Ár anna og umræðna

Eins og undanfarin ár var mikið um að vera á sviði jafnréttismála árið 2014. Ísland fór með formennskuna í Norrænu ráðherranefndinni og því var töluvert um ráðstefnur og fundi. Það kom m.a. í hlut Íslands að fagna 40 ára afmæli samstarfs Norðurlandanna í jafnréttismálum. 


Á Jafnréttisstofu var haldið áfram að kalla inn jafnréttisáætlanir fyrirtækja og skóla en sjónum hefur markvisst verið beint að fyrirtækjum með 50 starfsmenn eða fleiri, þ.e.a.s. þeim fyrirtækjum sem heyra undir lögin um kvóta í stjórnum fyrirtækja.  Stórt verkefni hefur verið í gangi um efnahagsleg völd kvenna, þar með talið þátttaka í stjórnum fyrirtækja og áhrif kvótalaganna. Tvær stórar rannsóknir eru í gangi þar sem verið er að kanna ýmsar hliðar málsins. Verkefninu lýkur 2015. Að venju fer mikill tími í að svara spurningalistum frá alþjólegum stofnunum, alls konar fyrirspurnum blaðamanna og annarra sem vilja kynna sér jafnréttismál á Íslandi. Mál einstaklinga sem leita sér ráðgjafar eru alltaf þó nokkur og taka oft langan tíma. Þá eru ótaldir fjöldi námskeiða og heimsókna í skóla ásamt svo ótal mörgu sem kemur inn á okkar borð. Hér á eftir verður farið hratt yfir helstu viðburði ársins 2014.

Þúsaldarmarkmiðin metin

Árið hófst á því að Jafnréttisstofa frumsýndi myndband um samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs. Í myndinni er talað við tvenn hjón sem búa á Akureyri um verkaskiptingu á heimilinu og daglegt líf, sem og nokkra sérfræðinga og einn mannauðsstjóra. Myndina má nálgast á http://hiðgullnajafnvægi.is/. Í janúar hélt Jafnréttisstofa námskeið fyrir konur í kvenfélögum á Eyjafjarðarsvæðinu sem var einkar fróðlegt og skemmtilegt. 

Í febrúar var haldinn undirbúningsfundur fyrir ráðstefnu um jafnrétti kynjanna á norðurslóðum sem áætluð var í lok október en það verkefni kom til vegna frumkvæðis utanríkisráðuneytisins. Á fundinn mættu sérfræðingar allt frá Alaska til Finnlands, þó enginn frá Grænlandi að þessu sinni. Það var afar fróðlegt fyrir undirritaða að heyra um hvað rannsóknir og umræður um norðurslóðamál snúast út frá kynjasjónarhorni. Gríðarlega spennandi svið. Þar má t.d. nefna mismunandi aðgang að auðlindum, valdamisvægi, fólksflutningar (þar sem konurnar fara en karlarnir verða eftir), árekstrar milli hefða og þeirra samfélagsbreytinga sem eiga sér stað, heilsufar, menntun o.fl. o.fl. Meira um þau mál síðar. Í febrúarmánuði var haldin ráðstefna í samstarfi RIKK og Jafnréttisstofu um stöðu kvenna í sveitarstjórnum, eins konar upptaktur að sveitastjórnarkosningunum sem fóru fram í lok maí. 

