Af þrám og "kynskiptum"

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir skrifar

Af þrám og "kynskiptum"

Ég hélt eitt sinn fræðsluerindi hjá ónefndum samtökum um trans málefni. Þar fjallaði ég um orðanotkun, hugtök og hvernig það væri hagsmunamál okkar allra að tileinka okkur rétta nálgun. Í lok fyrirlestrarins var svo boðið upp á spurningar og umræður og tók þá ungur maður til máls.

„Já, þú ert náttúrulega rosalega sannfærandi kona.”Það er ýmislegt sem flaug í gegnum huga minn á þeirri stundu. Annarsvegar var það sú staðreynd að viðkomandi hafði af einskærri einlægni verið að hrósa mér fyrir að vera kvenleg og hinsvegar að viðkomandi hafði í raun verið að gefa í skyn að ég væri bara að þykjast vera kona, eða leika konu. Hvernig í ósköpunum skilgreinir fólk hver er „sannfærandi kona”? Kona sem uppfyllir þröng skilyrði um hvernig konur „eiga” að líta út og hegða sér? Hver er tilgangurinn með því að vera sannfærandi kona? Að komast inn á kvenfélagsfundi og villa á mér heimildir?

Sá hugsunarháttur að trans fólk sé ekki alvöru og að þeirra kynvitund sé í raun bara einhverskonar þrá, leikur eða löngun er ansi þrautseig mýta. Hana má rekja til þess að trans fólk er kallað „kynskiptingar“ sem hafi „skipt um kyn“ og undirgangist „kynskiptaaðgerðir.” Sumir átta sig ekki á því að þetta er röng orðanotkun eða finnst hún bara góð og gild en það er óneitanlega ýmislegt athugavert við hana. Með þessu orðalagi er gert ráð fyrir því að allt trans fólk hafi verið eitt kyn og verði svo annað (sbr. karlmaður sem verður kona og kona sem verður karlmaður). Orðið kynskipti hljómar léttvægt og eins og það sé eitthvað sem þú getur endurtekið í sífellu. Svolítið eins og að skipta um skóla, vinnu, föt o.s.frv. Slík hugsun lýsir illa upplifun margra, en mikið af trans fólki hefur alltaf eða jafnvel lengi upplifað sig á skjön við eða ekki í takt við það kyn sem þeim var úthlutað við fæðingu. Það er nefnilega þannig að þó svo að við séum með ákveðin kynfæri og að læknir segi að við séum eitthvað ákveðið kyn, þá er það ekki endilega algildur sannleikur. Það að halda því fram að kynfæri stjórni því 100% hver við erum og hvernig við upplifum okkur er grundvallarmisskilningur sem jaðarsetur og ýtir undir fordóma, ofbeldi og jafnvel morð á trans fólki víðsvegar um heiminn.

Það trans fólk sem þessi hugsunarháttur jaðarsetur hvað mest er fólk sem upplifir sína kynvitund ekki samkvæmt kynjakerfi sem byggir á tvíhyggju. Upplifun trans fólks er ekki eingöngu bundin við karl og konu. Kynvitund getur verið margbreytileg og getur fólk upplifað sig sem bæði, hvorugt, fljótandi á milli eða algjörlega fyrir utan. Það er ótrúlega þrautseigt og menningarbundið fyrirbæri að halda því fram að kynin séu bara tvö og það sé það eina sem er í boði eða það að við þurfum að „tilheyra” einhverju kyni. Hvernig í ósköpunum getum við ætlast til að sjö milljarðar fólks passi í tvo kassa? Það einfaldlega gengur ekki upp og eru til ótal dæmi af mismunandi menningarheimum þar sem kyn er mjög margþætt hugtak.

Rétt orðanotkun í tengslum við trans fólk væri því að tala um trans konur (konur sem var úthlutað karlkyni við fæðingu), trans karla (karla sem var úthlutað kvenkyni við fæðingu) og svo trans fólk og að tala um kynleiðréttingaraðgerð, kynfæraaðgerðir, kynleiðréttingu, ferli innan heilbrigðiskerfis og þar fram eftir götunum.

Rökin sem eru oftar en ekki notuð gegn upplifun trans fólks eru þau að „líffræðilegt“ kyn okkar sé ákveðið og sé stjórnað af kynlitningum, kynfærum o.s.frv. og að engar aðgerðir, hormónar eða annað geti breytt því. Það líffræðilega kyn ákvarði því alltaf hver við erum í raun og það að upplifa sig á annan hátt sé í raun geðsjúkdómur eða ranghugmyndir. Á Íslandi er trans fólk til að mynda skráð með „kynáttunarvanda“, sem er skv. lögum um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda nr. 57/2012 skilgreindur á eftirfarandi hátt:

    Kynáttunarvandi: Upplifun einstaklings frá unga aldri um að hann telji sig hafa fæðst í röngu kyni og óskar að tilheyra hinu kyninu.

Lög um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda eru að mörgu leyti mjög varhugaverð og er þar í sífellu talað um „hitt kynið”, „gagnstætt kyn”, „rétt kynhlutverk” og þar fram eftir götunum. Lögin leitast því í sjálfu sér við að viðhalda ákveðnum kynhlutverkum og virðist hlutverk þeirra vera að sjá til þess að trans fólk haldi sig við ríkjandi hugmyndir um kyn og kynhlutverk og skylda fólk til þess að hegða sér á ákveðinn hátt til að fá viðeigandi þjónustu. Lögin útiloka því allt trans fólk sem á einhvern hátt fer á mis við „rétt kynhlutverk” eða upplifir sig ekki sem eingöngu karl eða konu.

Sjúkdómsvæðing, röng orðanotkun og ekki síst þessi mikla áhersla sem lögð er á kynfæri sem úrslitavald, allt mótar þetta það hvernig við hugsum um trans fólk og það er því ekkert skrítið að hugmyndir flestra um trans fólk byggi á röngum forsendum. Kyn er ekki einhver fyrirfram ákveðinn fasti, frekar en nokkuð annað, og getur tekið breytingum, enda er sú merking sem við leggjum í líffræðilegt kyn heldur ekkert annað en félagslega mótaðar hugmyndir sem geta verið afar mismunandi eftir menningarheimum.

Af þeim ástæðum skiptir enginn um kyn, það þráir enginn að vera eitthvað kyn eða breyta sér í tiltekið kyn. Fólk hefur margvíslega kynvitund sem getur verið breytileg og okkar kyntjáning sömuleiðis. Virðum þess vegna kynvitund trans fólk og tölum alltaf um það samkvæmt þeirra kynvitund og eftir því sem þeim finnst þægilegt – ekki hvað okkur finnst, okkar fyrri vitneskju eða hlutum sem við gefum okkur fyrir fram.


Grein Uglu Stefaníu birtist í femíníska vefritinu Knúz þann 9. september 2015. 

Ljósmyndari er Móa Hjartardóttir