55. fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York

Það er ekkert lát á viðburðum á sviði kynjajafnréttis á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Á 55. fundi kvennanefndar SÞ (Commission on the Status of Women) sem stóð yfir frá 22. febrúar til 4. mars var ný stofnun formlega sett af stað við hátíðlega athöfn: UN Women en með henni urðu fjórar stofnanir að einni. Framkvæmdastýra hinnar nýju stofnunar er Michelle Bachelet fyrrverandi forseti Chile. Hún flutti kröftugt ávarp við opnunina ásamt Ban Ki Moon framkvæmdastjóra SÞ og ýmsum öðrum sem ýmist komu af vettvangi baráttunnar, t.d. frá Nepal og Indlandi, og svo komu við sögu frægar konur eins og leikkonurnar Nicole Kidman og Geena Davis. Kidman sem verið hefur sendiherra UNIFEM talaði í gegnum gervihnött frá San Fransisco en ekki tókst betur upp en svo að sambandið rofnaði. Geena Davis sem einkum hefur leikið í sjónvarpsþáttum undanfarin ár hefur sett á stofn Geena Davis Institute on Gender in Media sem vinnur að fjölmiðlarannsóknum í þeim tilgangi að breyta staðalmyndum kynjanna. Í máli Davis kom fram að rannsóknir sýna að engin breyting hefur orðið á hlut og ímyndum kvenna í sjónvarpsmyndum undanfarin 20 ár. Þar ráða staðalmyndirnar ríkjum með nokkrum undantekningum þó.
 
Kynheilbrigði kvenna eitt mikilvægasta baráttumálið

Fundur kvennanefndarinnar fjallaði að þessu sinni annars vegar um tækifæri kvenna til menntunar, starfsþjálfunar og sæmandi starfa ( vísindarannsóknir komu þar einnig við sögu ), hins vegar um stúlkubarnið með sérstakri áherslu á ofbeldi og útbreiðslu HIV. Hvort tveggja á sér stoð í Pekingsáttmálanum og aðgerðaáætluninni frá 1995. Á fundinum í fyrra var bent á að stúlkubarnið hefði gleymst og því var ákveðið að beina sjónum að stöðu þeirra.

Norðurlöndin hafa staðið fyrir sameiginlegum viðburðum meðan á fundum kvennanefndarinnar stendur og voru haldnir tveir fundir þar sem fjallað var um ofangreind efni. Norðurlöndin fjölluðu um ofbeldi gegn bæði stúlkum og drengjum og langtíma afleiðingum þess fyrir börn. Einkum var rætt um kynferðisofbeldi gegn börnum og svo þau börn sem upplifa ofbeldi á heimilum sínum einkum gegn mæðrum sínum.

Á fundi Norrænu ráðherranefndarinnar um menntamálin var bent á hve nauðsynlegt væri að skoða skólabækurnar enn að nýju, þær væru fullar af gamaldags staðalmyndum. Þá yrði líka að beina sjónum að ýmis konar óformlegri menntun, t.d. þeirri sem fram fer innan íþróttafélaga, í skátahreyfingunni og víðar. Í Svíþjóð hafa tvær nefndir verið að skoða skólakerfið út frá kynjasjónarhorni og hefur önnur þeirra bent á hve nauðsynlegt sé að endurskoða kennsluefni, ekki síst í sögukennslu. Það rifjar upp að hér á landi eru nýútkomnar kennslubækur í sögu fyrir grunnskóla þar sem „kvenmannslaus saga Íslendinga“ er enn einu sinni endurtekin sem reyndar er reginhneyksli. Sænski jafnréttisráðherrann er mikil áhugakona um kynheilbrigði og minnti á að aðalorsök dauða ungra stúlkna og kvenna í heiminum eru þungun og barnsburður. Það er því afar brýnt að fræða bæði konur og karla um kynheilbrigði og réttinn til að ráða yfir eigin líkama og koma í veg fyrir barnagiftingar og þvingaðar giftingar. Í Svíþjóð hafa menn áhyggjur af því að hópur foreldra bannar börnum sínum að sækja tíma í ýmsum greinum, t.d. í kynheilbrigði og jafnvel íþróttum og tónlist. Sænsk stjórnvöld eru að vinna að því að girða fyrir þetta nema að sérstakar ásæður búi að baki.