Að venju var haldið upp á 8. mars, alþjóðlegan baráttudag kvenna, með fundum bæði á Akureyri og í Reykjavík.  Í mars var einnig árlegur fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna en hann stendur jafnan í tvær vikur. Að þessu sinni voru aðalviðfangsefnin að meta árangurinn af þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna en tvö þeirra snerta konur sérstaklega (barna- og mæðradauði) og svo aðgengi stúlkna og kvenna að menntun, starfsþjálfun og sæmandi (e. decent) störfum. Eygló Harðardóttir jafnréttisráðherra flutti ræðu Íslands og lagði sérstaka áherslu á að þúsaldarmarkmiðin næðu ekki til mikilvægra þátta eins og ofbeldis gegn konum, valdamisvægis, t.d. á þjóðþingum, ólaunaðrar vinnu kvenna, hvað þá að taka á því hve mörg ríki neita konum um að ráða yfir eigin líkama og kynheilbrigði (e. sexual and reproductive health and rights).  Norðurlöndin voru að venju með tvo sameiginlega hliðarviðburði. Annars vegar var ráðherrafundur sem fjallaði um valdeflingu kvenna með aukinni menntun. Eygló Harðardóttir jafnréttisráðherra stýrði fundinum sem var mjög vel sóttur. Sérstakur gestur var Phumzile Mlambo-Ngcuka framkvæmdastýra UN Women. Hinn fundurinn var sérfræðingafundur þar sem fjallað var um kynbundið náms- og starfsval með hvatningu um að brjóta niður staðalmyndir kynjanna og opna allar leiðir bæði fyrir drengi og stúlkur. Okkar fulltrúi á fundinum var dr. Berglind Rós Magnúsdóttir lektor í menntunarfræðum við Háskóla Íslands. 

Karlar á borpöllum og konur í Danmörku

Aprílmánuður  gekk í garð með ráðstefnu utanríkisráðuneytisins og RIKK um ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Ráðstefnan var hluti af aðgerðaáætlun utanríkisráðuneytisins sem ætlað er að fylgja eftir ályktun 1325.  Í þessum sama mánuði var haldinn fundur alþjóðlegra samtaka þingkvenna en hingað komu fulltrúar frá fjölda landa, þar á meðal frá Afríku, til að kynna sér stöðu jafnréttismála hér á landi og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í áranna rás til að bæta stöðu kvenna. 

Í byrjun maímánaðar tók framkvæmdastýra Jafnréttisstofu þátt í fundi í New York á vegum Íslensk-ameríska verslunarráðsins þar sem borin var saman staða kynjanna í USA og á Íslandi. Undirrituð flutti erindi þar sem sagan var rakin stuttlega og gerð grein fyrir þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til hér á landi. Þar má nefna lög, kvóta, aðgerðaáætlanir og mikilvægan þrýsting frá kvennasamtökum o.fl. Það var athyglisvert að heyra hve erfitt er fyrir ungar konur í Bandaríkjunum að hasla sér völl á vinnumarkaði vegna skorts á leikskólum. Þeir eru rándýrir og því ekki möguleiki fyrir fólk með meðallaun og þaðan af minna. Konur verða því enn að velja á milli atvinnu og barneigna ef þær hafa ekki efni á leikskólum eða barnfóstrum. Ótrúlegt hvað þetta stóra ríki er aftarlega á merinni hvað varðar félagslega þjónustur. Það er þó mikið um kröftugar konur í frumkvöðlastarfsemi og stjórnum fyrirtækja og þar getum við lært af USA. 

