Hvers vegna hefur Jafnréttisstofa áhuga á íþróttafélögum?

27.08.2018 Katrín Björg Ríkarðsdóttir skrifar

Hvers vegna hefur Jafnréttisstofa áhuga á íþróttafélögum?

„Íþróttakonur segja frá áreitni, mismunun og nauðgunum og krefjast breytinga“ var yfirskrift fréttar sem birtist í íslenskum fjölmiðli snemma árs. Þetta var því miður ekki eina fréttin af þessum toga sem skall á landsmönnum í kjölfar #metoo byltingarinnar. Fjöldi íþróttakvenna steig fram og vitnaði um óþolandi aðstæður og ástand og kröfðust þess að konur og stúlkur gætu stundað íþróttir í öruggu umhverfi.

Jafnréttisstofa heyrir undir ráðherra velferðar- og jafnréttismála og hefur eftirlit með framkvæmd laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 (jafnréttislög). Markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.

Jafnréttisáætlanir gegna mikilvægu hlutverki í markvissu jafnréttisstarfi. Samkvæmt jafnréttislögum eru íþróttafélög ekki skyldug til að setja sér jafnréttisáætlanir en hafa hins vegar þær skyldur að gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að iðkendur og starfsfólk verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni í tengslum við starfsemi félaganna.

Þau félög sem kosið hafa að taka þátt í gæðaverkefni ÍSÍ og gerast fyrirmyndarfélög hafa þær skyldur að gera mat á starfsemi sinni m.t.t. jafnréttis og setja sér jafnréttisáætlun. Í kjölfar þeirra frásagna íþróttakvenna sem vitnað er til hér að framan ákvað Jafnréttisstofa því að kalla eftir jafnréttisáætlunum frá fyrirmyndarfélögum til þess að fá yfirsýn yfir stöðuna og geta leiðbeint um úrbætur ef á þyrfti að halda. Í kjölfarið hófst síðan samstarf ÍSÍ og Jafnréttisstofu um hvernig mætti sem best styðja íþróttafélög í að bæta jafnrétti kynjanna í sínum störfum. Niðurstaðan varð sú að vinna að gerð leiðbeininga og ramma fyrir jafnréttisáætlanir og stendur sú vinna yfir.

Það er sérstakt fagnaðarefni að í ný kynntum tillögum starfshóps mennta- og menningarmálaráðherra um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldishegðun í íþrótta- og æskulýðsstarfi skuli áherslan vera á öryggi iðkenda og annarra þátttakenda. Þá ber einnig að fagna því að horft sé til þess að aukið jafnrétti geti haft jákvæð áhrif á íþróttastarf og dregið úr áreitni og ofbeldishegðun.

Íþróttir og íþróttafélög eru mikilvægur þáttur í menningu okkar Íslendinga. Þess vegna skiptir miklu máli að við séum öll með leikreglurnar á hreinu þegar kemur að fjölbreytileika, jafnrétti og virðingu.