Fundur Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna

15 árum eftir Pekingráðstefnuna„Aldrei hafa jafn margir unnið að jafnrétti kynjanna“. Þetta benti danski stjórnmálafræðingurinn Drude Dahlerup á þegar fundum okkar bar saman á göngum nýbyggingar SÞ í New York í byrjun mars. Við vorum þangað komnar til að fylgjast með 54. fundi kvennanefndar SÞ sem að þessu sinni var helgaður 15 ára afmæli Pekingyfirlýsingarinnar og framkvæmdaáætlunarinnar sem samþykkt var á sínum tíma á kvennaráðstefnunni í Peking.
Þetta voru orð að sönnu því rúmlega átta þúsund manns, að mestu leyti konur, lögðu leið sína á fundinn í New York, auk fulltrúa opinberu sendinefndanna sem skiptu hundruðum.

Það var mikið um ræðuhöld á þessum risastóra fundi sem stóð í tvær vikur. Undirrituð var þó aðeins viðstödd fyrri vikuna. Þegar ég reyndi eftir á að átta mig á helstu umræðuefnum og hvort eitthvað nýtt væri á ferð varð niðurstaðan sú að völd til kvenna á öllum sviðum væru meginstefið. Rétt eins og í Peking var sagt að ef breytingar eiga að verða þurfta konur að komast til valda. Árið 1995 voru konur 10% þingmanna í heiminum, nú 15 árum síðar eru þær 18,9%. Það gengur vægast sagt hægt að fjölga þeim. Kynbundið ofbeldi var mikið rætt og árangur tíundaður hvað varðar lagasetningu og aðgerðir en því miður virðist ekkert benda til þess að það dragi út ofbeldi karla gegn konum.

Ýmis málefni sem voru efst á baugi í Kína 1995 voru ekki eins áberandi svo sem ofbeldi gegn konum á átakasvæðum og á einum fundi þótti ástæða til að spyrja hvort við værum að gleyma stúlkubarninu. Í framkvæmdaáætluninni frá Peking er kafli um stúlkubarnið sem þá var nýtt viðfangsefni en það er eins og sá kafli hafi fallið í skuggann. Ástand heimsmála hefur alltaf mikil áhrif á það hvað er efst á baugi. Árið 1995 var ljóst orðið hve kynferðisleg misnotkun á börnum, einkum stúlkubörnum, var skelfilega útbreidd. Mikið var rætt um eyðingu á kvenkynsfóstrum í Kína og á Indlandi 1995 en ekki heyrði ég minnst á það fyrirbæri núna. Þó nemur misvægi milli fjölda kvenna og karla tugum milljóna í báðum þessum löndum og er farið að skapa veruleg vandamál. Því var von að spurt væri hvort stúlkubarnið væri gleymt. Kyn og loftslagsbreytingar voru nefndar í framhjáhlaupi en það stafaði eflaust af því að loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn COP15 er nýlokið en þar var kynjaumræðan sannarlega á dagskrá.
Mikið var fjallað um fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á jafnréttisstarfi SÞ. Til stendur að sameina í eina stofnun þær stofnanir og skrifstofur sem nú annast þau mál. Vesturlönd eru mjög fylgjandi þessum breytingum en gagnrýni heyrist frá þróunarlöndunum, m.a. að breytingin verði til að styrkja stöðu Vesturlanda. Það var þó samþykktur almennur stuðningur við breytingarnar í lok fundarins.

Eitt af því sem gekk í gegnum umræðuna voru þúsaldarmarkmiðin, sem eiga að nást árið 2015, einkum þau er snúa að baráttu gegn barna- og mæðradauða. Nú eru aðeins fimm ár til stefnu og eins gott að herða róðurinn. Ljóst er að víða hefur tekist að draga verulega úr barnadauða en það sama gildir ekki um mæðradauðann. Því var lýst yfir að SÞ hefðu brugðist mæðrum. Ástæður hins mikla mæðradauða eru margvíslegar. Ungar mæður, margar fæðingar, vannæring, sjúkdómar, skortur á þekkingu og heilsugæslu og andstaða við að leyfa getnaðarvarnir, fræðslu og fóstureyðingar. Yfirráðin kvenna yfir eigin líkama eru enn mikið hitamál rétt eins og í Peking 1995. Fjöldi ríkja þar sem réttindi kvenna eru lítils virt mega vart heyra minnst á kynheilbrigði kvenna. Það er einfaldlega réttur karla að hafa aðgang að konum þegar þeim sýnist og eiga eins mörg börn og þeim þóknast.

