Vel heppnað Jafnréttisþing og athyglisverð fjölmiðlaviðurkenning

Á nýafstöðnu jafnréttisþingi sem fram fór 25. nóvember sl. var megin áhersla lögð á stöðu kvenna og kynjaðar birtingarmyndir á opinberum vettvangi  en markmiðið var að varpa ljósi á ólíka stöðu kynjanna í fjölmiðlum og kvikmyndum annars vegar og hins vegar að fjalla um hatursorðræðu. Að þinginu afstöðnu veitti Jafnréttisráð sérstaka fjölmiðlaviðurkenningu. Hana hlutu  ritstjórn Framhaldsskólablaðsins fyrir umfjöllun um jafnréttismál, Halla Kristín Einarsdóttir fyrir heimildamyndina Hvað er svona merkilegt við það? og Sigrún Stefánsdóttir fyrir störf í þágu jafnréttis á fjölmiðlum.Á jafnréttisþinginu var kynnt skýrsla félags- og húsnæðismálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála árin 2013–2015, líkt og lögbundið er. Skýrslan spannar stöðu jafnréttismála á öllum helstu sviðum samfélagsins, en meginefni þingsins í dag fjallar um ólíkar birtingarmyndir kynjanna í opinberri umræðu og umfjöllun. Eygló lagði í ræðu sinni áherslu á þörfina fyrir breytingar og hvernig megi vinna að breytingum: „Hlutverk þingsins er að efna til samræðna milli stjórnvalda og þjóðar um kynjajafnrétti og hér á öllum að gefast tækifæri til að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda á sviði jafnréttismála“ sagði ráðherra meðal annars í ræðu sinni.

Eygló ræddi einnig um hatursumræðu og hvernig þessi tegund ofbeldis birtist í samfélaginu daglega á opinberum vettvangi: „Ofbeldið birtist okkur sem hatursorðræða á netinu sem beinist gegn einstaklingum af báðum kynjum og þegar hún beinist að konum er hún oftar en ekki kynjuð, en konur verða mun frekar fyrir hatursfullum áróðri á samfélagsmiðlum á grundvelli kynferðis. Það sem einkennir hatursorðræðu er að gerandi sendir þolanda meiðandi skilaboð með vísan í stöðu beggja í samfélaginu.“ Ræða ráðherra í heild sinni

Fjöldi fyrirlesara flutti erindi á þinginu en tveir erlendir sérfræðingar á sviði fjölmiðla og kvikmynda komu sérstaklega til landsins. Það voru þær  María Edström , lektor við rannsóknarstofnun um fjölmiðla og upplýsingamál við Háskólann í Gautaborg og Anna Serner,  forstöðumaður sænsku kvikmyndamiðstöðvarinnar.  María Edström  fjallaði um stöðuna á Norðurlöndunum sem gjarnan eru talin fyrirmynd annarra ríkja þegar kemur að jafnréttismálum. Hún segir að fjölmiðlar hafi hins vegar ekki staðið sig nógu vel og nauðsynlegt sé að breyta hugarfarinu til hins betra. Það sé bara vondur vani að tala frekar við karla en konur. Anna benti á að tilraunir hafi verið gerðar innan kvikmyndageirans, til dæmis með því að skilyrða styrkjaumhverfið þannig að helmingur fari til kvenna en helmingur til karla. Önnur leið sé að karlar taki meiri ábyrgð og neiti til dæmis að vera með í umræðuþáttum nema tryggt sé að kona sé á meðal þátttakenda. En hún  hefur í starfi sínu haft mjög jákvæð áhrif á stöðu kvenna innan sænska kvikmyndageirans. Anna átti frumkvæðið að mjög vel útfærðri  jafnréttisáætlun Svía sem tók gildi fyrir 8 árum og lýkur á þessu ári. Á tímabilinu hefur  sænska kvikmyndamiðstöðin úthlutað konum og körlum jafn miklu fjármagni til kvikmynda, nánar tiltekið handritshöfundum, leikstjórum og framleiðendum. Anna benti á að ef vilji er til að stuðla að jafnrétti í kvikmyndageiranum verði að hrinda slíkri áætlun í framkvæmd.

