Er siðferði kynjað?

Gunnar Hersveinn Sigursteinsson skrifar

Er siðferði kynjað?

Í 19. aldar kirkjum má stundum finna minningarskildi frá elskandi eiginmönnum um látnar konur sínar. Kona er sögð trygglynd, geðprúð, hreinlynd og hjartagóð. Önnur er trúlynd, viðkvæm, guðhrædd og þrautgóð. Dyggðirnar opinbera viðhorf og væntingar til fyrri alda kvenna.Dyggðir kvenna voru ekki útrásargjarnar líkt og hugrekki og víðförli og kröfðust ekki menntunar líkt og viska og réttlæti. Dyggðir kvenna fólust fremur í þakklæti og birtust í trú, von og kærleika, iðni og þrifnaði, siðsemi, hreinlæti og skírlífi, blygðun, ljúflyndi og auðmýkt, virðingu, lítillæti og vinsældum.

Dyggðir kvenna fyrri alda hverfa ekki átakalaust heldur fylgja þær kynslóðum og ekki er heiglum hent að kveða þær niður. Oft var um fallegar og nytsamlegar dyggðir að ræða en gallinn sá að konur áttu að tileinka sér þær – en karlar ekki. Þetta er kynjað siðferði.

Ástæðan fyrir því að viljaföst kona er oft sögð frek er falin í lofi á kvenlegum dyggðum fyrri alda s.s. lítillæti, auðmýkt og ljúflyndi. Þá áttu konur að sinna öldruðum, sjúkum og börnum af trú, von og kærleika og hljóta þakklæti fyrir. Fyrri alda tilætlunarsemi hefur meðal annars haft þau áhrif að launakjör umönnunar- og uppeldisstétta hafa aldrei verið góð. Djúpt í hugskoti nútímans blundar sú úrelta hugmynd að konur eigi að sinna slíkum verkum, og það helst í sjálfboðavinnu.

Flestir segjast undrandi á því að ekki hafi enn tekist að þurrka út launamun kynjanna, að konu séu boðin lægri laun en karli og að í kerfinu skuli líðast launaskekkja sem bitnar á konum. Margir segjast skelkaðir að heyra að jafnt konur sem karlar láti kyn ráða launatilboði, að karlar hafi óútskýrt forskot á konur á vinnumarkaðinum. Þetta voru þó ekki nýjar fréttir því kenningin um að kyn skipti í raun máli er þekkt. Áróðurinn um að kyn skipti alls ekki máli þegar laun eru annars vegar hefur þó óneitanlega beðið hnekki.

Óútskýrður launamunur kynjanna er jarðvegur sem útópían um frjálsan markað framboðs og eftirspurnar festir ekki rætur í. Ástæða launamunarins er nefnilega grafin í félagslegum arfi sem verður ekki rifinn upp með rótum. Líklegt er að kynbundnar dyggðir sem 19. aldar menn hömpuðu ákaft hafi áhrif á laun og frama karla og kvenna á 21. öldinni. Stúlkum var kennd nægjusemi, að heiðra foreldra sína og að vera lítillátar en drengjum frumkvæði, hugrekki og að geta sér góðan orðstír með afrekum sínum og árangri. Þetta eru þó allt dyggðir sem kenna hefði átt kynjunum jafnt.

Kynja-, sagn- og félagsfræðingar hafa áratugum saman fært sönnur á að kyn er stórpólitísk breyta sem hefur áhrif á völd, virðingu og laun kynjanna. En hver vill hlusta ef það hentar illa? Óútskýrð snilligáfa einstaklinga hefur verið lofuð í hástert en hvert hefur það leitt okkur?

Jafna mætti hlut kynjanna til dæmis með tímabundnum kynjakvótum en flestir virðast alfarið á móti þeirri aðgerð því ekki má „hygla“ konum – það er í andstöðu við lítillæti kvenna fyrri alda – auk þess kæmust færri karlar að! Er ekki hlálegt að hræðast það að hygla konum til dæmis í stjórnum úrvalsvísitölufyrirtækjanna (fyrrverandi) þar sem hlutur þeirra er nú 3 á móti 80 körlum. Eða konum í stjórnum 100 stærstu fyrirtækja Íslands þar sem hlutdeildin er 9%? Trúum ekki þeim sem segja að kyn skipti ekki máli heldur aðeins hæfileikar, framboð og eftirspurn. Við höfum brennt okkur á slíkri trú.