Í lok maí var röðin komin að fyrstu ráðstefnunni um jafnréttismál sem tengdist formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Boðað var til ráðstefnu og málþings í Þórshöfn í Færeyjum en Ísland hefur ávallt lagt áherslu á samvinnu Færeyja, Grænlands og Íslands. Fyrri daginn var fjallað um jafnrétti á vinnumarkaði og síðari daginn um stöðu kvenna í stjórnmálum. Færeyingar lögðu fram athyglisverðar upplýsingar um atvinnumál hjá þeim og greint var frá könnun sem Jafnstöðunefndin gerði á afstöðu Færeyinga til kynjajafnréttis. Það sem er sérstakt fyrir vinnumarkaðinn í Færeyjum er hve margir karlar vinna á olíuborpöllum Norðmanna og hve margar konur á vinnualdri hafa yfirgefið eyjarnar og búa í öðrum löndum, einkum Danmörku. Fjarvistir karla gera konum erfitt fyrir hvað varðar vinnu, að ekki sé talað um að deila fæðingarorlofi. Þá er afstaða margra Færeyinga fremur íhaldssöm þegar kemur að verkaskiptingu á heimilum og „hlutverkum“ kynjanna.  Á málþinginu um stjórnmál var sagan rifjuð upp en Norðmenn höfðu nýverið haldið upp á 100 ára afmæli kosningaréttarins og fyrirhugað að gera það sama á Íslandi 2015. Þá rifjaði Karin Kjølbro upp aðgerðir kvenna í Færeyjum til að auka hlut kvenna i stjórnmálum á áttunda áratug 20. aldar og þegar þær leigðu heilt skip til að fara á Nordisk forum í Osló 1988. Í lok maí var svo gengið til sveitarstjórnarkosninga á Íslandi. Enn jafnaðist bilið milli karla og kvenna en konur eru nú 44% kjörinna fulltrúa. Það verður að teljast glæsilegur árangur á erfiðum tímum þegar (of) mikil endurnýjun á sér stað í sveitarstjórnunum. 

Barátta gegn öfgaöflum og  hatursorðræðu

Næst á dagskrá var norræn ráðstefna um karlarannsóknir sem einnig var hluti af formennskunni í Norrænu ráðherranefndinni. Mikill áhugi var á ráðstefnunni enda voru tveir þekktustu fræðimenn heims á sviði karlarannsókna þau Raewyn Connell og Michael Kimmel meðal fyrirlesara. Fluttur var fjöldi fyrirlestra um allt mögulegt, allt frá feðrahlutverkinu og feðraorlofi til ofbeldis og þátttöku karla í jafnréttisstarfinu. Ráðstefnan vakti mikla athygli og var mjög vekjandi og athyglisverð. 

Nú var stutt á milli viðburða því dagana 12.-15. júní var boðað til Nordisk forum í Malmö. Þangað mættu um 20.000 manns og var dagskráin gríðarlega viðamikil. Íslenskir þátttakendur voru eitthvað á fjórða hundrað og tóku þátt í ótal málstofum og öðrum viðburðum. Það sem vakti hvað mesta athygli undirritaðrar var óttinn við uppgang hægri öfgaafla, hve hatursorðræða er útbreidd og ógnandi og andfemínismi. Það er ótrúlegt hvað flokkar sem hatast við útlendinga, múslima og konur (femínista) eru að ná mikilli fótfestu. Mjög mikilvægt rannsóknarefni. Þrátt fyrir þennan ótta ríkti mikill baráttuandi og gaman að sjá hve mikið líf er í kynjaumræðunni á Norðurlöndum og víðar. Nokkur gagnrýni kom fram hér á landi eftirá um of litla áherslu á stöðu minnihlutahópa, t.d. fatlaðra, kynhneigð o.fl. sem sjálfsagt er að ræða og taka tillit til. Að venju var haldið upp á kvenréttindadaginn 19. Júní með kvennasögugöngu á Akureyri og kaffiboði Kvenréttindafélagsins og Kvenfélagasambandsins í Reykjavík. 

Í ágúst var svo komið að 40 ára afmæli norrænnar samvinnu á sviði jafnréttismála. Stór ráðstefna var haldin í Hörpu og voru þær Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands og Margot Wallstöm sem nú er utanríkisráðherra Svíþjóðar meðal þátttakenda. Það bar til tíðinda á þessari ráðstefnu að hægt var að fylgjast með „tísti“ þátttakenda sem birtist á skjá í salnum. Þá gerði Ari Eldjárn mikla lukku er hann fór yfir reynslu sína af jafnréttismálum og ekki síst því að vera faðir ungrar dóttur sem öllu ræður. Ungt fólk, stelpur og strákar, frá öllum Norðurlöndunum tóku þátt í pallborðsumræðum og það var verulega upplífgandi að hlusta á hvað þau höfðu miklar hugsjónir og voru viljug til að breyta heiminum til hins betra í anda jafnréttis, fjölbreytileika, virðingar fyrir mannréttindum og síðast en ekki síst í þágu jarðarinnar. 

