Ár baráttu gegn klámi og kynbundnu ofbeldi

Árið 2012 var að venju viðburðaríkt á sviði jafnréttismála. Fjórða árið í röð var Ísland í efsta sæti á lista World Economic Forum sem mælir kynjamun í heiminum.Ísland bætti við sig stigum eins og reyndar hefur gerst frá árinu 2006 en mælingin nær yfir árin 2006-2012. Sem fyrr eru það möguleikar til menntunar og heilbrigðis sem gefa okkur flest stig en efnahagsleg staða og pólitísk áhrif sem draga okkur niður. Þess má geta að Ísland er komið niður í tíunda sæti á lista IPU (Alþjóða þingmannasambandsins) yfir stöðu kvenna á þjóðþingum en við vorum komin upp í fimmta sæti eftir kosningarnar 2009. Því miður hefur konum fækkað á þingi það sem af er kjörtímabilinu og ærin ástæða til að rannsaka ástæður þess.

Í byrjun árs gaf Jafnréttisstofa út bæklinginn Gender Equality in Iceland en hann er á ensku og gefur mynd af jafnréttismálum á Íslandi allt frá lögum og stefnu stjórnvalda til kynningar á félagasamtökum. Þessi bæklingur hefur komið að mjög góðum notum og er hann að finna á heimasíðum flestra ráðuneyta auk heimasíðu Jafnréttisstofu www.jafnretti.is.

Árið 2011 lauk verkefni á vegum Jafnréttisstofu um kynin í kennslubókum í sögu á miðstigi grunnskóla. Gefin var út skýrsla sem vakti mikla athygli og umræður. Sú umræða hélt áfram á árinu 2012 og stóðu RIKK (Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við HÍ) og Jafnréttisstofa fyrir ráðstefnu um efnið í febrúar. Þar urðu hressileg skoðanaskipti sem héldu áfram í það minnsta meðal sagnfræðinga fram eftir árinu.

Um mánaðarmótin febrúar-mars var haldinn árlegur fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York. Að þessu sinni var umræðuefnið staða kvenna í dreifbýli og fjármögnun jafnréttisbaráttunnar. Norrænu þjóðirnar skipulögðu að vanda tvo hliðarviðburði. Jafnréttisráðherrar eða fulltrúar þeirra efndu til fundar um stöðu kvenna í dreifbýli ásamt Michelle Bachelet framkvæmdastýru UN Women en ýmislegt fleira bar á góma. Þar var fullt út úr dyrum og mikið spurt um aðgerðir Norðurlandanna í þágu jafnréttis kynjanna. Á síðari fundinum mættu sérfræðingar og var Aðalsteinn Þorsteinsson forstjóri Byggðastofnunar fulltrúi Íslands á mjög vel sóttum fundi. Eftir að umræðum lauk umkringdu konur frá Afríku Aðalstein og vildu koma á samstarfi við Ísland. Ekki veit ég hvort eitthvað hefur orðið úr því.

Klámefnið er ógnvænlegt

Klámvæðing var mikið til umræðu á árinu. Snemma árs gaf Reykjavíkurborg út bæklinginn Klámvæðing er kynferðisleg áreitni og vakti hann nokkra athygli og umræður einkum meðal borgarstarfsmanna. Í haust blésu svo nokkur ráðuneyti og Háskóli Íslands til sóknar gegn klámvæðingunni með ráðstefnu sem haldin var í hátíðarsal HÍ. Aðsókn var mikil og vakti fyrirlestur Gail Dines gríðarlega athygli. Ráðstefnunni var útvarpað á netinu og hittist m.a. hópur í Háskólanum á Akureyri til að fylgjast með. Svo virðist sem almenningur geri sér litla grein fyrir því hversu auðvelt er að nálgast hrottafengið klám og ofbeldisefni á netinu án nokkurra takmarkana. Nokkur kurr varð í netheimum út af erindi Gail Dines eins og jafnan þegar minnst er á klám og viðbrögð við því. Þar er greinilega komið inn á sprengjusvæði enda áhrif klámvæðingar víða að finna. Fyrir og eftir ráðstefnuna voru haldnir fjölmennir vinnufundir með fulltrúum víða að úr samfélaginu og er að vænta tillagna um aðgerðir innan skamms.