Sólarorkan og ömmurnar

Undirrituð sótti ýmsa aðra sérfundi, pallborðsumræður og hlustaði á ræður aðildarríkjanna. Afar skemmtilegur fundur var haldinn um menntun og vísindi í víðasta skilningi. Þar rifjaði bandarísk fræðikona upp að mynd barna af „vísindamanninum“ er enn myndin af Einstein gamla og ekki draga kvikmyndir og sjónvarp úr þeirri ímynd. Stúlkur sjá enn fáar fyrirmyndir sem þær geta mátað sig við á sviði raunvísinda. Í þessu samhengi má nefna að fram kom í ræðu Bandaríkjanna hve mjög hallaði á konur í aðgengi að allri upplýsingatækni. Bandarísk stjórnvöld eru að gera samninga við bandarísk símafyrirtæki til að reyna að bæta þar úr. Í Mexíkó reka ungar konur farsímaleigu fyrir konur því mjög margar hafa ekki efni á að kaupa sér síma sem getur verið mikið öryggistæki. Þá hlustaði ég á erindi um rafvæðingu þorpa í Afríku með sólarorku. Indversk stjórnvöld styðja það verkefni sem felst í að þjálfa ömmur í að setja saman og setja upp sólarrafhlöður og leiða rafmagn inn í húsin. Ömmur voru valdar annars vegar af því að þær reyndust skila mestu til þorpsins síns og hins vegar vantar víða mikið inn í millikynslóðina bæði af körlum og konum vegna alnæmis. Sýnd var heimildarmynd sem sýndi tvær ömmur frá Malí fara til Indlands til að læra á sólarorkuna. Síðan fóru þær heim og rafvæddu þorpið sitt á tíu dögum! Mest er byltingin fyrir börnin sem geta nú lesið og lært á kvöldin við almennilega birtu og konurnar sem elda matinn við mun betri skilyrði en áður.

Evrópusambandið stóð fyrir fundi um kyn og græn framtíðarstörf. Það er svið sem við Íslendingar ættum að beina sjónum að. Ungverski jafnréttisráðherrann sagði frá því hvernig væri verið að taka ferðamannaiðnaðinn algjörlega í gegn í Ungverjalandi hvað varðar vistvæn hótel, matargerð, umgengni við náttúruna og fleira. Það þarf vart að nefna að konur eru fjölmennar í ferðaþjónustunni.

Verkefni UN Women

Undirrituð fékk tækifæri til að sækja hádegisverðarfund í boði UN Women þar sem Michelle Bachelet og samstarfsfólk hennar bauð til umræðu. Þátttakendum var skipt niður á borð eftir svæðum og sat ég við borð með nokkrum Evrópuþjóðum ásamt Ísrael og Bandaríkjunum. Við vorum beðin að svara nokkrum spurningum svo sem hvað UN Women gæti gert fyrir okkar svæði, hvert hlutverk stofnunarinnar ætti að vera og hvaða málefni skipti mestu. Þetta var skemmtileg umræða sem leiddi af sér margar tillögur til UN Women. Á mínu borði var lagt til að haldið yrði áfram að kortleggja stöðu kynjanna í heiminum og mælitæki þróuð til að hægt væri að bera lönd saman. Þá var lögð áhersla á kynjasamþættingu á öllum sviðum, kynheilbrigði, kynjasjónarhorn í friðargæslu, kyn og loftslagsbreytingar, aukin efnahagsleg völd kvenna ekki síst í stjórnum fyrirtækja, þátttöku karla í umræðunni og að sjónum yrði beint að „karlamenningu“ jákvæðri sem neikvæðri. Loks var hvatt til þess að UN Women yrðu leiðandi í stefnumótun hvað varðar aukið jafnrétti og jafna möguleika kynjanna.

Ýmislegt kom fram í ræðum aðildarríkja SÞ svo sem að í Ísrael eru jafnréttisfulltrúar í öllum háskólum sem hafa það hlutverk að benda á kynjahalla á öllum sviðum og virðast þeir hafa nokkur áhrif. Í ræðu Grikklands var bent á mikilvægi þess að styðja konur í N-Afríku sem nú búa við byltingarástand. Reynslan kennir okkur að konur eru yfirleitt mjög virkar í öllum byltingum og umbótum en þegar tekur að lægja er þeim ýtt til hliðar.

Sem fulltrúi Íslands varð ég vör við að þeir sem vinna í jafnréttisgeiranum hafa tekið eftir því að Ísland mælist efst á lista yfir þau ríki heims sem bjóða þegnum sínum upp á hvað mest kynjajafnrétti. Hvernig hafið þið farið að var spurt. Við höfum því ýmsu að miðla varðandi aðgerðir, lög og viðhorfsbreytingu en fyrst og fremst eigum við starfi frjálsra félagasamtaka kvenna að þakka hvaða árangri við höfum náð og þeim þrýstingi sem þau hafa beitt. Enn er þó mikið verk að vinna ekki síst á vinnumarkaði ef við ætlum að halda fyrsta sætinu.