2, 5 milljónir manna eru þolendur mansals í heiminum

Þorbjörg Gunnlaugsdóttir skrifar

2, 5 milljónir manna eru þolendur mansals í heiminum

Mansal er einn stærsti angi skipulagðrar glæpastarfsemi í heiminum, sá þriðji á eftir fíkniefnum og vopnasölu. Það er því engin ástæða til að ætla að saga stúlkunnar sem var brotaþoli í mansalsdóminum frá 8. mars sé einangrað tilvik hér á landi eða sorgarsaga einnar stúlku. Sameinuðu þjóðirnar og Evrópuráðið líta á mansal sem fjölþjóðlega glæpastarfsemi. Á heimasíðu UNODC sem er undirstofnun Sameinuðu þjóðanna– United Nations Office on Drugs and Crime – kemur fram að ein þekktasta hlið mansals sé “sex industry” eða kynlífsiðnaðurinn. Þar kemur jafnframt fram að talið er að þolendur mansals séu um tvær og hálf milljón manna og að mansal hafi áhrif í heiminum öllum. Stærsti alþjóðasamningurinn sem tekur á mansali er samningur Sameinuðu þjóðanna frá 2000 um aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi. Í Palermóbókuninni svokölluðu við þennan samning kemur fram að það eru konur og börn sem eru helstu þolendur mansals.Markaður með vændi er forsenda mansals

Jafnvel þó mansal sé nýtt viðfangsefni í íslensku refsivörslukerfi, þá liggur fyrir heilmikil þekking á þessari brotastarfsemi, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ábyrg stjórnvöld eiga að bregðast við skipulagðri glæpastarfsemi og sporna gegn henni. Þar sem það er þekkt staðreynd að ein þekktasta hlið mansals er kynlífsiðnaðurinn blasir við að líta þangað þegar reynt er að sporna gegn mansali. Mansal þrífst innan kynlífsiðnaðarins og markaður með vændi er forsenda þess að mansal geti þrifist.

Hér heima liggur einnig fyrir þónokkur þekking á viðfangsefninu. Árið 2001 var kynnt skýrsla um félagslegt umhverfi vændis á Íslandi, sem unnin var af Bryndísi Björk Ásgeirsdóttur, Hólmfríði Lydíu Ellertsdóttur og Ingu Dóru Sigfúsdóttur að beiðni dómsmálaráðuneytisins. Þegar skýrslan var kynnt sagði Sólveig Pétursdóttir þáverandi dómsmálaráðherra að umræða um vændi hefði aukist og væri það ekki síst vegna þess að svonefndur kynlífsiðnaður hefði sprottið hratt upp hér á landi og dafnað vel. Þá sagði hún: “Sú vinna, sem lögð hefur verið í rannsóknir og umfjöllun um viðfangsefnið af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hefur m.a. það markmið að leggja grundvöll að upplýstri umræðu.”

Í rannsókn Drífu Snædal viðskiptafræðings („Kynlífsmarkaður í mótun“) frá 2003, sem unnin var fyrir Reykjavíkurborg og styrkt af dómsmálaráðuneytinu, kemur fram að kynlífsmarkaðurinn á Íslandi virðist lúta sömu lögmálum og í öðrum löndum og sé tengdur alþjóðamarkaðnum sterkum böndum. Íslensk yfirvöld hafa því lagt sig fram um að afla sér þekkingar á kynlífsiðnaðinum hérlendis.

Best að gera ekkert?

Það er athyglisvert að fylgjast með umræðu um vændi þar sem sú hugmynd kemur reglulega fram að besta leiðin til að eiga við þessi afbrot sé að gera helst ekkert. Með því megi nefnilega forða þeim ósköpum að afbrotin verði hluti af neðanjarðarstarfsemi – og þá verði ekki hægt að „fylgjast með“ því sem þar fram fer. En þegar höfð er í huga hin sterku tengsl mansals við kynlífsiðnaðinn sést að þessi nálgun erfiðar yfirvöldum baráttuna verulega við mansal. Mansal þrífst innan kynlífsiðnaðarins, en er mansal endilega kyrfilega afmarkaður angi þar, þannig að hægt sé að aðgreina mansal auðveldlega frá vændi?

