutverk sitt sem föður og hve óþolandi það væri að vita af því að barnanna biði ekki jöfn tækifæri og jöfn staða. Hann nefndi mikilvægi jafnréttisuppeldis, sló á létta strengi og sagði að við yrðum að passa okkur á að ala ekki upp drengi sem væru „ólæsir, tölvusjúkir, klámhundar“.

Andrea Hjálmsdóttir lektor við HA beindi sjónum að heimilinu og hvað þar færi fram. Hún nefndi að lög og umræður beindust aðallega að því sem á sér stað á vinnumarkaðnum en mun minna væri fjallað um jafnréttið á heimilunum. Andrea nefndi rannsóknir sem gerðar hafa verið á verkaskiptingu á heimilum sem sýna að konur bera enn mun meiri ábyrgð en karlar og einnig kannanir á viðhorfum ungs fólks sem endurspegla íhaldssemi og hefðbundnar hugmyndir um hlutverk kynjanna. Þarna væri sannarlega verk að vinna.

Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri í Norðurþingi sagði fyrst frá sínu sveitarfélagi þar sem nokkur munur er á hlutföllum kynjanna. Þar vantar ungar konur. Eins og víða annars staðar fara þær í burtu til að mennta sig og koma ekki til baka. Kristján (sem er nýbakaður faðir) fjallaði þó aðallega um fæðingarorlofið sem væri orðið þannig að það mismunaði fólki og þjónaði ekki tilgangi sínum þar sem fólk yrði fyrir gríðarlegri kjaraskerðingu. Fólk með lágar tekjur á mjög erfitt með að fara í fæðingarorlof  vegna þess hve þakið er lágt. Afleiðingarnar eru líka heldur betur að sýna sig í lækkandi fæðingartíðni sem nú er komin niður í 1,8. Komum þessu í lag strax var tillaga Kristjáns.

Næst var röðin komin að Engilbert Hauki Kolbeinssyni og Hans Jónssyni sem ræddu stöðu hinsegin fólks. Hans sagði að Ísland væri í 14. sæti í Evrópu hvað varðar stöðu hinsegin fólks, einkum á eftir að rétta lagalega stöðu transfólks. Hann nefndi sem dæmi að það þyrfti að beina sjónum að hinsegin börnum í skólakerfinu, skólabókunum o.fl.

Síðust í röðinni var Fríða Rós Valdimarsdóttir formaður Kvenréttindafélags Íslands. Hún tók dæmi af fjölskyldu sinni og hvernig mikið álag getur kallað fram „úlfatíma“ (þ.e. hættu á núningi, rifrildum og átökum) þegar allir eru að flýta sér út í daginn eða koma þreyttir heim. Hún kallaði eftir málefnalegri vinnu við að koma jafnréttismálum í rétt horf í stað endalausra átaka sem líkja má við „úlfatíma“. Það væri öllum í hag að bæta stöðu fjölskyldnanna.    

Eftir hádegi fór fram hópastarf undir yfirskriftinni „Sköpum jafnrétti og bræðralag“ enn ein tilvitnunin í fyrrnefndan texta, reyndar ansi karllæg. Ræddar voru spurningar um það hverju jafnréttislögin hefðu skilað, hverju hefði ekki tekist að fylgja eftir og hvað væri brýnast nú.


Helstu niðurstöður hópavinnu:

Á hvaða sviði jafnréttismála höfum við náð mestum árangri?

Aukin atvinnuþátttaka kvenna og menntun færði konum frelsi og aukið sjálfstæði. Konum hefur fjölgað mikið á Alþingi og í sveitarstjórnum. Betur má ef duga skal.

Fæðingarorlof og réttur beggja foreldra til orlofs var mikið framfaraspor. Tryggja þarf að þau lífsgæði sem fæðingarorlofið á að skila tapist ekki.

Kynbundið ofbeldi kom upp á yfirborðið en hafði áður legið í þagnargildi.

