Úthlutun úr Jafnréttissjóði

Miðvikudaginn 24. október var úthlutað styrkjum úr Jafnréttissjóði. Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, formaður Jafnréttissjóðs gerði grein fyrir störfum stjórnar sjóðsins. Að þessu sinni bárust 13 umsóknir og styrkbeiðnir námu samtals 33.5 milljónum króna og í ár fengu 5 verkefni styrk samtals að upphæð 9,0 milljón króna. Geir H. Haarde, forsætisráðherra afhenti styrkina.

Þau verkefni sem fá styrk eru:

1. Fjöldi kvenna á þingi – framboð eða eftirspurn – umsækjandi og verkefnisstjóri Indriði H Indriðason, dósent í stjórnmálafræði H͖ markmið rannsóknarinnar er að leggja mat á þær skýringar sem liggja til grundavallar ástæðum þess hvað veldur litlum hlut kvenna á alþingi Íslendinga. Rannsóknin felur í sér að skýra árangur kvenna í prófkjörum stjórnmálaflokkanna að teknu tilliti til reynslu, flokksstarfs, aldurs, menntunar, fjölda kvenna og karla í framboði auk annarra hugsanlegra skýribreyta.

2. Jafnréttisumræða á tímamótum – kyn og margbreytileiki – umsækjandi Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, doktorsnemi og verkefnisstjóri Þorgerður Einarsdóttir, dósent í kynjafræðum HÍ, - markmið rannsóknarinnar er að fá heildstæða þekkingu á íslenskri jafnréttisumræðu – skoðað verður hvernig feminískar kenningar um samspil mismununarbreyta geta nýst til að sætta ólíkar áherslur í jafnréttisstarfi og markmiðið er að þróa jafnréttishugtak þar sem margbreytileikinn er hafður að leiðarljósi – án þess að áhersla á kynjajafnrétti sé gefinn upp á bátinn.

3. Vinna foreldra á heimili og vinnumarkaði – alþjóðlegur samanburður, umsækjandi og verkefnisstjóri er Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði HÍ – markmið rannsóknarinnar er að meta heildarvinnuframlag foreldra, samanlagt á vinnumarkaði og við heimilisstörf, hvernig hann skiptist milli kynja og hvernig hann er háður fjölda barna á heimilinu. Enn fremur verður verkaskipting á heimilum rannsökuð. Þannig fæst heildstæð mynd af vinnumagni fjölskyldna, karla og kvenna aðskilið og sameiginlega.

4. Mat á tölfræðilíkönum með vinnumarkaðskönnunum – þýðing ómældra breyta – umsækjandi og verkefnisstjóri Helgi Tómasson, dósent í hagrannsóknum og tölfræði HÍ. Markmið rannsóknarinnar er að safna með rafrænum hætti gögnum um laun, vinnutíma, starf, kyn, aldur og ýmsar fleiri breytur. Þetta er gert til að hægt verði að álykta um þýðingu þessara breyta fyrir launamyndun þar sem nauðsynlegt er að raunhæft tölfræðilegt líkan sé metið. Svo hægt sé að meta þýðingu ómældra breyta er nauðsynlegt að fyrir hendi séu endurteknar mælingar á sama einstaklingi á mörgum tímabilum.

5. Staðbundið samfélagslegt mikilvægi jafnrar kynjaskiptingar – umsækjandi Vífill Karlsson, dósent háskólanum Bifröst – verkefnisstjóri Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptadeild HÍ – Markmið verkefnisins er að skoða samband milli kynjahalla og húsnæðisverðs – og hvort þetta samband endurspegli félagslegt mikilvægi kvenna. Þar sem eftirspurn neytenda mótast af forgangsröðun þeirra í heimi takmarkaðra gæða,endurspeglar landfræðilegur breytileiki fasteignaverðs virði staðsetningar til búsetu.