Á Akureyri héldu Jafnréttisstofa og Háskólinn á Akureyri ráðstefnu um kynbundið ofbeldi í maí í kjölfar endurmenntunarnámskeiðs sem haldið var við HA. Flutt voru nokkur mjög athygliverð erindi, m.a. frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og af sérfræðingum sem hafa rannsakað afleiðingar kynbundins ofbeldis. Eitt erindið fjallaði um meðferð fyrir konur sem eiga við geðræn vandamál að stríða en í ljós hefur komið að margar þeirra hafa sætt miklu ofbeldi. Á árinu lauk Reykjavíkurborg gerð aðgerðaáætlunar gegn kynbundnu ofbeldi og er annað sveitarfélagið á landinu til að gera það. Það er því ljóst að sveitarfélög landsins eiga mikið verk óunnið á sviði baráttunnar gegn kynbundnu ofbeldi, þar með talið kynferðisofbeldi sem greinilega er ógnvænlegt mein í íslensku samfélagi.

Verjum börnin

Og meira um ofbeldismálin. Ríkisstjórnin samþykkti á sínum tíma að setja 30 millj. kr. í fræðslu og baráttu gegn kynferðisofbeldi sem börn verða fyrir. Í haust var skipulögð fundaherferð um land allt þar sem megin markhópurinn var kennarar og starfsfólk skóla. Fundirnir voru gríðarlega vel sóttir enda fjölbreytt fræðsla í boði. Í ljós kom, t.d. á fundinum sem haldinn var á Akureyri, að mikil þörf var fyrir umræður, aukna þekkingu og ekki síst verkferla innan skólanna sem oft lenda í vanda við að taka á málum.
Að venju var efnt til 16 daga alþjóðlegs átaks gegn kynbundnu ofbeldi en það stendur ávallt frá 25. nóvember sem er dagur Sameinuðu þjóðanna gegn ofbeldi og til 10. desember sem er mannréttindadagur SÞ. Það eru einkum frjáls félagasamtök sem skipuleggja viðburði, svo sem ljósagöngu. Jafnréttisstofa stóð m.a. að málþingi sem haldið var á Amtsbókasafninu á Akureyri og var það vel sótt.

Víkjum þá að öðrum málum.
 
Jafnrétti á vinnumarkaði

Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir árin 2011-2014 er að finna margar aðgerðir sem varða jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Á árinu 2012 skilaði framkvæmdanefnd gegn launamisrétti kynjanna af sér tillögum til ráðherra sem varða almennan vinnumarkað. Í framhaldi af því skipaði velferðarráðherra nýlega aðgerðahóp til að vinna að launajafnrétti en í honum sitja aðilar vinnumarkaðarins ásamt formanni sem skipaður er af ráðherra. Eitt af verkefnum hópsins er að kynna jafnlaunastaðalinn sem greint er frá hér neðar. Ekki veitir af aðgerðum því endurteknar kannanir meðal félaga í VR sem er stærsta stéttarfélag landsins og SFR (sem er innan BSRB) sýndu að kynbundinn launamunur er svo sannarlega enn til staðar og er meiri hjá opinberum aðilum en á almennum markaði.

Í jafnréttislögunum sem samþykkt voru 2008 er ákvæði til bráðabirgða um: „að þróað verði sérstakt vottunarkerfi á framkvæmd stefnu um launajafnrétti og framkvæmd stefnu um jafnrétti við ráðningar og uppsagnir í samvinnu við samtök aðila vinnumarkaðarins.“ Verkinu átti að ljúka árið 2010 en skemmst er frá því að segja að verkefnið reyndist mun flóknara og tímafrekara en ráð var fyrir gert, auk þess sem hrunið setti strik í reikninginn. Staðallinn var loks tilbúinn síðast liðið vor og var ákveðið að kynna hann með pomp og prakt á kvenréttindadaginn 19. júní. Nú stendur fyrir dyrum að fá fyrirtæki og stofnanir til að prófa staðalinn sem er sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum.