Á þinginu kynnti Rósa G. Erlingsdóttir, sérfræðingur hjá velferðarráðuneytinu glænýjar niðurstöður úttektar á viðmælendum í fréttum og völdum umræðuþáttum Ríkisútvarpsins (RÚV) og fjölmiðlafyrirtækisins 365. Niðurstöður sýna m.a. að hlutur kvenna sem viðmælendur fjölmiðla hefur lítið breyst frá því að málið var skoðað fyrir 15 árum og yfir tímabilið 1. september 2014–31.ágúst 2015 voru karlar um 70% viðmælenda í fréttum RÚV, Stöðvar 2 og Bylgjunnar á móti um 30% kvenna. Nánar má lesa um niðurstöðurnar á heimasíðu velferðarráðuneytisins 

„Kjarnmestu konur í heimi" var yfirskrift erindis Guðnýjar Gústafsdóttur, doktorsnema í kynjafræði. Hún  velti  fyrir sér hvort sú ímynd íslenskra kvenna væri sannleikanum samkvæm sem og endurteknar niðurstöður alþjóðlegra kannana um að staða kvenna sé hvergi betri í heiminum en á Íslandi. Guðný benti m.a. á að allt frá örófi alda hafi íslenskar konur verið álitnar sjálfstæðar og kjarnmiklar. Þessari ímynd hafi verið haldið uppi með tilvísun í söguna, áunnin réttindi og skýrslur en samt sé jafnrétti kynjanna ekki náð á Íslandi árið 2015. Guðný telur að þessi ímynd af íslenskum konum fyrr og nú sé ekki eingöngu til  góðs. Ýmsar fræðikonur hafi bent á að kosningaréttur kvenna hafi verið táknræn sáttaumleitan við háværan og kröfuharðan hóp kvenna á sínum tíma en konur hafi ekki orðið virkar í stjórnmálum fyrr en löngu síðar. Lögfesting jafnréttislaganna gerði það síðan að verkum að litið er svo á að konur og karlar séu jöfn í okkar samfélagi. Sú skilgreining er byggð á sýnileika kvenna á ýmsum sviðum samfélagsins en nær að vísu skv. Guðnýju einungis til hvítra, menntaðra millistéttarkvenna því aðrar konur séu ekki mjög sýnilegar. Löggjöfin reyndist ekki það tæki sem til var ætlast að mati Guðnýjar, það hafi reynst innistæðulítið tákn valdhafa sem nái allt of stutt. Guðný líkti löggjöfinni við snuð upp í hópa til að halda þeim niðri og gera þá ánægða líkt og  sömuleiðis séu örfáar valdakonur í ójafnréttu samfélagi aðeins hunang á sama snuðið. Að lokum spurði Guðný hvort ímynd kjarnyrtu kvennanna sé jafnvel einhverskonar hunang eða gervisæta á sama snuðið?

Boðið var upp á þrjár málstofur á þinginu. Í málstofu um kyn og fjölmiðla kom fram að Ísland er langt á eftir fjölda landa þegar kemur að sýnileika kvenna í fjölmiðlum og að þrátt fyrir að konur séu sífellt fleiri í fjölmiðlastétt hafi það því miður ekki haft áhrif á fjölda kvenkyns viðmælenda. Einnig var rætt um hve erfitt er að fá konur í viðtöl en vegna áherslna á Íslandi um mikinn hraða og fjölda frétta sem fréttafólk þarf að vinna á hverri vakt þarf að fá svör fljótt og því oft hringt í sama fólkið. Fréttamat kom einnig til tals og spurt var hvort fréttamat kvenna og karla sé líkt eða ólíkt með tilvísun í fyrrgreinda staðreynd um að konum fjölgar ekki sem viðmælendum þrátt fyrir aukinn fjölda kvenna á fréttamiðlum. Einnig var lögð áhersla á frekari rannsóknir, ekki einungis á hlutföllum heldur birtingamyndum kynja í fjölmiðlum. 

