Styrkir til náms í leikskólakennarafræðum

Ákveðið hefur verið að ráða þrjá karlkyns verkefnisstjóra og veita þeim styrk að upphæð 1.000.000 kr. til að hefja nám á meistarastigi haustið 2017 sem veitir þeim leyfisbréf til kennslu á leikskólastigi. 

Það eru Samband íslenskra sveitarfélaga, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Félag leikskólakennara og Félag stjórnenda leikskóla sem hafa tekið höndum saman til að vinna að verkefni undir yfirskriftinni „Karlar í yngri barna kennslu“.

Meginmarkmið verkefnisins er tvíþætt, annars vegar að vekja athygli ungra karla á starfi kennara í leikskólum og hins vegar að fjölga þeim í starfi. Samstarfsaðilar hlutu styrk úr Jafnréttissjóði Íslands til að vinna að verkefninu. 

Umsækjandi skal að lágmarki fullnægja eftirfarandi skilyrðum:

  • Vera karlmaður
  • Hafa lokið grunnnámi í háskóla (s.s. BA, BS, B.Ed.)
  • Hefja M.Ed/MA-nám við Háskólann á Akureyri eða Háskóla Íslands í leikskólakennarafræðum haustið 2017
  • Skila staðfestingu á skólavist fyrir 1. júlí 2017
  • Sinna ákveðnum verkefnum í samráði við stýrihóp verkefnisins með það að markmiði að vekja athygli á náminu
  • Skila stuttri greinargerð að námi loknu

Sérstakur samningur verður gerður við verkefnisstjóra. Styrkurinn verður greiddur þegar verkefnisstjóri hefur lokið námi og skilar inn afriti af leyfisbréfi til kennslu á leikskólastigi ásamt greinargerð. Umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi, sjá slóð hér að neðan.

Umsóknir á öðru formi verða ekki teknar gildar. Ekki er tekið á móti viðbótargögnum og því verða allar upplýsingar að koma fram í umsókninni. Í umsókn skal m.a. koma fram hugmyndir umsækjanda um það hvernig hann hyggst kynna námið og starfið, væntingar til námsins og annað sem gæti skipt máli við mat á umsókn. Við mat á umsóknum er haft til hliðsjónar hversu vel hún er rökstudd, hversu skýr markmið hennar eru og hvernig námið nýtist umsækjanda í núverandi starfi og leikskólum landsins.

Umsóknarfrestur er til og með 20. mars 2017. Nánari upplýsingar veitir Arna H. Jónsdóttir formaður leikskólabrautar við Háskóla Íslands (arnahj@hi.is / 525 5330) og Finnur Friðriksson brautarstjóri kennarabrautar við Háskólann á Akureyri (finnurf@unak.is / 460 8574) Sækja um hér https://goo.gl/forms/pxBl2inIl4nO13m52


Fréttin er tekin af heimasíðu Kennarasambands Íslands en hún birtist þar 6. mars sl.