Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra braut jafnréttislög

Kærunefnd jafnréttismála hefur komist að þeirri niðurstöðu að Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Vesturlandi hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, þegar karlmaður var ráðinn í starf forstöðumanns Fjöliðjunnar á Akranesi á síðasta ári. Þetta er í fyrsta sinn á þessu ári sem kærunefnd álítur að jafnréttislög hafi verið brotin, og jafnframt fyrsta málið varðandi stöðuveitingu sem hefur unnist fyrir kærunefndinni frá árinu 2006.
Tíu umsækjendur voru um stöðu forstöðumanns, þrír karlmenn og sjö konur. Fjórir umsækjendur voru teknir í viðtöl og að þeim loknum var karlmaður ráðinn í stöðuna. Ein kvennanna kærði ráðninguna til kærunefndar jafnréttismála á þeim forsendum að hún væri hæfari en sá sem var ráðinn.

Í niðurstöðu kærunefndarinnar segir að menntun þess sem starfið hlaut sé umtalsvert minni en kæranda. Þá halli ekki á kæranda hvað starfsreynslu snertir. Huglægt mat á persónulegum eiginleikum þess sem starfið hlaut geti ekki vikið til hliðar hlutlægum mælistikum á borð við sérhæfða menntun og starfsreynslu.

Loks segir kærunefndin að svæðisskrifstofan geti ekki borið fyrir sig vilja til þess að jafna hlut kynjanna í störfum í málaflokknum, þar sem það eigi aðeins við þegar um jafnhæfa einstaklinga sé að ræða. Kærunefndin beinir því til Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi að leitað verði lausna í málinu sem kærandi geti sætt sig við.