Siðferði er kynjað þótt hugtökin séu það ekki. Hugtökin virðing, jöfnuður, miskunnsemi, hugrekki, nægjusemi eru ekki kynjuð í sjálfum sér. En jafnskjótt og þau eru iðkuð og verða hluti af uppeldi og viðmiðum í mannlífinu breytist allt. Framkvæmdin og kennslan er kynjuð.

Útrásin í viðskiptum var svo sannarlega kynjuð, frjálshyggjan og markaðshyggjan er kynjuð. Þeir þættir sem karlar fá meira hrós fyrir en konur var hampað í útrásinni, til dæmis Skilvirkni og árangur. Svo djúpt er á þessum áróðri að lesa má í líffræðibókum um framleiðslugetu eistanna og afrek sæðisfrumanna andspænis egginu sem er í dvala og bíður eftir að vera frelsað af hetjunni sem borar sig í gegn. (2002. Berglind Rós Magnúsdóttir).

Í ársgamalli Ímyndarskýrslu frá forsætisráðuneytinu: Ímynd Íslands: styrkur, staða og stefna, er gerð tilraun til að fanga þjóðargildin með þessu orðum: “Aðlögunarhæfni, þrautseigja, sköpunargleði, óbilandi bjartsýni, úrræðagóðir, framkvæma hið ógerlega, kraftmikil atvinnusköpun, tjáningarfrelsi, öryggi og frelsi til athafna, agaleysi, djörf og óútreiknanleg hegðun, náttúrulegur kraftur.” En þetta agaleysi og þessa óútreiknanlegu hegðun ber ekki að hræðast samkvæmt skýrslunni því þessir eiginleikar hafa gegnt veigamiklu hlutverki í lífsbaráttu þjóðarinnar. Þeim ber að fagna og þá ber að nýta! segir á bls. 6. (2008. Ímynd Íslands).

Greinilegt er að þessi gildi eru karllæg. Kvenlægum gildum er ekki hampað í skýrslunni og ekki mælt með gildum sem konum er oftar hrósað fyrir en körlum eins og samvinna, umhyggja og þolinmæði. Þetta er kynjuð afstaða. Konur fyrri alda byggðu upp velferðarkerfið og skólakerfið í sjálfboðaboðavinnu. Það eina sem nútímakarlinn hefur til málanna að leggja í þessum efnum er að einkavæða og búa til fjármagn til að kaupa eitthvað annað.

Rannsóknir í kynjafræði hafa sýnt fram á að þegar gera á lítið úr fólki er það kvengert en þegar ætlunin er að lyfta því upp er það karlgert: karlinn gerir, framkvæmir, framleiðir og hefur frumkvæði en konan er sögð hafa eitthvað á prjónunum og sinna sjúkum, öldruðum og börnum í sjálfboðavinnu. Afrek og eiginleikar kynjanna eru tjáð með setningum eins og „hann hefur glímt við vandann af harðfylgi“, en „hún hefur auga fyrir skipulagningu og er samviskusöm“.

Hefðbundin karllæg gildi eru til að mynda: völd, skilvirkni, árangur, regluveldi, íhaldssemi, stöðlun, samkeppni, agi, hlutlægni og formfesta. Þau eru ríkjandi. Kvenlæg gildi eru aftur á móti: samskipti, samvinna, skilningur, umhyggja, sköpun, innsæi, lítil samkeppni, þolinmæði, huglægni og vingjarnleiki. Þau eru víkjandi.

Á vettvangi Evrópuráðsins er jafnrétti skilgreint sem mannréttindi og fullyrt að þar sem jafnrétti er ekki iðkað sé lýðræðisskipulagið vanvirt. Aðildarríki Evrópusambandsins þurfa því að leggja stund á jafnrétti af fullri alvöru. Reyndar svo mikilli alvöru að fyrir hefur komið að sendinefndir ríkja hafa verið sviptar kosningarétti sínum sökum þess að eingöngu karlar skipuðu þær. Einnig hafa tillögur um skipan í embætti verið taldar ótækar sökum þess að eingöngu var stungið upp á körlum. ESB dugar með öðrum orðum ekki lengur jafnrétti í orði, heldur knýr á um það á borði.

