Þroskahjálp gefur út upplýsingarit um réttindi fatlaðs fólks á vinnumarkaði

Landssamtökin Þroskahjálp, ásamt ungmennaráði samtakanna og Átaki, félags fólks með þroskahömlun, hafa tekið saman Upplýsingarit um réttindi fatlaðs fólks á vinnumarkaði samkvæmt lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018 og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem fullgiltur var af íslenskum stjórnvöldum árið 2016.

Jafnréttisstofa hefur eftirlit og umsjón með framkvæmd laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Markmið laganna er að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, svo sem hvað varðar:

  1. aðgengi að störfum, sjálfstæðri atvinnustarfsemi eða starfsgreinum, þ.m.t. við ráðningar og framgang í starfi,
  2. aðgengi að náms- og starfsráðgjöf, starfsmenntun og starfsþjálfun,
  3. ákvarðanir í tengslum við laun, önnur starfskjör og uppsagnir og
  4. þátttöku í samtökum launafólks eða atvinnurekenda, þ.m.t. þau hlunnindi sem þau veita félagsmönnum.

Samkvæmt 10. grein laganna skulu atvinnurekendur „gera viðeigandi ráðstafanir, sé þeirra þörf í sérstöku tilviki, til að gera fötluðum einstaklingi eða einstaklingi með skerta starfsgetu kleift að eiga aðgengi að og taka þátt í starfi, njóta framgangs í starfi eða fá þjálfun, enda séu þær ráðstafanir ekki of íþyngjandi fyrir atvinnurekandann.“

Í upplýsingariti Þroskahjálpar kemur fram að ein mikilvægasta skylda atvinnulífsins samkvæmt lögum um jafna meðferð og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er að tryggja að fatlað fólk fái viðeigandi aðlögun á vinnustað. Viðeigandi aðlögun er ein aðal forsenda þess að fatlað fólk og fólk með skerta starfsgetu eigi raunhæfan möguleika á að njóta jafnréttis og jafnra tækifæri á vinnumarkaði.

Í viðeigandi aðlögun felst m.a. að gerðar séu ráðstafanir sem tryggja fötluðu fólki og fólki með skerta starfsgetu óhindraðan aðgang að þeim grundvallar mannréttindum og frelsi sem við sem samfélag teljum sjálfsögð. Í ritinu má finna leiðbeiningar um viðeigandi aðlögun með skýringum og dæmum um þarfir fólks með þroskahömlun eða skyldar raskanir og hvernig atvinnurekendur geta brugðist við þeim.