Kynin á norðurslóðum

Í september var haldinn árlegur fundur jafnréttisstofnana á Norðurlöndunum. Að þessu sinni var hann í Stokkhólmi í boði DO (Diskrimineringsombudet). Aðalumræðuefnið var hatursorðræða en mikil umræða hefur orðið um þau mál í kjölfar síendurtekinna hótanna sem t..d femínistar og fréttamenn verða fyrir, sem og fólk sem tilheyrir ýmsum minnihlutahópum. Þá var kynnt dönsk skýrsla um aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Eitt af því sem vakti mikla athygli í Danmörku var það hve mikið er um að börn séu notuð sem túlkar þegar foreldrar leita til læknis. Almennt var fólk sammála um að það væri ótækt að leggja þá ábyrgð á börn að koma til skila hvað hrjáði foreldrana og slíkt væri óásættanlegt. Til umræðu hefur verið að banna að börn séu notuð sem túlkar.  Athyglisvert mál sem þyrfti að kanna betur hér á landi. 

Upp úr miðjum september var röðin komin að landsfundi jafnréttisnefnda sveitarfélaga. Fundurinn var að þessu sinni haldinn í Reykjavík. Fyrri daginn var fundur í Iðnó og var hann opinn öllum. Umræðuefnin voru skyldur sveitarfélaga, mikilvægi þess að gæta að jafnrétti fyrir alla, kyn og afbrot  og að lokum var fjallað um ósýnilega sögu kvenna. Seinni daginn báru fulltrúar sveitarstjórnanna saman bækur varðandi verkefni og stöðu jafnréttismála.  

Þá var röðin komin að sérfræðingafundi um leiðir í baráttunni við kynbundið ofbeldi. Fjallað var ítarlega um Istanbúlsamninginn sem aðildarríki Evrópuráðsins hafa undirritað og er verið að innleiða víða í Evrópu. Þetta er stórmerkilegur samningur sem nær til flestra hliða ofbeldismála, svo sem skilgreininga, skylda stjórnvalda, vernd brotaþola og meðferðar ofbeldismanna. Kynnt var gríðarmikil úttekt Svía á eðli, umfangi og meðferð ofbeldis í nánum samböndum ásamt meðfylgjandi tillögum til úrbóta. Efni sem við þurfum að ræða hér á landi. Þá voru kynnt dæmi frá hverju Norðurlandanna um aðgerðir sem reynst hafa vel í baráttunni, áhættumat norsku lögreglunnar, skráning og skönnun sem fram fer innan félags- og heilbrigðisþjónustu í Finnlandi, aðgerðaráætlanir Dana, aðgerðir Svía til að kveða niður heiðursglæpi og íslenska Suðurnesjaverkefnið.  Þessi fundur fékk mjög góða umfjöllun í ríkissjónvarpinu. 

Október gekk í garð með 100 ára afmæli Verkakvennafélagsins Framsóknar og var haldin ráðstefna í Iðnó til að minnast þess. Farið var yfir söguna, sagt frá forystukonunni Jóhönnu Egilsdóttur og rætt um stöðu verkakvenna í dag sem og helstu baráttumál til að bæta stöðu þeirra. Kvennafrídagurinn 24. október var að venju á dagskrá, m.a. með baráttufundi á Akureyri um öryggi kvenna í umönnunar- og þjónustustörfum. Vakti umræðuefnið verulega athygli. Kynnt var úttekt á úrræðinu Karlar til ábyrgðar sem hefur boðið ofbeldismönnum upp á meðferð um árabil. Útkoman var mjög góð og almenn ánægja þeirra sem höfðu nýtt sér úrræðið en einnig komu nokkrar góðar ábendingar um það sem betur má fara. Þá var röðin komin að ráðstefnunni um kynjajafnrétti á norðurslóðum sem haldin var í Hofi á Akureyri 30.-31. Október. Þátttaka var mjög góð og umræður afar áhugaverðar. Þarna var farið yfir mismunandi aðgengi kynjanna að auðlindum, heilbrigðismál, menntun, fólksflutninga, öryggi og þannig mætti áfram telja. Lesa má um ráðstefnuna á slóðinni: http://www.nordurslodanetid.is/is/upptoekur/gender-equality-in-the-arctic-30-31-oct-2014

