Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins fjallar um kynjaða fjárhagsáætlunargerð

Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins er pólitískur samstarfsvettvangur evrópskra sveitarfélaga og svæða. Ísland á þrjá fulltrúa á þinginu sem stjórn sambandsins tilnefnir til fjögurra ára í senn. Þingið kemur saman tvisvar á ári, að vori og hausti. Haustþingi er nýlega lokið og þar var samþykkt ályktun um kynjaða fjárhagsáætlanagerð. 


Í ályktuninni kemur fram að kynjuð fjárhagsáætlanagerð hafi reynst vera eitt öflugasta verkfærið til að samþætta kynjasjónarmið og tryggja að opinber þjónusta taki mið af þörfum beggja kynja. Því er beint til sveitarfélagasambanda að hvetja ríkisvaldið til að veita fjármagni til innleiðingar á kynjaðri fjárhagsáætlun á sveitarstjórnarstigi, aðstoða við þekkingaruppbyggingu og sjá til þess að opinberar tölur séu kyngreindar. Sveitar- og svæðastjórnir eru hvattar til að innleiða kynjaða fjárhagsáætlunargerð í árlegum fjárhagsáætlunum sínum og að skiptast á reynslu og sjónarmiðum við sveitarfélög og borgir sem eru komnar lengra á veg. Því  er líka beint til þeirra að hafa samráð og tryggja þátttöku borgaralegra samtaka í þessum ferlum. Í greinargerð með ályktuninni er gefið yfirlit yfir hvernig hugmyndir um kynjaða fjárhagsáætlunargerð hafa þróast og hvernig Evrópuráðið hefur verið leiðandi í þeirri þróun. Það er leitast við að svara spurningunni: „Hvað er kynjuð fjárhagsáætlunargerð“, gerð er grein fyrir ávinningi af henni og áskorunum og leitast við að leiðrétta algengan misskilning um kynjaða fjárhagsáætlunargerð. Loks er gerð grein fyrir reynslu landa og borga af kynjaðri fjárhagsáætlunargerð, þ. á m. Reykjavíkurborgar. Á myndinni sést Björn Blöndal segja frá reynslu Reykjavíkurborgar af kynjaðri fjárhagsáætlunargerð.

Ályktunin, ásamt greinargerð er aðgengileg hér og nánari upplýsingar um Sveitarstjórnarþingið og haustþingið eru hér.