Að virkja ungt fólk í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi

Hjálmar G. Sigmarsson skrifar

Að virkja ungt fólk í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi

Námskeið um jafnréttismál og kynbundið ofbeldi fyrir starfsfólk Félagsmiðstöðva AkureyrarbæjarFræðsla og umræða um kynbundið ofbeldi hefur færst í aukana. Síðastliðin ár hafa yfirvöld markað skýrari stefnu í þessum málum með aðgerðaáætlunum, rannsóknum og fræðslu.Þar á meðal hafa sveitafélög aukið aðgerðir sínar og fyrir tveimur árum samþykkti Akureyrarbær fyrst sveitarfélaga aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum til tveggja ára, þ.e. 2010-2011.

Sem hluti af þessari aðgerðaáætlun hefur samfélags- og mannréttindadeild Akureyrarbæjar og Jafnréttisstofa skipulagt saman fræðslu um kynbundið ofbeldi. Í framhaldi af fræðslufundum sem starfsfólki Akureyrarbæjar var boðið upp á í mars mánuði 2011, var ákveðið að þróa ýtarlegri fræðsludagskrá sem myndi þjóna sem grunnur af áframhaldandi fræðslu og verkefnavinnu. Með þetta í huga var ákveðið að setja saman fræðslu fyrir starfsfólk félagsmiðstöðva Akureyrarbæjar, sem fór fram í maí 2011.

Mikilvægi þess að auka þekkingu og fræðslu um jafnrétti kynjanna og kynbundið ofbeldi á meðal unglinga hefur fengið aukna athygli undanfarin ár. Rannsóknir á Íslandi hafa sýnt fram á að viðhorf unglinga til jafnréttismála séu íhaldsamari í dag en fyrir rúmum áratug. Í ljósi þessara niðurstaðna er mikilvægt að auka  þekkingu og hafa áhrif á viðhorf ungs fólks til þessara mála og  vinna með ungu fólki í að þróa nálganir sem hjálpa við að bæta vitund og þátttöku þeirra í þessum málaflokki.  Á alþjóðlegum vettvangi er sífellt verið að þróa nálganir og verkefni sem eiga að höfða til ungs fólks og stundum sérstaklega til ungra karlmanna, til að auka þekkingu þeirra á kynjamisrétti og  virkja þá í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi.

Tilgangurinn með  fræðslunámskeiði Jafnréttisstofu og Akureyrarbæjar var að veita starfsfólki félagsmiðstöðva upplýsingar um jafnréttismál og kynbundið ofbeldi. Einnig var lögð sérstök áhersla á hvernig þessi mál snerta ungt fólk á Íslandi. Markmið fræðslunnar var að skapa þekkingu og umræðu um þennan málaflokk, til þess að þróa aðferðir og nálganir til að hvetja ungt fólk til að takast á við jafnréttismál og kynbundið ofbeldi. Fræðslunni var háttað þannig að lögð var áhersla á að blanda saman fyrirlestrum, heimildarmyndum, umræðum og „hugarflæðis“ vinnu. Auk þess að leggja áherslu á marga þætti sem snerta þennan málaflokk var markvisst unnið að því að velja fyrirlesara með fjölbreytta reynslu og ólíkar nálganir. Fræðslunámskeiðið skiptist niður á fjögur skipti, þrjá tíma í senn. Í hvert skipti var tekið fyrir ákveðið þema. Þemun voru jafnréttismál, kynbundið ofbeldi, jafnrétti og strákar, og lokafundurinn fór í umræður og hugarflæðisvinnu. 

Í umræðunum kom margt fram sem gæti nýst vel þegar verið að þróa og undirbúa fræðslu fyrir ungt fólk um jafnréttismál og kynbundið ofbeldi.  Meðal annars kom fram að það er þörf á meiri fræðslu, unglingar taka fræðslu vel, sérstaklega ef hún höfðar til þeirra. Einnig kom  fram að unglingar hafa mikla réttlætiskennd, þeir vilja ræða málin, eru að leita af sjálfsmynd og skortir fyrirmyndir. Takmörkuð þekking þeirra og leiðbeinanda afmarkar hins vegar oft umræður og unglingar geta farið í vörn fyrir vikið. Þátttakendur bentu á að það getur verið mjög auðvelt að vera samdauna mörgum þeim birtingamyndum sem er að finna í umhverfinu. Þess vegna getur verið erfitt að hefja umræðu um og gagnrýna eitthvað sem er af mörgum talið vera eðlilegt. Það er mikilvægt að leggja áherslu á að þetta er eitthvað sem snertir alla. Það þarf að skapa rými þar sem unglingar upplifa að þeim sé gefið tækifæri til að tjá sig á sínum forsendum og þeirra vangaveltum og spurningum sé svarað. Með því einfaldlega að velta því fram ,,hvort að þau hafi pælt í þessu” og öðrum slíkum aðferðum geta þau sjálf áttað sig á ýmsu og náð sér upp úr  ýmsum gryfjum og fordómum. 

Þegar hópurinn hittist í fjórða og síðasta skiptið var farið markvisst í að ræða hvernig hægt væri að virkja unglinga í umræðunni um jafnréttismál og kynbundið ofbeldi, hvaða aðferðum væri hægt að beita og hverskonar verkefni væri hægt að þróa. Með því að leggja áherslu á að þróa verkefni eða fræðslu með virkri þátttöku unglinga í huga væri hægt að skapa eitthvað sem höfðar til þeirra. Þátttakendur í námskeiðinu voru sammála um að mjög margt í starfi félagsmiðstöðva  væri hægt að nýta eða tengja við þessi viðfangsefni. Á meðal þess sem hægt væri að tengja við starfið var: mannréttindafræðsla, stuttmynda- og ljósmyndasamkeppnir, fjölmiðla- og útvarpsverkefni, listræn starfsemi, ungmennaráð og einnig voru nefnt dæmi þar sem meiri áhersla væri á að samþætta kynjuð sjónarmið í alla starfsemi félagsmiðstöðva. 

Öllum þátttakendum fannst fræðslan gagnleg, umfjöllunarefnið mikilvægt og töldu þau að fræðslan ætti eftir að nýtast þeim í starfi. Fræðslan hefði gert  þau  meðvitaðri um jafnréttismál og fyrir vikið er þeim betur kleift að nýta þessi viðfangsefni í nánast öll verkefni. Þau tóku öll undir það að mikilvægt væri að fá aukna fræðslu og að þessi fræðsla hafi verið góð byrjun, en það væri mikilvægt að fá reglulega upprifjun til þess að halda umræðunni gangandi og þá í formi styttri  fyrirlestra. 

Með þessu skrefi hefur vonandi skapast grunnur og þekking til þess að vinna nánar með unglingum að verkefnum í þessum málaflokki. Vonast er til að með þessu sé einmitt hægt að búa til rými þar sem ungt fólk tekur jafnréttismál og baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi meira til sín og taki málin líka í sínar hendur.


Greinin birtist í tímaritinu Sveitarstjórnarmál þann 21.desember 2011