Á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York

Fimmtugasta og þriðja fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna lauk í New York 13. mars en undirrituð sat þá frá 2. – 5. mars. Að þessu sinni var megin umræðuefnið: jöfn ábyrgð kynjanna á umönnun með sérstöku tilliti til alnæmis. Auk þessa efnis voru haldnir fundir um ýmis mál svo sem kynin í kreppunni, kynbundið ofbeldi og kyn og loftslagsbreytingar.Að venju voru félagasamtök og stofnanir með ýmis konar hliðarviðburði, t.d. greindu konur frá Afganistan frá stöðu mála í landi sínu. Norræna ráðherranefndin stóð fyrir tveimur viðburðum, Norðmenn héldu málþing um kosti þess að konur og karlar komi jafnt að stjórnun fyrirtækja og Finnar heiðruðu að vanda frumkvöðulinn Helvi Sipilä með fundi um konur, frið og öryggi.

Alnæmisvandinn vex og vex
Við sem búum í velferðarríkjum norðursins gerum okkur enga grein fyrir því hve grátt alnæmisvandinn er að leika mörg samfélög Afríku einkum sunnan Sahara. Í ræðum kom fram að heilbrigðiskerfi margra Afríkuríkja ráða ekkert við vandann og senda sjúklinga heim. Hver á að hugsa um þá þar? Það lendir á herðum þeirra kvenna sem eftir eru sem og barnanna en það er einkum foreldrakynslóðin, fólkið sem ætti að halda atvinnulífinu gangandi sem er veikt eða horfið yfir móðuna miklu. Í umræðunum var talað um umönnunarhagkerfið sem er bæði sýnilegt og ósýnilegt og lagt til að það yrði tengt við mannréttindi því margir búa við mikla mismunun hvað varðar umönnun. Í erindi Marilyn Waring sem er þekkt fræðikona frá Nýja Sjálandi kom fram að reikna mætti með að umönnun alnæmissjúklinga tæki ekki minna en sex tíma á dag við aðstæður þar sem sækja þarf vatn langar leiðir. Öll sú vinna er ólaunuð og það gefur auga leið hve mikið álag fylgir henni ofan á umönnun barna og brauðstritið.
Marilyn Waring hefur um árbil kannað umfang og eðli ólaunaðrar og oft ósýnilegrar vinnu sem einkum er unnin af konum. Í tímum talið er ólaunuð vinna önnur stærsta atvinnugrein í heimi að sögn Waring. Hún telur vanmat á vinnu kvenna eiga stóran hlut í bágum kjörum þeirra og lágum launum. Hún sagði að Sameinuðu þjóðirnar hefðu komið sér saman um skilgreiningu á þjóðhagsreikningum snemma á sjötta áratugnum og þar var ólaunuð vinna alls ekki talin með. Árið 1993 var skilgreiningin endurskoðuð og ýmsu bætt við en þó voru mikilvæg svið sem snerta ólaunaða vinnu innan heimila skilin eftir svo sem matargerð, umönnun barna, sjúkra og aldraðra og hreingerningar.

