Geta pabbar ekki grátið?

Jafnréttisstofa hefur í samstarfi við jafnréttisstofnanir í Eistlandi og Litháen unnið að verkefninu „Break“ um afnám kynjaðra staðalmynda sem eru heftandi fyrir marga og leiða m.a. til einsleitni í náms- og starfsvali. Afrakstur verkefnisins, verður kynntur á málþingi á Akureyri miðvikudaginn 9. maí og eru skólastjórnendur, kennarar, námsráðgjafar og forvarna- og félagsmálaráðgjafar sérstaklega hvattir til að mæta.

Markmið jafnréttislaga er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Markmiði þessu skal meðal annars náð með því að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kynjanna. Til þess að vinna að þessu markmiði hefur Jafnréttisstofa undanfarin ár leitt og tekið þátt í innlendum og erlendum samstarfsverkefnum þar sem skólastarf er í forgrunni og áhersla á þátt kennara og námsráðgjafa þegar kemur að jafnréttisfræðslu. Sú áhersla hefur ekki minnkað á undanförnum árum þrátt fyrir að Ísland sé í fyrsta sæti á alþjóðlegum mælikvarða um stöðu jafnréttismála. Þeir mælikvarðar sem þar liggja að baki innifela ekki alla þá þætti sem mikilvægir eru þegar jafnrétti er mælt og því er enn verk að vinna t.d. þegar kemur að því að tryggja réttindi hinsegin fólks, afnema kynbundið ofbeldi, kynjað launamisrétti og kynbundinn vinnumarkað. 

Ástæða þess hve hægt gengur þegar litið er til þessara þátta í okkar menningu liggur ekki síst í lífsseigum hugmyndum tvíhyggjunnar sem byggir á því konur og karlar séu ólík en þessar hugmyndir endurspeglast gjarnan í einföldum alhæfingum um kynjaða eiginleika eða hlutverk kynjanna. Staðalímyndir geta verið jákvæðar eða neikvæðar, en þær gefa sjaldnast réttar eða nákvæmar upplýsingar um aðra. Þegar fólk gefur sér að ákveðnir eiginleikar fólks séu bundnir við kyn er verið að setja fram kynjaðar staðalímyndir. Hefðbundnar og  lífsseigar staðalímyndir af konum eru að þær séu tilfinningaríkar, umhyggjusamar og því  líklegri til að velja umönnunnarstörf eða kennslu. Strákar er þá taldir líkamlega sterkir, með stjórnunarhæfileika og áhættusæknir og því liggi það fyrir þeim að vera t.d. stjórnendur fyrirtækja og stunda líkamlega erfiða vinnu.

Þetta eru að sjálfsögðu einfaldanir sem gera ekki ráð fyrir þeim fjölbreytileika sem ríkir innan þessara tveggja hópa. Með því að líta framhjá fjölbreytileika sem birtast í mismunandi hæfileikum, áhugasviði og væntingum fólks viðhelst sú tvíhyggju sem við þekkjum sem er heftandi og jafnvel útilokandi þegar kemur að náms- og starfsvali ungs fólks. Gott dæmi um þetta er kynbundið náms- og starfsval og sú rótgróna kynjaskipting sem ríkir á vinnumarkaði hérlendis en mörg dæmi eru um að fólk upplifi fordóma ef það velur starf utan þess sviðs sem samfélagið ætlar þeirra kyni, sér í lagi þegar karlmenn velja að starfa við umönnunarstörf. 

Ef allir eiga að hafa jafna möguleika til að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni þarf að brjóta upp ríkjandi staðalímyndir og stuðla að meira frelsi þar sem kyn ræður ekki náms- og starfsvali heldur hæfileikar og langanir. Skólarnir eru í lykilstöðu til að hafa áhrif á úreltar hugmyndir samfélagsins og brjóta upp þá tvíhyggju sem er ríkjandi með því að fræða alla nemendur um sömu störf, leggja áherslu á  blöndun í nemendahópum og fjölbreytt verkefni þar sem nemendum gefst tækifæri til að efla hæfileika sína og getu óháð kyni. Jafnréttisfræðslu þarf að samþætta öllu námi og námsmenningu en það verður ekki gert nema að tryggja kennurum  þá grunnþekkingu sem þarf til verksins og skólanum nauðsynleg námsgögn.

Eins og áður segir hefur Jafnréttisstofa  í samstarfi við jafnréttisstofnanir í Eistlandi og Litháen unnið að verkefni sem miðar að því að brjóta upp kynjaðar staðalmyndir. Afrakstur verkefnisins, spennandi kennsluefni, kennsluleiðbeiningar fyrir kennara og námsráðgjafa, útvarpsþættir og vefsíða þar sem nálgast má fróðleik í formi leikins efnis, viðtala og tölvuleiks sem nýta má í kennslu verður kynntur á málþingi á Akureyri miðvikudaginn 9. maí nk.  Allir eru hjartanlega velkomnir.

Málþingið sem er  frá kl. 13:30 -16:00 verður á efstu hæð í Rósenborg á Akureyri.

Þar verður Evrópuverkefnið „Break“  kynnt og sagt frá jafnréttisstarfi á leik-, grunn,- og framhaldsskólastigi auk þess sem nemendur úr MA munu flytja erindi um hlutverk framhaldsskóla þegar kemur að jafnréttisstarfi.