Norðurlöndin létu mikið á sér bera á fundinum enda aðgerðir samhæfðar. Norðurlöndin skiptu með sér verkum til að tryggja að rödd þeirra heyrðist í þeim pallborðsumræðum sem skipulagðar voru hvort sem þær fjölluðu um áhrif kreppunnar eða gildi kvennasáttmála SÞ (CEDAW) sem átti 30 ára afmæli á síðasta ári. Norðurlöndin skipulögðu tvo sameiginlega hliðarviðburði. Á þeim fyrri ræddu jafnréttisráðherrar landanna um árangur síðustu 15 ára og hvað væri framundan. Okkar maður Árni Páll gat tíundað verulega fjölgun kvenna á Alþingi, bann við kaupum á vændi og að til stæði að endurskoða aðgerðaáætlunina gegn kynbundnu ofbeldi. Finnski ráðherrann Stefan Wallin minnti á að konur eru 60% finnsku ríkisstjórnarinnar sem ég hygg að sé um það bil heimsmet. Hann sagði líka frá því að hann hefði heimsótt bókaútgáfur í Finnlandi sem gefa út barnabækur til að ræða við þær um staðalímyndir barnabóka. Einnig nefndi hann hve fjölmiðlar væru erfiðir viðureignar. Í hvert sinn sem rætt væri um skyldur fjölmiðla eða þeir gagnrýndir væri hrópað: ritskoðun, fjölmiðlafrelsi og síðan ekki söguna meir. Audun Lysbakken jafnréttisráðherra Noregs greindi frá því að þar í landi er búið að setja á fót stóra nefnd sem á að skoða jafnréttið og jafnréttisstefnuna í Noregi í ljósi kyns, stétta og uppruna frá vöggu til grafar. Þá vekja lög Norðmanna um kvóta í stjórnum fyrirtækja mikla athygli enda skera þeir síg algjörlega úr hvað varðar hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja. Sænska ráðherranum Nyamko Sabuni varð tíðrætt um ofbeldi gegn konum ekki síst innflytjendakonum, heiðursmorð og þvingaðar giftingar. Hún sagði að um 70.00 ungmenni í Svíþjóð væru þvinguð í hjónaband. Í Svíþjóð stendur yfir sérstök skoðun á skólakerfinu út frá jafnrétti kynjanna. Í Danmörku (nýi danski jafnréttisráðherrann var ekki með) ber helst til tíðinda að þar hafa verið skipaðir sérstakir sendiherrar sem taka að sér að heimsækja fyrirtæki í þeim tilgangi að hvetja þau til að jafna stöðu kynjanna í stjórnum. Engar kvótaumræður þar. Þá segja Danir að dregið hafi úr ofbeldi í nánum samböndum, þökk sé mikilli fræðslu og áróðri.

Einnig var haldinn norrænn sérfræðingafundur þar sem löndin skiptu með sér verkum við að ræða hvaða mál væru brýnust nú um stundir. Rætt var um kyn og völd, kyn og loftslagsbreytingar, ályktun Öryggisráðsins nr. 1325 um konur, frið og öryggi og kynbundið ofbeldi. Undirrituð gat þar greint frá því að Alþingi hefði daginn áður samþykkt lög um kvóta í stjórnum fyrirtækja og vakti það mikinn fögnuð viðstaddra. Almennt er mikið fylgi við kvóta í heiminum, t.d. segja konur þriðja heimsins: við getum ekki tekið okkur 150 ár til að öðlast jafna stöðu og jafnan rétt eins og þið hafið gert á Norðurlöndunum og hafið þó ekki náð markinu enn. Norrænu hliðarviðburðirnir voru mjög vel sóttir, troðfullt út úr dyrum á báðum fundum.

Ýmislegt fleira mætti tíunda úr umræðunni en auk þess sem að ofan er nefnt sótti ég sérstaka fundi um aðstoð við frumkvöðla í atvinnurekstri og fund um samvinnu kvenna frá Ísrael og Palestínu.

Hægt er að kynna sér efni 54. fundar Kvennanefndar SÞ á heimasíðu Women‘s Watch