Að virkja karla í jafnréttisbaráttunni

Arnar Gíslason skrifar

Að virkja karla í jafnréttisbaráttunni

Nokkur orð um töfralausnir og erfiðar fæðingarÁ Íslandi eru karlar í jafnréttisbaráttu að nokkru leyti fyrirbæri sem er búið að festa sig í sessi – í það minnsta í bili. En líklega þarf fleiri tegundir af rými. Og nú sýnist mér vera einstakt tækifæri í sjónmáli. Allir þessir karlar með börn í vagni eða bundin framan á sig – þessi afsprengi feðraorlofsins, sem stundum hefur verið talað um sem eina umfangsmestu sértæku aðgerðina í þágu kynjajafnréttis á Íslandi.Þegar þessi greinarstúfur var fyrst fluttur sem erindi var haft á orði við mig að þetta væri eins konar hugvekja. Það var nú ekki ætlunin, en kannski var það útkoman. Þá er ekki annað að gera en að gangast við því, og vonast til að hugvekja um aðkomu karla að jafnréttisbaráttunni verði að einhverju gagni.

Innkoma karla í þá baráttu hefur verið með ýmsum hætti, og þátttöku þar geta fylgt alls konar tilfinningar. Sumir koma inn nokkuð reiðir, jafnvel bitrir, yfir óréttlæti af ýmsu tagi, í sinn garð eða annarra. Stundum er áherslan einkum á þau vandamál sem steðja að körlum, og hefur oft verið fjallað um stráka í skólum, vandamálin fyrir karla að lifa eftir ákveðinni karlmennsku-forskrift, eða þá erfiðleika sem karlar þurfa að kljást við í tengslum við fjölskyldulíf sitt, einkum karlar sem eiga börn sem þeir, af ýmsum ástæðum, hafa ekki forræði yfir. Sumt af þessu má kannski kalla eina vídd jafnréttisbaráttu karla, réttindavíddina ef ég einfalda. Sumsé, hvaða réttindi telja karlmenn að þá skorti en sé eðlilegt að þeir hafi, og hvernig fara þeir að því að sannfæra samfélagið um að þeir eigi þau skilið?

Svo er önnur vídd, hún snýst meira um hvernig karlar vinna að því að afbyggja feðraveldið, sumsé að vinna í því að sannfæra samfélagið um að karlar eigi ekki rétt á sérstökum forréttindum eða fyrirgreiðslum sem karlmenn. Hér er mikilvægt að halda því til haga að fyrirbæri sem karlmenn bera ekki endilega ábyrgð á sem einstaklingar geta þeir samt sem áður valið að taka sameiginlega ábyrgð á, og er kynbundið ofbeldi gott dæmi um þetta. Þó karlar séu mikill meirihluti gerenda í kynferðisofbeldismálum, þá eru fæstir karlar kynferðisofbeldismenn. Engu að síður geta karlar sem heild kosið að taka sameiginlega ábyrgð á vandamálinu, enda erum við karlar líklega í lykilstöðu til að hafa áhrif á aðra karla hvað þetta varðar.

Ef reynt er að greina meginstefin í jafnréttisbaráttu karla síðustu áratugina (og þá horfi ég helst til Bretlands, Bandaríkjanna og Norðurlandanna) þá ber einna hæst baráttu samkynhneigðra, barátta gegn kynbundnu ofbeldi og svo fjölskyldumál og föðurhlutverkið. Til viðbótar koma svo hugmyndir og umræður um karlmennsku, heilsu karla og ýmislegt fleira. Það má kannski segja að nokkur „pólaríseríng“ verði stundum til, og kemur það m.a. til af því að sumir hópanna byggja á femínisma að miklu eða einhverju leyti, og kalla sig ýmist femíníska eða pró-femíníska, á meðan aðrir notast lítið eða ekkert við hugmyndafræði femínismans, eða að þeirra hugmyndafræði er beinlínis í andstöðu við femínisma, leynt eða ljóst.

Á Íslandi virðist þetta einnig hafa gerst.  Svo virðist sem við höfum tvo ólíka póla sem báðir eru að vinna í því, hvor með sínum hætti, að draga úr ójafnvægi, en munurinn felst kannski í því hvaða atriði sé lögð áhersla á. Mín reynsla er sú að lítið hefur verið um samræðu og samvinnu milli þessara póla, sem þó hafa sama almenna meginmarkmiðið, jafnrétti karla og kvenna.