Hversu margar karlanefndir höfum við þurft að búa við og lúta hér á landi? Hér er lítið dæmi: Nefnd var sett á laggirnar til að búa þjóðina undir næstum óþekkt fyrirbæri: þjóðaratkvæðigreiðslu: Fjórir karlar voru skipaðir og einn karl til viðbótar til að aðstoða þá. Er það endurspeglun á þjóð? Þetta er lýðræði karla og vitnisburður um kynjað siðferði.

Kyn þarf ekki um alla framtíð að skipta máli í stjórnmálum, viðskiptum og siðferði. En það gerir það nú um stundir og við þurfum að horfast í augu við það í stað þess að berja höfðinu við steininn. Hversu marga vitnisburði þurfum við, hversu margar sannanir? Karllæg gildi hafa einokað viðskiptahætti undanfarin ár og viðskiptasiðferðið hefur verið verulega kynjað. Og hvers vegna er iðulega að verið að velja karla þegar verðgildi einstaklinga er hampað?

Siðferði er ekki aðeins kynjað, það heldur virtist það vera steinrunnið gagnvart kynjunum. Svo steinrunnið að þrátt fyrir að menntunarstig kvenna í landinu sé hærra en karla þá er hlutdeild þeirra í stefnumótun og ákvörðunum í samfélaginu langtum minni en karla.

“Ósiðir, lestir og hleypidómar eru oft ólíkir frá einum manni til annars, en í reynd er hér um félagsleg fyrirbæri að ræða sem berast á milli manna og þeir apa hver eftir öðrum,” sagði Páll Skúlason í útvarpserindi á jóladag 2008. En svo er einnig farið með dyggðirnar sem hæst voru skrifuð á liðnum árum. Karllægum gildaflokkum sem kváðu á um dirfsku, framleiðslu og áhættu var hampað. En önnur gildi eins og forsjálni, jöfnuður og umhyggja urðu undir í tíðarandanum. Jafnvel þótt allir segist vera sammála um að gildi eins og umhyggja vegi þungt þá var framlag þeirra sem leggja stund á hana vanmetið en tæknleg viðfangsefni og viðskipti ofmetið. Sennilega vegna að þeir sem þurfa á umhyggju að halda eru vanmegna hagsmunhópar, t.d. börn og aldraðir. Eða vegna þess að umhyggja er slæm söluvara?

Krossgöturnar hér í dag, tímamótin, felast í því að hinn karllægi þáttur, ríkjandi gildi voru slegin niður. Viðskiptasiðferðið var ekki aðeins kynjað heldur úrkynjað. Hér er lítið dæmi: Bankaráðsformaður í nýeinkavæddum banka var eitt sinn spurður hvers vegna engin kona væri í nýja bankaráðinu og hann svaraði „Við erum varfærnir í byrjun. Við fundum enga konu í fyrstu atrennu til að koma inn í bankaráðið. Breiddin í ráðinu er ágæt.“ Hann hafði með öðrum orðum ekki miklar áhyggjur af kynjaskekkjunni, hins vegar nefndi hann sérstaklega að ungur karl væri í ráðinu og sagði „Ég tel hann vera nauðsynlega rödd ungs manns inn í bankaráðið. Það er töluvert margt ungt fólk í fjármálaheiminum og ég tel nauðsynlegt að þeirra rödd heyrist.“ Orðið nauðsynlegt kom tvisvar fyrir hjá honum svo viss var hann um þessa ungu karlrödd en kvenrödd var ekki einu sinni æskileg.

Þessi kynjaskekkja var auðvitað ekki boðleg og í dag er hún hláleg. Karlar sem sniðganga sjónarmið kvenna í stjórnmálum, fyrirtækjum og í vísindum leggja ekki stund á jafnrétti. En jafnrétti og jöfnuður er það höfuðgildi sem brýnast er að efla á Íslandi í dag – ásamt samvinnu og lýðræði.

Siðferði kemst ekki hjá því að vera kynjað. Félagslegt jafnrétti kynjanna er eina leiðin í leitinni að jafnvægi milli kynjanna í samfélaginu.


Gunnar Hersveinn er höfundur bókarinnar Orðspor – gildin í samfélaginu (JPV 2008) þar sem meðal annars er fjallað um jafnréttismál.