Viðhorf ungmenna til starfa og launa

Nú liggja fyrir niðurstöður könnunar á viðhorfi íslenskra ungmenna til starfa og launa. Nokkur munur var á svörum kynjanna.


Í mars og apríl kannaði Capacent Gallup fyrir Jafnréttisráð hver væru viðhorf íslenskra ungmenna (18-23 ára) til starfa og launa. Endanlegt úrtak var 786 manns og svarhlutfall 53,7%. Spurt var um áhuga ungmennanna á að gegna 10 mismunandi störfum, hvað þau teldu líklegt að þau fengju í laun fyrir hvert starfanna og hvort þau teldu viðkomandi starf frekar hæfa konum eða körlum eða kynjunum jafnt. Meðal þess sem könnunin leiðir í ljós er að í 8 tilfellum af 10 reikna karlar með hærri launum fyrir viðkomandi starf en konur. Undantekningarnar eru starf kennara og smiðs, en munur þar er ekki marktækur.

Ekki var mikið um það að svarendur teldu störf hæfa öðru kyninu hinu frekar. Þó taldi yfir helmingur að starf smiðs hæfði betur öðru kyninu. Flest önnur störf telja langflestir svarenda að hæfi kynjunum jafn vel. Áhugi ungmennanna á að gegna ákveðnu starfi er hins vegar nokkuð mismunandi. Karlarnir hafa flestir áhuga á að verða smiðir (33,7%) eða lögfræðingar (31,5%) en hjá konum er hjúkrunarfræðingur í fyrsta sæti (37,9%) og læknir í öðru sæti (36,4%). Fæstir karlar hafa hins vegar áhuga á starfi launagjaldkera (2,9%) og hjúkrunarfræðings (5,3%). Konur hafa hins vegar minnstan áhuga á starfi verðbréfamiðlara (5,2%) og kerfisstjóra (6,4%).

Jafnréttisráð hefur ákveðið að senda könnunina til allra grunn- og framhaldsskóla í von um að niðurstöður verði nýttar í kennslu og fræðslu um íslenskan vinnumarkað og sem innlegg í jafnréttisumræðu í skólunum.

Könnunina í heild sinni má lesa hér.

Nánari upplýsingar veitir formaður Jafnréttisráðs, Fanný Gunnarsdóttir, í síma 8981709