Gera þarf ósýnilega vinnu kvenna sýnilega
Kenning Waring er sú að það hve vinna kvenna innan heimila sé ósýnileg geri að verkum að framlag þeirra til samfélagsins sé stórlega vanmetið og þegar sú vinna sem áður var unnin inni á heimilunum flyst út í samfélagið er hún metin til lágra launa þó að hún snúist um einhver mikilvægustu verkefni hvers samfélags svo sem að koma nýrri kynslóð á legg. Með því að vinnan innan heimilanna sé hvorki mæld né metin verði til ósýnilegur heimur (ósýnilegt hagkerfi) og þangað er hægt að vísa alls konar vandamálum, t.d. umönnun alnæmissjúklinga. Einhver tekur við þeim, einhver gefur þeim að borða, einhver þrífur þá, vandamálið bara gufar upp í opinberum gögnum. En það er sprelllifandi í veruleika þeirra kvenna og barna sem taka við sjúklingunum. Lífskjör þeirra skerðast, tækifærin til að menntast og stunda vinnu rýrna til muna. Waring fullyrti að heimskreppan myndi auka álag á heimilin og þá einkum konur. Niðurskurður á opinberri þjónustu eykur álag á heimilin því þörfin fyrir þjónustu minnkar ekki. Ef takast á að jafna ábyrgð á ummönnun, barna, sjúkra og aldraðra verður að gera ólaunaða vinnu sýnilega og draga fram hve brýnt er að jafna álagið ef konur eiga að hafa sömu tækifæri og karlar á öllum sviðum samfélagsins.
Norðurlöndin stóðu fyrir fundi um umönnun frá vöggu til grafar og beindust sjónir mjög að fæðingarorlofi og þátttöku karla í því en þar erum við Íslendingar fremstir í flokki. Í umræðunum kom fram sú spurning hvort komið hefði til tals að innleiða orlof vegna annars konar umönnunar, t.d. sjúkra foreldra? Þetta er athyglisverð spurning en tengist því sem áður var sagt um hættuna á því að umönnun færist í æ ríkara mæli inn á heimilin á kostnað kvenna. Kona frá Kenýa var ekki par hrifin af áherslu Norðurlandanna á að kalla karla til ábyrgðar. Hún sagði mikilvægast að mæður hefðu tíma til að sinna börnum sínum og að körlum væri alls ekki treystandi fyrir þeim. Sjónarmið úr allt annarri átt en við erum vön.

Kyn og loftslagsmál
Nýjasta viðfangsefni kynjaumræðunnar er umfjöllun um kyn og loftslagsbreytingar. Það snýst einkum um þrjú svið. Í fyrsta lagi hve fáar konur koma að stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum. Könnun leiðir í ljós að konur hafa verið um 27% samningamanna um aðgerðir í loftslagsmálum. Í öðru lagi sú staðreynd að miklu fleiri konur farast í náttúruhamförum en karlar. Í flóðunum miklu í Asíu 2004 voru konur um 80% þeirra sem létu lífið. Skýringarnar eru þær að konur læra síður að synda, þær halda sig meira innan dyra og komast ekki út, þær mega ekki vera án karlmannsfylgdar á stórum svæðum og síðast en ekki síst flækist klæðnaðurinn fyrir þeim. Viðbragðsáætlanir þurfa að taka mið af þessu. Í þriðja lagi snýst umræðan um það hve mikil áhrif konur, einkum á Vesturlöndum, geta haft á umhverfismál sem neytendur og stjórnendur neyslu heimilanna. Síðast talda efnið gengur líka út á að vekja athygli á mismunandi hegðun kynjanna og þar af leiðandi mismunandi áhrifum þeirra á umhverfið. Ef við horfum á okkar heimshluta má nefna að karlar í Svíþjóð eru ábyrgir fyrir 70% aksturs einkabíla, meðan konur nota almenningssamgöngur mun meira en karlar. Konur eru aftur á móti stórneytendur á snyrtivörum, hreinlætisvörum og ýmsu öðru sem gengur á auðlindir jarðar og mengar. Í ljós hefur komið að konur hafa meiri áhuga á umhverrismálum en karlar og eru reiðubúnari til að kaupa vistvænar og lífrænt ræktaðar vörur. Vald neytandans er mikið og það gætu konur nýtt sér miklu betur til áhrifa.
Í desember á þessu ári verður haldin stór ráðstefna í Kaupmannahöfn um loftslagsmál, COP15, þar sem samið verður um næstu skref til að draga úr óæskilegum loftslagsbreytingum sem vel að merkja ganga mun hraðar en reiknað hafði verið með. Undirbúningsfundur verður haldinn í júní og þangað ætla félagasamtök að senda fulltrúa til að hafa áhrif á væntanlega samninga.
Norðurlöndin héldu sérstakan fund um kyn o g loftslagsbreytingar þar sem sýnd var glæný stuttmynd. Tillögur sem ætlaðar eru Norrænu ráðherranefndinni voru kynntar og rætt hve brýnt væri að fá samninganefndir til að skilja hve mikilvægt kynjasjónarhornið er í þessu mikilvæga máli og að koma konum inn í samninganefndirnar. Loftslagsbreytingar snúast ekki bara um koltvísýringskvóta heldur um líf okkar og framtíð á jörðinni.