Í málstofu um kyn og kvikmyndir kom m.a. fram að konur voru á tímum þöglu myndanna mjög áberandi sem handritshöfundar og leikstjórar en þær gerðu myndir með fjölbreyttum persónum og fjölbreytt efni. Þetta breytist á 6. áratug 20. aldar þegar sjónvarpið  kom til sögunnar og bent var á að þá hafi aukin völd karla og fjármagn jafnvel sett strik í reikninginn fyrir konur. Ein meginniðurstaða umræðna í málstofunni var að  það vantar konur í bransann en  tölur úr kvikmyndaháskólanum sýna að þetta á við bæði hvað varðar nemendur og kennara. Margar mýtur hafa verið til um hvers vegna fáar konur eru í kvikmyndabransanum eins og að konur séu ekki fyndnar, konur framleiði einungis kvennamyndir, ráði ekki við álagið, þ.e. að vinnutíminn sé óhentugur þrátt fyrir að konur skili sér vel í aðrar stéttir  með óreglulegan vinnutíma eins og t.d. heilbrigðisstörf. Bent var á nauðsyn þess að framleiða  fjölbreyttari sjónvarpsþætti og bíómyndir sem sýna allskonar stráka og allskonar stelpur. Framleiðsla sjónvarpssería á hinum Norðurlöndum eru m.a. með miðaldra  konur í aðalhlutverkum, sem hefur sett annan svip á spennusagnaþætti en þessir þættir eru að vekja mikla athygli um allan heim. 

Í málstofu um kyn og hatursorðræðu var mikið rætt um netið, netmiðla og fjölmiðla á netinu en netið er talið mikið vandamál vegna þess hve erfitt er að koma lögum yfir það.  Í málstofunni var kallað eftir að mismununartilskipanir Evrópuráðsins um minnihlutahópa verði lögfestar sem fyrst en einnig vantar löggjöf um hrelliklám. Kallað var eftir auknu fjármagni og vilja stjórnvalda í þessum málaflokki.  Mikið var rætt um lýðræðið sem er frábært á netinu en hatursorðræða sé það ekki, það sé þörf á  vitundarvakningu og fræðslu  um hvað sé málfrelsi, tjáningarfrelsi og skyldur sem felast í tjáningarfrelsinu. Rætt var um hvernig hatursorðræða á netinu letur konur til að taka þátt í umræðum og netspjalli. Ábyrgð fjölmiðla felst m.a. í að þeir þurfi að vanda sinn fréttaflutning og nauðsynlegt sé að kenna fjölmiðlalæsi. Að lokum var bent á að þrátt fyrir erfiðan málaflokk þá megi fólk ekki hætta að kæra hatursummæli því nauðsynlegt sé að þrýsta á breytingar og ýta  á lögregluna og löggjafann.

Hápunktur þingsins var  þegar vinningsatriði Hagaskóla í Skrekk 2015, „Elsku stelpur“ var sýnt. Höfundar textans og flytjendur tóku þátt í líflegum umræðum í pallborði á eftir. Óhætt er að segja að krafturinn í atriðinu skilaði sér inn í umræðurnar og gaman að sjá nýja og bráðunga kynslóð koma inn í jafnréttisbaráttuna. Texta lagsins má lesa hér og einnig horfa á myndabandið. 

Eftir að formlegri dagskrá var lokið veitti Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, viðurkenningu Jafnréttisráðs á sviði jafnréttismála vegna fjölmiðlaumfjöllunar um mál sem tengjast jafnrétti kynjanna. Viðurkenningar hlutu ritstjórn Framhaldsskólablaðsins fyrir umfjöllun um jafnréttismál, Halla Kristín Einarsdóttir kvikmyndagerðarkona fyrir heimildamyndina Hvað er svona merkilegt við það? og Sigrún Stefánsdóttir fyrir störf í þágu jafnréttis á fjölmiðlum. Rökstuðningur valnefndar.