Hvaða ákvæði jafnréttislaga hefur reynst erfiðast að uppfylla? Hvers vegna?

Erfiðlega hefur gengið að tryggja jafnrétti kynjanna til starfa og launa. Launalega hallar á konur og þær fá síður framgang þegar kemur að stjórnunarstöðum.

Alltof mörg fyrirtæki og stofnanir sem eiga að vera með aðgerðabundna jafnréttisáætlun fara ekki að jafnréttislögum. Sveitarfélög setja sér jafnréttisáætlanir sem þau síðan uppfylla ekki. Nýta þarf dagsektir til að jafnréttislög séu virt.

Jafnrétti á ekki að vera valkvætt.Vantar virðingu fyrir jafnréttislögum eftirfylgni og fjármagn.

Skylt að sinna jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum en samt er kynjafræði ekki skylda í kennaranámi.

Ekki hefur tekist að jafna hlut kynjanna í fjölmiðlum, stjórnum og ráðum og hjá dómstólum. Langt í land þegar kemur að skipan í nefndir, ráð og stjórnir. Stjórnendum fyrirtækja bara „dettur engin kona í hug“. Mörg fyrirtæki líta á kynjakvóta sem „vesen“.

Hvað vantar í jafnréttislögin miðað við þróun síðustu 40 ára.

Vantar viðurlög við brotum á jafnréttislögum og heimild til ákvörðunar bóta. Þurfum þvingunarúrræði sem tryggja að jafnréttislög séu virt.

Setja aftur í jafnréttislög reglur um jákvæða mismunun (tekið út árið 2000).

Ákvæði um jafnan rétt foreldra (óháð kyni) til fæðingarorlofs.

Styrkja lagagrunninn þegar kemur að kynbundnu ofbeldi.

Vantar ákvæði um að launasetning sé gagnsæ. Kjarasamningsmódel, - hvað skal meta?

Fá inn í lögin margfalda mismunun og víkka út jafnréttisumræðuna svo lögin nái til allra hópa. Langtímamarkmið að afmá KYN.

Hvaða málefni eru brýnust í dag?

Leiðrétta fæðingarorlofið, greiðslur eru ekki í samræmi við laun í dag og fela yfirleitt í sér talsverða launaskerðingu fyrir par sem fer í fæðingarorlof. Þjóðfélagslega séð er mjög mikilvægt að lagfæra þetta fyrir framtíðina.

Tryggja launajafnrétti á vinnumarkaði. Fólk heldur að við séum komin lengra en við erum.

Tryggja jafnréttisfræðslu í skólum allt frá leikskóla til háskóla.

Tryggja að jafnréttisáætlunum sé framfylgt.

Vekja karla til meðvitundar um um jafnréttismál.

Koma jafnréttismálum inn í verklag sveitarfélaga. Kynjabókhald og jafnlaunastaðall.

Tryggja að konur verði ekki fyrir kynbundnu ofbeldinu og ef þær verða fyrir slíku þá virki réttarkerfið.

Sjálfsskilgreiningarréttur einstaklingsins og að tekið sé tillit til allra. Fordómafræðsla og samskiptafræðsla.

Hatursorðræða, minni stýring á umræðuna í dag, opin á netinu. Hvernig komum við í veg fyrir hana án ritskoðunar? Duga boð og bönn eða getum við stöðvað þetta með fræðslu og bættum samskiptum?

Fjármagn til verksefna ekki til staðar, ekki eyrnamerkt fjármagn til jafnréttismála í fjárhagsáætlunum

Vinna jafnréttismál í þverpólitískum hópum bæði hjá ríki og bæ.

Að lokum:

Við megum ekki sofna á verðinum. Þurfum að hafa í huga að lagalegt jafnrétti tryggir ekki framkvæmdina og raunverulegt jafnrétti krefst hugarfarsbreytinga.

Grasrótin skiptir miklu máli í jafnréttismálum.