Burtséð frá því hvaða hugmyndafræði menn taka sér til fyrirmyndar, þá getur verið flókið ferli fyrir karla, ekki síður en konur, að byrja að velta jafnréttismálum fyrir sér og taka þátt í slíkri baráttu. Stundum hellist yfir menn samviskubit, bæði vegna þess hvernig karlar og feðraveldið í heild sinni hafa komið fram við konur í gegnum tíðina, sem og vegna sinnar eigin hlutdeildar í þessu kynjakerfi. Svo kemur að því að karlar fara að sjá hlutina í betra samhengi, og átta sig á að þeir geta ekki borið ábyrgð á öllum syndum feðranna, en að þeir geta tekið ábyrgð á kynjakerfi dagsins í dag, og hjálpað til við að brjóta upp það sem ekki virkar og byggja annað í staðinn.

Þegar karlar eru að ganga í gegnum þetta ferli, þá er ýmislegt hægt að gera til að taka á móti þeim. Í fyrsta lagi þurfa þeir rými, rými til að hugsa, tala saman og framkvæma. Og miklu munar um að komast í kynni við aðra karla í sömu sporum, sem og konur sem velt hafa fyrir sér og unnið að jafnrétti. Ennfremur er mikilvægt að hugsa um þetta ferli, að verða jafnréttissinni, einmitt sem ferli. Ekki sem tvo flokka, að annaðhvort sértu jafnréttissinni eða ekki, femínisti eða ekki. Þú ert annað hvort að vinna í þínum málum eða ekki, og þá er ekki aðalmálið hversu langt þú ert kominn. Þú ert annaðhvort að velta jafnréttismálum fyrir þér eða ekki, og ef þú ert í því ferli þá þarftu stuðning til að komast áfram, öðlast betri skilning og reyna að gera þær breytingar sem þú telur nauðsynlegar.

En hvernig er hægt að koma því ferli af stað, hvernig virkjum við karla í jafnréttisbaráttunni? Ég held að við þessu sé ekkert almennilegt svar, engin töfralausn. Ég er ekki viss um að hægt sé að „virkja karla“, eins og fossa eða lón, til að taka þátt í jafnréttisbaráttunni. Í mínu starfi sem ráðskona karlahóps Femínistafélags Íslands komst ég að því að karlar sem hafa áhuga á að vinna í jafnréttismálum eru ekki á hverju strái. Þó það séu fjölmargir sem hafa áhuga á jafnréttismálum, þá er eðlilega ekki samasemmerki með því að hafa áhuga á einhverju og að vera tilbúinn til að gera það að sínu helsta baráttumáli.

Ég held að það sé því réttara að segja að karlar hreinlega virkjist í baráttunni, eða þá að þeir virkji sjálfa sig eða hvern annan. Hér á ég við að það er ekki hægt að draga inn í slíka baráttu þann sem ekki er tilbúinn. Oft er það sambland af alls konar upplifun og lífsreynslu sem leiðir karla í slíka vinnu, það getur verið persónuleg reynsla af einhvers konar kynjuðu óréttlæti, eða eitthvað sem fólk hefur séð eða lesið og hefur hrist upp í því. Í sumum tilfellum má hreinlega segja að menn hafi bara „lent í“ femínískum félagsskap, ef svo má að orði komast.

Það er því kannski ekki mikið hægt að gera til að koma svona ferli í kring hjá einstökum karlmönnum. Og þegar það gerist sem við getum kannski kallað kynjaða hugljómun, þá er ekki alltaf augljóst hvert sé best að snúa sér. Þetta hefur verið mjög handahófskennt síðustu ár, en ég veit þó um nokkur dæmi þess að karlar sem tengjast innbyrðis hafa byrjað að hittast og ræða saman, en allur gangur er á því hvort sú umræða hafi færst eitthvað út fyrir hópinn.

Eitt er þó hægt að gera til að auka líkurnar á því að fleiri karlar velti hlutum af þessu tagi fyrir sér, sem myndi vonandi leiða til stækkunar á mengi karla í jafnréttisbaráttu. Hér er ég einfaldlega að tala um að opna betur umræðuna um karla sem kyn. Þetta blasir nefnilega ekki nægilega vel við okkur karlmönnum, það er vel hægt að komast hjá því að velta þessu fyrir sér. Sem karlmaður er ósköp auðvelt að upplifa sig sem normið, sem viðmiðið, en konur finna frekar fyrir því að vera frávik í samfélaginu. Frá þessu eru auðvitað undantekningar, þegar karlar finna óréttlæti á eigin skinni, og þetta á heldur ekki við um allar konur, hjá þeim er auðvitað einnig um að ræða ferli þar sem kona fer að sjá að ekki sé allt með felldu. En þetta virðist bara gerast svo miklu síður hjá körlum, og því nefni ég það að karlar eigi auðveldara með að upplifa sig sem viðmið samfélagsins, frekar en frávik, og eru því síður að standa í því að skoða karla sem kyn.