Í skugga ófriðar, ofbeldis og átaka

Í nóvember var boðað til fundar Evrópuríkja, USA, Kanada og Ísrael í Genf til að undirbúa næsta fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW) sem haldinn verður í mars. Á þessu ári eru 20 ár liðin frá kvennaráðstefnunni í Peking og verður nú farið yfir hvernig ríki hafa staðið við Pekingsáttmálann og aðgerðaáætlunina sem þar var samþykkt. Undirrituð sótti fundinn ásamt Rósu Guðrúnu Erlingsdóttur frá velferðarráðuneytinu og var einkar fróðlegt að heyra frásagnir af stríðshrjáðum svæðum svo sem Úkraínu og Sýrlandi en hópur flóttakvenna þaðan mætti á fundinn til að vekja athygli á þeim hörmungum sem yfir þjóðina dynja, ekki síst konur og börn. Það er hræðilegt til þess að hugsa hve ófriðvænlegt er í heiminum og ekkert lát á vopnaskakinu og valdabaráttunni. Í nóvember hófst samvinnuverkefni sem Jafnréttisstofa tekur þátt í ásamt Austurríki, Króatíu og Litháen. Það gengur út á þróun samræmdrar jafnréttisfræðslu, þ.e. að sett séu ákveðin viðmið byggð á reynslu þessara þjóð og annarra. 

Síðustu ráðstefnur formennskuársins voru haldnar í Reykjavik 12.-13. nóv. Fyrri daginn var fjallað um hlutastörf og áhrif þeirra á kynin og seinni daginn var fjallað um launamisrétti. Að venju hófst alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi þann 25. nóvember sem er dagur Sameinuðu þjóðanna gegn því ofbeldi sem konur eru beittar. Því lauk á mannréttindadegi SÞ 10. desember. Að vanda var margt á dagskrá svo sem ljósaganga, upplestur úr bókum, o.fl.  Jafnréttisstofa og samstarfsteymi gegn ofbeldi stóðu fyrir mjög vel sóttu námskeiði á Akureyri um Suðurnesjaverkefnið. Til stendur að halda slík námskeið víða um land enda hafa aðgerðir Suðurnesjamanna skilað góðum árangri í baráttunni við ofbeldi í nánum samböndum. Embla Guðrún Ágústsdóttir hjá Tabú kom norður og hélt erindi um ofbeldi gegn fötluðum konum sem vakti mikla athygli þeirra sem heyrðu. 

Árinu lauk svo með morgunfundi um val á stjórnarmönnum á tímum kynjakvóta. Á fundinum var greint frá rannsókn sem staðið hefur yfir á því hvernig stjórnarmenn í fyrirtækjum eru valdir, hverjir þeir eru og hvaða áhrif kvótinn hefur haft. Þá var fjallað um reynslu Norðmanna en kynjakvóti hefur verið í gildi í Noregi um árabil.

Að lokum þakka ég samstarfsfólki Jafnréttisstofu til sjávar og sveita fyrir samstarfið á síðasta ári en einkum þó starfsfólki Jafnréttisstofu sem unnið hefur gríðarlega mikið starf á ári mikilla anna og álags. Megi árið 2015 reynast okkur gjöfult og gott jafnréttis- og afmælisár.