Jafnrétti á vinnumarkaði

14.09.2021 Katrín Björg Ríkarðsdóttir skrifar

Jafnrétti á vinnumarkaði

Íslensk jafnréttislöggjöf er vinnumarkaðsmiðuð að miklu leyti og eru ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 ekki frábrugðin eldri jafnréttislögum að því leyti. Markmið laganna er að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Þessu markmiði skal m.a. ná með því að vinna gegn launamisrétti og annarri mismunun á grundvelli kyns á vinnumarkaði, m.a. með því að fyrirtæki og stofnanir uppfylli skilyrði jafnlaunavottunar og jafnlaunastaðfestingar.

Glænýjar skýrslur um annars vegar launamun karla og kvenna og hins vegar verðmætamat kvennastarfa sýna okkur að enn er allnokkuð í land að markmiðum þessum sé náð. Skýrslur þessar má nálgast á vef forsætisráðuneytisins.

Skyldur fyrirtækja og stofnana eru þó víðtækari en svo að ná eingöngu til jafnlaunavottunar og jafnlaunastaðfestingar. Öllum fyrirtækjum og stofnunum þar sem starfa 25 eða fleiri að jafnaði á ársgrundvelli ber að setja sér jafnréttisáætlanir eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Í slíkum áætlunum skal sérstaklega kveða á um hvernig starfsfólki eru tryggð þau réttindi sem kveðið er á um í lögunum. Er þar vísað sérstaklega til greina sem varða launajafnrétti, jafnlaunavottun eða jafnlaunastaðfestingu eins og komið hefur fram en einnig skulu þær fjalla um laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni.

Lög nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu leggja einnig ríkar skyldur á atvinnurekendur og yfirmenn fyrirtækja og stofnana. Lögin gilda um aðgengi að störfum, sjálfstæðri atvinnustarfsemi eða starfsgreinum, þ.m.t. við ráðningar og framgang í starfi; aðgengi að náms- og starfsráðgjöf, starfsmenntun og starfsþjálfun; ákvarðanir í tengslum við laun, önnur starfskjör og uppsagnir og þátttöku í samtökum launafólks eða atvinnurekenda, þ.m.t. þau hlunnindi sem þau veita félagsmönnum.

Það skiptir höfuðmáli að fyrirtæki og stofnanir taki jafnréttismál alvarlega og vinni ötullega að framgangi þeirra á sínum vinnustöðum. Ábyrgðin á markmiðum og framkvæmd innan hvers fyrirtækis, stofnunar eða sveitarfélags verður að vera skýr og eru stjórnendur í lykilstöðu til að ná fram árangri í jafnréttismálum.

Þau sem telja á sér brotið samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna eða lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði geta leitað eftir áliti kærunefndar jafnréttismála. Jafnréttisstofa veitir ráðgjöf og aðstoð í þeim efnum. Þá er líka rétt að vekja athygli á því að félagasamtök geta fyrir hönd félagsmanna sinna leitað eftir áliti kærunefndarinnar.