Um leið og fólk fer að hugsa um karla sem kyn er augljóst að ýmis atriði eru sértæk fyrir karla, þeir eru ekki „bara fólk“. Í þessu sambandi er hægt að horfa til aðkomu karla að fjölskyldu sinni, ólíku náms- og starfsvali kynjanna, kynbundins ofbeldis, vinnuhegðun kynjanna, ofbeldismenningu og hugmynda um karlmennsku. Sumsé, það eru alls konar hefðir, reglur, siðir og forskriftir sem hafa áhrif á líf karla og þeir þurfa að læra að sigla í gegnum. Hugtakið hegemónísk karlmennska vísar til þess að á hverjum tíma eru til margar gerðir af karlmennsku en sumar þeirra eru ofar í goggunarröðinni en aðrar – þær þykja af einhverjum ástæðum betri, merkilegri og mikilvægari. Undanfarin ár hefur farið nokkuð fyrir karlmennsku sem er m.a. samsett úr hraða, peningum, græðgi, eyðslu og áræðni (eða kannski er réttara að tala um fífldirfsku ellegar áhættufíkn hreinlega). Hún er þó á hröðu undanhaldi.

Önnur gildi hafa auðvitað verið til staðar á sama tíma, t.d. samvera með börnum og fjölskyldu, minni vinna og meiri frítími, lítil áhersla á eignasöfnun o.s.frv., en þessi gildi hafa ekki ómað hátt í samanburði við þotugnýinn í hegemóníska útrásarvíkingnum. Með töluverðri einföldun mætti kannski halda því fram að undanfarin ár hafi íslensk karlmennska þjáðst af ójafnvægi – of mikið yang og of lítið yin? Alltént má segja að ef það er eitthvað sem hefur verið skortur á hér á landi á undanförnum góðærisárum þá er það jafnvægi, og það á líka við um þróun hugmynda um karlmennsku eins og svo margt annað.

Á Íslandi eru karlar í jafnréttisbaráttu að nokkru leyti fyrirbæri sem er búið að festa sig í sessi – í það minnsta í bili. En líklega þarf fleiri tegundir af rými. Og nú sýnist mér vera einstakt tækifæri í sjónmáli. Allir þessir karlar með börn í vagni eða bundin framan á sig – þessi afsprengi feðraorlofsins, sem stundum hefur verið talað um sem eina umfangsmestu sértæku aðgerðina í þágu kynjajafnréttis á Íslandi. Þetta eru karlar sem eru að upplifa sig sem feður, kannski í fyrsta sinn, og að átta sig á hversu eðlilegt og náttúrulegt það er þeim að sýna litlum einstakling umhyggju og ást. Þeir eru líklega að velta fyrir sér hvers konar pabbar þeir vilji, eða eigi, að vera og þar togast á alls konar föðurímyndir, m.a. úr fjölmiðlum og þeirra eigin reynslu, ekki síst af sínum eigin föður, hvort sem hann var nálægur, fjarlægur eða fjarverandi með öllu.

Þessa orku þurfum við að virkja. Þessum körlum þurfum við að gefa tækifæri til að hittast og tala saman, deila sinni reynslu sem karlar og uppalendur, sinni gleði og sinni hræðslu í þessu dásamlega, en stundum yfirþyrmandi hlutverki. Þetta væri góður byrjunarpunktur hvað þennan hóp varðar. Og hver veit nema einhver af þessum körlum myndi í framhaldinu gera eitthvað stórkostlegt og nýstárlegt. Það veit enginn hvað kemur næst, en samt er mikilvægt að hlúa að því og hjálpa því að vaxa.

Með því að gera uppeldishlutverkinu hærra undir höfði í hugmyndum um karlmennsku aukum við líkurnar á því að karlar forgangsraði frekar í þá átt heldur en að vinnan komi fyrst, og fjölskyldan svo. Þetta helst í hendur við jafnrétti kynjanna á vinnustöðum og launajafnrétti, þannig að til mikils er að vinna. Enn fremur er ljóst að nokkur breyting hefur orðið á aðkomu karla að fjölskyldu og uppeldi barna sinna á síðustu árum, og henni þurfum við að gera skil með einhverjum hætti.

Blóm og kransar eru því vinsamlegast afþakkaðir við útför útrásarkarlmennskunnar, en þeim sem vilja minnast hennar er bent á pabbamorgna á Kaffi Hljómalind, Laugavegi 23 í Reykjavík, á hverjum miðvikudegi milli 10-12.___________________________________
Byggt á erindi sem flutt var á Jafnréttisþingi 16. janúar 2009