Heimilisofbeldi

Halla Bergþóra Björnsdóttir skrifar

Heimilisofbeldi

16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi

Heimilisofbeldi hefur verið dulið vandamál í samfélaginu – leyndarmál sem þolendur eiga erfitt með að segja öðrum frá og hvað þá leita sér hjálpar. Eftir því sem umræðan hefur opnast síðustu ár hefur áherslan á heimilisofbeldi og afleiðingar þess verið mun meiri. Heimilisofbeldi getur tekið á sig margvíslegar myndir bæði andlegar og líkamlegar. Samkvæmt rannsóknum eru gerendur bæði konur, menn og börn. Alvarlegustu heimilisofbeldismálin eru oftast þegar gerandi er karlmaður og þolendur eru konur og börn.

Það hefur verið að koma í ljós meir og meir síðustu ár hve alvarlegt heimilisofbeldi er og að afleiðingar þess eru margþættar. Þolendur eru lengi að vinna úr þessari erfiðu reynslu. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að börn sem verða vitni að heimilisofbeldi upplifa sálrænt áfall og getur haft mikil áhrif á geðheilsu þeirra fram á fullorðinsár. Áfallið er hliðstætt hvort sem börn sjá foreldri verða fyrir ofbeldi eða verða sjálf fyrir ofbeldinu.

Eins og áður sagði hefur hvílt leynd yfir þessum brotum og áður fyrr var litið á heimilisofbeldi sem afbrot sem tengist mjög einkalífi fólks, tengdust persónulegum málefnum sem ættu sér stað innan „friðhelgi einkalífsins“. Vegna þessa voru þessi mál í þá daga mjög erfið og vandasöm úrlausnar. Samfélagið og þar með lögreglan leit oft á þetta sem einkamál aðila og átti það einkum við þegar hvorki brotaþoli né gerandi vildu aðstoð lögreglu. Í dag á þetta sjónarmið ekki við - heimilisofbeldi er ekki einkamál lengur heldur varðar almannahagsmuni og okkur öllum ber skylda að berjast gegn því og aðstoða brotaþola svo og gerendur.

Lögreglan á Suðurnesjum hóf þessa herferð gegn heimilisofbeldi á árinu 2013 í samvinnu við félagsmálayfirvöld. Í desember 2014 setti embætti Ríkislögreglustjóra nýjar verklagsreglur varðandi heimilisofbeldi sem tilkynnt væru lögreglu, þar var einkum litið til tilraunaverkefnis lögreglustjórans á Suðurnesjum „Að halda glugganum opnum“.

Markvissara tekið á málum

Í verklagsreglum Ríkislögreglustjóra og með samstarfi félagsmálayfirvalda á hverjum stað er lagt upp með það að taka þessi mál fastari tökum frá upphafi og hafa áhrif á framgang þeirra. Útkallið er gríðarlega mikilvægt því að þegar lögregla er kölluð til í heimilisofbeldismálum gefst þetta einstaka tækifæri til að hafa áhrif á framgang málsins. Við vitum að yfir þessum málum hvílir oft leynd og þegar dyrnar opnast kemur þetta tækifæri til að hafa áhrif. Lögreglan tekur markvissara á málum og rannsakar málið betur í upphafi. Í því felst að gera strax vettvangsrannsókn og taka upp framburði aðila og vitna, leggja áherslu á að þolandi og eftir atvikum gerandi sæti læknisrannsókn.

Fulltrúi frá félagsmálayfirvöldum kemur á vettvang og veitir þolendum aðstoð hvort sem börn eru á heimilinu eða ekki. Ef ekki eru börn á heimilinu þarf samþykki aðila fyrir því að kalla til fulltrúa félagsmálayfirvalda. Starfsmaður félagsmálayfirvalda er mikilvægur á vettvangi þar sem hann verður einnig vitni að atburðum á vettvangi og stuðningur við þolendur í að leita sér læknishjálpar sem er mjög mikilvægt fyrir sönnun. Að auki getur hann líka aðstoðað gerendur og hvatt þá til að leita sér aðstoðar.

Þá er kynnt fyrir þolendum og gerendum úrræði um nálgunarbann og brottvísun af heimili, sá stuðningur sem er í boði og að farið verði í eftirfylgni vegna atburðar um það bil viku síðar.

Reynslan af þessu samstarfi hefur verið góð fyrir þolendur og mun markvissara hefur verið tekið á málunum. Skýr skilaboð gefin út í samfélagið um að heimilisofbeldi verði ekki liðið og saman erum við sterkari í að takast á við verkefnið þannig að það skili meiri árangri.

Höfundur er lögreglustjóri á Norðurlandi eystra.