Annað verkefni sem er að finna í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar varðar samræmingu atvinnu og fjölskyldulífs. Í sumar var skipaður hópur sem sinnir því verkefni og byggir hann m.a. á tillögum annars hóps sem vann greinargerð fyrir Jafnréttisráð. Unnið er að tillögum og aðgerðum og var m.a. haldinn fjölsóttur fundur í haust þar sem fyrirmyndarfyrirtæki og stofnanir greindu frá því hvernig þau auðvelda starfsfólki sínu að samræma atvinnu og fjölskyldulíf.

Enn eitt verkefni úr framkvæmdaáætluninni sem er í gangi en lýkur fljótlega varðar þátttöku karla í jafnréttisumræðunni. Hópur hefur verið að störfum í rúmlega ár og verður spennandi að sjá hvað hann leggur til í framhaldi af starfi sínu.

Hvernig skiptast peningarnir?

Eitt þeirra verkefna sem unnið hefur verið að í nokkur ár er kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð. Afraksturinn má sjá í frumvörpum til fjárlaga fyrir árin 2012 og 2013 þar sem gerð er grein fyrir verkefnum sem unnin voru ýmist innan ráðuneyta eða opinberra stofnana. Í tengslum við verkefnið gaf Jafnréttisstofa út bæklinginn Kynjakrónur í samstarfi við fjármálaráðuneytið. Nú eru sveitarfélögin að ríða á vaðið hvað varðar kynjaða fjárhagsáætlanagerð og fer Reykjavíkurborg þar fremst í flokki. Á vef borgarinnar má lesa um þau verkefni sem unnin hafa verið. Í stuttu máli gengur kynjuð hagstjórn og fjárlaga- eða fjárhagsáætlanagerð út á það að greina í hvað peningarnir fara og hvort þeim sé skipt á réttlátan hátt milli kynja. Íþróttir eru gott dæmi um málaflokk þar sem peningum er ekki skipt á milli kynja með jafnrétti að leiðarljósi.
Síðast liðið sumar urðu mikil umskipti innan þjóðkirkjunnar. Agnes M. Sigurðardóttir var kjörin biskup yfir Íslandi fyrst kvenna og Sólveig Lára Guðmundsdóttir var kjörin vígslubiskup á Hólum. Í fyrsta sinn í rúmlega þúsund ára sögu kristinnar kirkju á Íslandi eru konur meirihluti biskupa en þeir eru þrír, þ.e. biskup Íslands og tveir vígslubiskupar sem sitja í Skálholti og á Hólum eins og biskupar gerðu fyrr á öldum.

Jafnrétti í skólastarfi

Árið 2010 lauk stóru samstarfsverkefni fimm sveitarfélaga, velferðarráðuneytis og Jafnréttisstofu um jafnrétti í skólum. Frábær verkefni voru unnin og hefur sumum þeirra verið fylgt eftir með því að kynna þau í grunnskólum, t.d. í Reykjavík. Síðan hefur verið haldið áfram að vinna að jafnrétti í skólastarfi og eru Reykjavík og Akureyri þar fremst í flokki. Jafnréttisstofa og Akureyrarbær gerðu samning um sérstakt fræðsluátak sem fólst í því að verkefnisstjóri heimsótti næstum því alla skóla innan sveitarfélagsins (hér þarf að minna á að Grímsey er hluti af sveitarfélaginu Akureyrarkaupstað en þangað hefur verkefnisstjórinn ekki komist enn sem komið er). Boðið var upp á fræðslu og umræður fyrir kennara en einnig voru bekkir heimsóttir og rætt við nemendur. Vonandi verður framhald á þessari samvinnu en Akureyrarbær er eitt þeirra sveitarfélaga sem tekur jafnréttismál alvarlega og með föstum tökum. Í Reykjavík hefur verið verkefni í gangi sem felst í heimsóknum í alla grunnskóla, umræður og fræðslu fyrir kennara. Þörfin er mikil enda er jafnrétti ein af grunnstoðum nýrrar aðalnámskrár. Ein helsta niðurstaða verkefnisins Jafnrétti í skólum var sú að koma þyrfti kynjafræði inn í kennaranám þannig að kennarar verði færari til að vinna í samræmi við gildandi lög og reglur, þar með talið að brjóta upp hefðbundið náms- og starfsval og að vinna gegn staðalmyndum kynjanna sem hefta marga einstaklinga í að velja sér þá leið í lífinu sem hugur stendur til. Á nýju ári hyggst Jafnréttisstofa beina sjónum að kennaramenntun og ræða við þá háskóla sem mennta kennara um hvernig efla megi þekkingu á kynjafræði meðal kennara.