Það þarf að sannfæra karla um ágæti jafnréttis kynjanna
Eins og áður var nefnt efndu Norðmenn til fundar um efnahagslegan ávinning af jafnrétti kynjanna. Norðmenn eru ákaflega stoltir af lögunum sem kveða á um að hlutur kynjanna skuli ekki vera minni en 40% í stjórnum þeirra fyrirtækja sem skráð eru í kauphöllinni. Í fyrstu mættu tillögurnar um kvótann mikilli andstöðu atvinnurekenda en nú vildu allir Lilju kveðið hafa því þessi aðgerð er að skila sér í bættri ímynd, betri rekstri og auknum hagnaði fyrirtækjanna. Nú er til umræðu að lögin nái til fyrirtækja í eigu sveitarfélaga og meðalstórra fyrirtækja. Á þessum fundi fjallaði prófessor Michael Kimmel um það hvers vegna karlar ættu að ýta undir jafnrétti kynjanna. Kimmel sem er Bandaríkjamaður er meðal þekktustu fræðimanna á sviði karlarannsókna. Hann nefndi að það væru fimm ríki í veröldinni sem ekki styrktu foreldra með því að bjóða upp á greiðslur í fæðingarorlofi. Bandaríkin eru eitt þeirra en hin teljast til fátækustu ríkja heims. Það er því ekki beinlínis verið að ýta undir þátttöku karla í uppeldi barna sinna vestur í henni Ameríku. Kimmel sagði að karlar hefðu löngum notið forréttinda og að fyrir þeim sem þeirra njóta séu þau ósýnileg því þeir þekkja ekkert annað. Það væru karlar sem hefðu notið góðs af sértækum aðgerðum sem væru hreinlega sjálf mannskynssagan, karlar hefðu ætið ráðið för. Með því að gera mismunandi stöðu kynjanna sýnilega verða forréttindin líka sýnileg. Nú þarf að snúa hlutunum við og leggja áherslu á yfirskipaða stöðu karla í kynjaumræðunni. Karlar segjast vilja fá meiri tíma til að sinna fjölskyldu sinni og það munu þeir fá þegar tekst að skipta ábyrgð og heimilisverkum jafnt. Það er löngu sannað að því jafnari verkaskipting því betri sambönd. Ef takast á að jafna þarf aðgerðir. Það þarf að sannfæra karla um ágæti jafnréttis kynjanna sagði Kimmel.

Bandaríkin snúa við blaðinu
Á þessum fjölsótta fundi kvennanefndarinnar biðu þátttakendur spenntir eftir ræðu Bandaríkjanna. Á valdatíma Bush skipuðu Bandaríkin sér í röð þeirra ríkja sem beittu sér gegn rétti kvenna til að ráða yfir eigin líkama, getnaðarvörnum og fræðslu um takmörkun barneigna. Nú kvað heldur betur við annan tón. Eitt af fyrstu verkum Obama var að aflétta banni við fjárstuðningi til samtaka sem vinna að fræðslu um takmarkanir barneigna, hvetja til notkunar smokksins og fleira í þeim dúr. Bandaríkin eru aftur kominn í hóp þeirra ríkja sem leggja áherslu á mannréttindi kvenna á öllum sviðum. Því miður hafa aðrir tekið við afturhaldshlutverkinu. Innan Evrópusambandsins er nú háð mikil rimma um jafnrétti kynjanna. Ríki eins og Tékkland og Pólland ásamt Möltu og Írlandi mega vart heyra minnst á hjónaskilnaði og kynheilbrigði og vilja ná slíkum ákvæðum út úr samþykktum sambandsins. Þar standa Danmörk, Finnland og Svíþjóð þétt saman við að verja áunnin réttindi ásamt fleiri ríkjum og þiggja stuðning Íslands og Noregs á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Á næsta ári verða 15 ár liðin frá kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking. Enginn veit hvar við verðum stödd þá. Kreppan geisar áfram en vonandi verður hún tekin að hjaðna. Ekki eru líkur á að mikið verði um fögnuð í New York. Enn hallar allt of mikið á konur til þess að ástæða sé til veisluhalda þótt hænuskref séu stigin hér og þar. Miklu fremur þarf að standa vaktina og gæta þess að afturhalds- og heittrúaröflum takist ekki að svipta konur mannréttindum eins og oft hefur gerst í sögunni.