Byggjum brýr - brjótum múra

28.08.2019 Katrín Björg Ríkarðsdóttir skrifar

Byggjum brýr - brjótum múra

Eitt af hlutverkum Jafnréttisstofu er að vinna að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi í samstarfi við önnur stjórnvöld og samtök sem sinna slíkum forvörnum sérstaklega. Undanfarið hefur samstarfið einkum falist í vinnu gegn heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum en styrkur fékkst úr áætlun Evrópusambandsins um réttindi, jafnrétti og borgararétt til að festa betur í sessi þær úrbætur sem hafa átt sér stað í málaflokknum og miðla reynslu af aðferðum sem hafa skilað árangri, mynda tengsl milli aðila, bjóða upp á fræðslu og standa að vitundarvakningu fyrir alla landsmenn. Samstarfsaðilar Jafnréttisstofu eru dómsmálaráðuneytið, velferðarráðuneytið, Embætti Ríkislögreglustjóra, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Lögreglan á Norðurlandi eystra, Lögreglan á Suðurnesjum, Akureyrarbær og Reykjavíkurborg. Umrætt verkefni hlaut yfirskriftina Byggjum brýr Brjótum múra og er því nú formlega að ljúka.

Ein af stóru afurðum verkefnisins er vitundarvakningin Þú átt Von sem var hleypt af stokkunum í október á síðasta ári. Í myndböndum sem gerð voru er sjónum beint að ólíkum hópum þolenda s.s. þunguðum konum, erlendum konum, fötluðum konum sem og gerendum. Megin áherslan er sú að sýna þolendum ofbeldis að þeir eigi von um betra líf. Dregin er fram reynsla þolenda og gerenda af að komast út úr aðstæðum með stuðningi fagfólks og sýnd sú fjölbreytta þjónusta sem í boði er.

Netnámskeið sem ætlað er til þess að auka þekkingu fagfólks var einnig útbúið og er aðgengilegt á vefsíðunni www.jafnretti.is/von Leitast er við að svara spurningum eins og hvernig bera megi kennsl á þolendur og gerendur, hvernig bregðast skuli við, hvaða úrræði séu fyrir hendi og að hverju þurfi að huga við vinnslu mála.

Verkefnið Byggjum brýr Brjótum múra kallast á við samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi, oftast kallað Istanbúl-samningurinn, sem Ísland fullgilti nýlega. Samningurinn tekur heildstætt á baráttunni gegn ofbeldi gegn konum og kveður á um skyldur stjórnvalda til að vernda og aðstoða þolendur ofbeldis, fræðslu til almennings, stjórnvalda og fagaðila, skyldu til að sinna forvörnum og standa fyrir úrræðum og meðferðum fyrir gerendur auk þess að kveða á um réttindi brotaþola.

Markmið samningsins eru að vernda konur gegn öllum birtingarmyndum ofbeldis og fyrirbyggja ofbeldi, sækja gerendur til saka og uppræta ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi; að stuðla að upprætingu allra birtingarmynda á mismunun gegn konum og að efla raunverulegt jafnrétti kvenna og karla, þar með talið valdeflingu kvenna; setja upp heildarramma, stefnu og ráðstafanir til að vernda og aðstoða alla þolendur ofbeldis og heimilisofbeldis; efla alþjóðlegt samstarf með það að markmiði að uppræta ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi; og styðja við og aðstoða samtök og löggæsluyfirvöld til skilvirks samstarfs svo vinna megi eftir samhæfðri aðferð til að uppræta ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Með fullgildingu náðist mikilvægur áfangi sem tryggir að íslensk löggjöf standist öll ákvæði samningsins. 

Vinnan að jafnrétti í samfélaginu tekur á ótal mörgum þáttum, ekki eingöngu kynjahlufalli í nefndum eða jöfnum launum heldur einnig á þeim þáttum sem oft er erfiðara að snerta á sökum þess hversu faldir þeir geta verið. Vinna gegn ofbeldi er jafnréttismál og einn hlekkur í því mikilvæga markmiði að jafna stöðu og rétt fólks í samfélaginu.