Kerfið verður 5-5-2

Árlegur landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga var haldinn á Akranesi í byrjun september. Að þessu sinni var fjallað um jafnrétti á Íslandi með augum kvenna af erlendum uppruna, samanburð á árangri drengja og stúlkna í grunnskólum og þar með brottfall drengja, kynjaða fjárhagsáætlanagerð og gerð jafnréttisáætlana.

Að venju var haldið upp á þá daga sem tengjast baráttu kvenna fyrir jöfnum réttindum og jöfnum tækifærum á við karla. Alþjóðlegur baráttudagur kvenna 8. mars var undirlagður af fundum svo sem vaninn er. Á kvenréttindadaginn 19. júní bauð Kvenréttindafélag Íslands upp á dagskrá að Hallveigarstöðum í Reykjavík og á Akureyri var árleg kvennasöguganga í samstarfi Jafnréttisstofu, Akureyrarbæjar, Minjasafnsins og Zontaklúbbanna. Dagur Sameinuðu þjóðanna 24. október er löngu orðinn baráttudagur kvenna hér á landi en er það ekki annarsstaðar í heiminum. Að þessu sinni voru veittir styrkir úr Jafnréttissjóðnum til rannsókna á stöðu kynjanna og er það fagnaðarefni að sjóðurinn er aftur tekinn til starfa eftir nokkurra ára kreppuhlé. Á Akureyri hélt Jafnréttisstofa fund um launamisrétti kynjanna og kallaði til annars vegar framkvæmdastjóra BSRB Helgu Jónsdóttur til að greina frá nýlegri launakönnun meðal félaga BSRB og hins vegar bæjarstjórann á Akureyri Eirík Björn Björgvinsson til að segja frá aðgerðum bæjarins í þágu launajafnréttis kynjanna en nú er að fara af stað ný könnun á stöðu mála.

Undir lok ársins gerðust þau tíðindi að lögum um fæðingarorlof var breytt í þá veru að nú verður tekið upp í áföngum kerfi sem lýsa má sem 5-5-2. Það þýðir að mæður fá fimm mánuði í sinn hlut, feður fimm mánuði og síðan verða tveir mánuðir sameiginlegir þegar kerfið verður að fullu komið í framkvæmd. Jafnframt verður stigið fyrsta skrefið til að hækka launaþakið að nýju eftir mikinn niðurskurð og hækkar það úr 300 þús. í 350 þús. Það verður forvitnilegt að sjá hvaða áhrif þessar breytingar hafa, einkum hvað varðar þátttöku feðra en tilgangurinn er auðvitað sá að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði, auka samvistir foreldra og ungra barna þeirra og brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til leikskólar taka við.

Að lokum skal nefnt að Jafnréttisstofa stendur fyrir jafnréttistorgum í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Einn fyrirlesaranna á síðasta ári var Steinunn Rögnvaldsdóttir en hún skrifaði mastersritgerð um kynjamisrétti meðal lífeyrisþega. Erindi hennar vakti mikla athygli enda um nýtt málefni að ræða sem lítið hefur verið rætt og rannsakað hér á landi. Þetta málefni er nú komið á dagskrá Evrópusambandsins, þ.e. hvernig hægt verði að brúa kynjabilið og koma þannig í veg fyrir að konum sé mismunað nánast frá vöggu til grafar. Stórt málefni sem gefa þarf gaum á nýju ári.

Að endingu vil ég svo þakka starfsfólki Jafnréttisstofu vel unnin störf sem og öllum þeim fjölmörgu sem við eigum samstarf við á vettvangi ríkisins, innan sveitarfélaga, hjá fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum.

Kristín Ástgeirsdóttir