Ákvæðum íslenskra hegningarlaga um vændi hefur verið breytt nokkrum sinnum, frá því að bannað var að selja líkama sinn, yfir í að gera sölu og kaup á vændi refsilaust, og nú síðast var lögum breytt þannig að bannað er að kaupa vændi. Ákvæði 206. gr.almennra hegningarlaga leggur nú sektir eða fangelsi allt að 1 ári við því að greiða eða heita greiðslu eða annars konar endurgjaldi fyrir vændi. Allar útgáfur vændisákvæðis í íslensku hegningarlögunum hafa verið umdeildar – en eftir stendur þó að engin útfærsla hefur leitt af sér markað fyrir götuvændi, þ.e. hið sýnilega vændi. Staðreyndin er sú að á Íslandi þrífst varla götuvændi og vændi er ekki sérstaklega sýnilegt, mögulega vegna þess að það þjónar ekki hagsmunum kaupenda í fámennri þjóð að láta sjá sig á götum úti að versla vændiskonur. Starfsemi á borð við vændi verður líklega alltaf hluti af neðanjarðarstarfsemi á Íslandi – en það þýðir ekki ómögulegt verði að eiga við hana eða að besta leiðin sé að gera ekkert.

Vita kaupendur vændis alltaf allan sannleikann?

Hvergi í heiminum hefur það verið svo að skipulögð glæpastarfsemi hverfi, minnki eða að fórnarlömb þess hafi það betra með því að láta glæpina eiga sig. Þá aðferðafræði hafa Hollendingar reynt, með því að lögleiða vændi. Þar hafa stjórnvöld góða möguleika á því að „fylgjast með“ starfseminni. Markaðurinn er ágætlega kortlagður, án þess að mikið sé hægt að gera með þá vitneskju. Stjórnvöld hafa ekki meiri möguleika á því að grípa inn eða eiga við vændið, einmitt vegna þess að það er löglegt. Og það er sannarlega ekki svo að lögleiðing vændis hafi gert það að verkum að mansali hafi verið útrýmt. Öflugur kynlífsmarkaður eins og þekkist í Hollandi er jafnframt öflugur jarðvegur fyrir mansal og erfitt getur verið að skilja þar á milli.

Athyglisvert er að leiða hugann að því hvernig er í reynd framkvæmanlegt að skilja alveg á milli vændis og mansals. Jafnvel þó að menn fallist á að einhverjar vændiskonur starfi sem slíkar af fúsum vilja – þó stendur eftir sú staðreynd að gríðarlegur fjöldi gerir það ekki, sbr. þær tölur sem menn byggja m.a. hjá Sameinuðu þjóðunum um fjölda fórnarlamba mansals. Stúlkan í mansalsmálinu svokallaða var samkvæmt dóminum flutt hingað til lands til að stunda vændi gegn vilja sínum. Þessi stúlka hafði þá reynslu af vændi í Litháen að vera læst inni í íbúð gegn vilja sínum, þangað sem menn komu og keyptu hana. Hún var barin til hlýðni og gerði það sem henni var sagt að gera. Er víst að allir þeir karlmenn sem keyptu þjónustu hennar hafi vitað að þeir keyptu í reynd hina óhamingjusömu hóru? Konu sem látin var selja sig dag eftir dag án þess að fá nokkra greiðslu fyrir? Konu sem vildi ekki selja sig?

600. 000 einstaklingar seldir mansali í Evrópu

Í skýrslu á vegum Öryggis? og samvinnustofnunar Evrópu er talið að á hverju ári séu yfir 600.000 einstaklingar seldir mansali í Evrópu. Yfir 80% af þeim eru konur og stúlkubörn og 70% þeirra eru seldar til kynlífsþjónustu. En hvaða skref hafa íslensk stjórnvöld tekið til þess að bregðast við mansali á Íslandi? Og hvað þarf til að koma til þess að lögregla og ákæruvald geti spornað gegn mansali? Um það verður fjallað á morgun.

Þessi grein var áður birt á Miðjunni. Þrjár greinar um mansal eftir Þorbjörgu Gunnlaugsdóttur, lögfræðing munu birtast á þar næstu daga. Sú fyrsta var birt í gær: Hvaða þýðingu hefur mansalsdómurinn frá 8. mars?