Barist fyrir jafnrétti og gegn kynbundnu ofbeldi

Árni Páll Árnason skrifar

Barist fyrir jafnrétti og gegn kynbundnu ofbeldi

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er í dag, 8. mars. Þessi dagur er nauðsynlegur til að minna okkur á hve jafnrétti kynja er mikilvægt málefni en jafnframt að baráttan fyrir jafnrétti er ekki mál sem við dustum af rykið einu sinni á ári heldur er það viðvarandi viðfangsefni.Ný aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi
Kynbundið ofbeldi er ein af svörtustu birtingarmyndum kúgunar gegn konum. Fyrir helgi samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína um að ráðast í gerð nýrrar aðgerðaáætlunar stjórnvalda gegn kynbundnu ofbeldi fyrir tímabilið 2011-2015.

Gildandi aðgerðaáætlun var samþykkt árið 2006 og hefur meginþungi hennar falist í viðamiklum rannsóknum á eðli og umfangi ofbeldis karla gegn konum í nánum samböndum. Rannsóknum lýkur á þessu ári og verður skýrslu með tillögum til ríkisstjórnarinnar skilað í upphafi næsta árs. Í apríl nk. hefst kynningar- og fræðsluátak sem ég hef falið Jafnréttisstofu að annast, byggt á niðurstöðum rannsóknanna.

Í nýrri aðgerðaáætlun verður sérstök áhersla lögð á að skoða samhengi kynbundinna ofbeldisbrota, saksóknar vegna þeirra og meðferðar í dómskerfinu, en sem kunnugt er fara afar fá mál af þessum toga alla leið í gegnum dómskerfið. Auk þessa þarf að móta afstöðu til meðferðar nýs sáttmála Evrópuráðsins í málaflokknum og endurskilgreina verkefni með hliðsjón af honum og verður það hluti af verkefnum nefndar um gerð nýrrar aðgerðaáætlunar. Það er ánægjulegt að hleypa þessu verkefni af stokkunum í dag á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Stefnt er að því að áætlunin verði tilbúin 24. október á þessu ári, á 35 ára afmæli kvennafrídagsins.

Bein íhlutun stjórnvalda getur verið óhjákvæmileg
Stór þáttur í vinnu að jafnréttismálum felst í því að hafa áhrif á viðhorf fólks og hugarfar. Sumir halda því fram að það sé eina leiðin að markmiðinu um jafnrétti kynja og að ekki megi beita boðum og bönnum eða beinni íhlutun. Þetta hefur heyrst síðustu daga hjá andstæðingum nýrra laga sem kveða á um hlutfall kynja í stjórnum fyrirtækja. Ég er algjörlega ósammála þessari afstöðu og tel að þegar fullreynt hefur verið að ná árangri í sjálfsögðum réttlætismálum með mildilegum aðgerðum, samræðum og samstarfi, beri stjórnvöldum skylda til að grípa inní á afgerandi hátt. Þetta á við um nýtt lagaákvæði um kynjakvóta sem ég er ekki í vafa um að muni verða íslensku samfélagi og atvinnulífi til góðs.

Aukin þátttaka kvenna í stjórnunarstöðum í atvinnulífinu leiðir til meiri hagsældar, betri rekstrar og aukins jafnréttis. Þrátt fyrir þessa vitneskju tók atvinnulífið ekki við sér og þráaðist við með sínar karlastjórnir og því var þessi lagasetning brýn nauðsyn. Það er hins vegar ánægjulegt að áður en frumvarpið varð að lögum rann upp ljós hjá Samtökum atvinnulífsins sem sendu út hvatningu til eigenda og stjórnenda fyrirtækja til að auka hlut kvenna í atvinnulífinu sem þau sögðu vera bæði nauðsynlegt og skynsamlegt. Hér má því segja að batnandi manni sé best að lifa og ég er sannfærður um að við munum fljótt sjá umtalsverðar breytingar til betri vegar.

Stjórnvöld feta ótrauð áfram í átt til aukins jafnréttis þessi misserin með margvíslegum aðgerðum. Í mars á liðnu ári var samþykkt aðgerðaáætlun félags- og tryggingamálaráðuneytisins gegn mansali og er það í fyrsta sinn sem íslensk stjórnvöld standa að slíkri áætlun. Í beinu framhaldi var samþykkt á Alþingi breyting á almennum hegningarlögum sem fól í sér að nú eru kaup á vændi refsiverð hér á landi. Með þessu leggur Ísland sitt af mörkum í baráttunni gegn mansali sem er að verða umfangsmesta glæpastarfsemi heims samhliða fíkniefnasmygli og vopnasölu. Vonir standa nú til þess að Alþingi afgreiði á næstunni lög um bann við starfsemi nektarstaða sem er mikilvægt innlegg í baráttu gegn mansali.

Margvíslegum gæðum, fjármunum, eignum, áhrifum og völdum er misskipt milli karla og kvenna. Að mörgu leyti liggur skýringin í arfi fortíðarinnar en því miður höfum við ekki borið gæfu til að rétta hlut kvenna eins og efni standa til og í samræmi við fögur fyrirheit. Við höfum ýmis tæki til að vinna bót á þessu og eitt þeirra er kynjuð hagstjórn sem felst í því að við fjárlagagerð og allar ákvarðanir um opinber útgjöld sé tekið mið af ólíkum aðstæðum kynjanna. Þetta er eitt af mörgum málum sem stjórnvöld vinna að til að stuðla að jöfnum rétti karla og kvenna.

Okkur miðar áfram í jafnréttisbarátunni en þó eru enn fjölmörg viðfangsefni sem við þurfum að fást við og taka föstum tökum. Eitt þeirra er að útrýma kynbundnum launamun, í þeim efnum verðum við að setja skýr markmið og láta efndir fylgja orðum.


Grein ráðherra birtist í Morgublaðinu 8. mars 2010.