Jafnrétti og Norðurskautsráðið – mikilvægur áfangi

21.05.2021 Hjalti Ómar Ágústsson skrifar

Jafnrétti og Norðurskautsráðið – mikilvægur áfangi

Ný alþjóðleg skýrsla um stöðu kynjajafnréttis á Norðurslóðum

Út er komin tímamótaskýrsla um stöðu kynjajafnréttis á Norðurslóðum (e. Panarctic Report: Gender Equality in the Arctic). Útgáfa skýrslunnar hélst í hendur við 12. ráðherrafund Norðurskautsráðsins sem haldinn var í Reykjavík 19.-20. maí, en jafnréttismál á Norðurslóðum hafa verið meðal áherslusviða í formennsku Íslands í ráðinu undanfarin tvö ár.

Skýrslan var lögð fyrir og samþykkt á ráðherrafundinum og var hluti af ráðherrayfirlýsingunni og aðgerðaáætlun sem einnig voru samþykktar við sama tækifæri. Þar með er mikilvægum áfanga náð í jafnréttismálum á svæðinu en þau eru talin grundvallaratriði í sjálfbærri þróun til framtíðar á Norðurslóðum. Ísland hefur margt fram að færa í alþjóðlegu samstarfi um jafnréttismál, ekki hvað síst jákvæða reynslu af því að setja jafnréttismál á oddinn og reynslu af samþættingu kynjasjónarmiða. Að sama skapi er margt að læra af samstarfsaðilum okkar, má þar nefna hugmyndir frumbyggja á Norðurslóðum um kyn og kyngervi.

Megin niðurstöður skýrslunnar eru þær að mikið skorti upp á að gögn og tölfræði taki tillit til sérstöðu Norðurslóða og eins að þau séu oft ekki greind eftir kynjum og uppruna. Mikilvægt sé að gögn og tölfræði taki tillit til þess að áhrif breytinga á fólk geta verið mjög mismunandi eftir því hver uppruni, kyn og heimkynni þess eru. Þannig geta áhrif loftslagsbreytinga á hvítan karlmann á Húsavík verið mjög frábrugðin áhrifum á frumbyggjakonu í Chukotka í Rússlandi. Enn fremur leggja höfundar áherslu á mikilvægi kynjasamþættingar og kynjaðrar hagstjórnar í allri stjórnsýslu og ákvarðanatöku á Norðurslóðum í átt að sjálfbærri þróun, auk þess sem mælt er með sértækum aðgerðum til að leiðrétta kynjahalla þar sem það á við. Undir þessi sjónarmið er tekið bæði í ráðherrayfirlýsingu og aðgerðaráætluninni, sem er mikið fagnaðarefni.

Skýrslan er hluti af alþjóðlegu samstarfsverkefni undir hatti vinnuhóps Norðurskautsráðsins um sjálfbæra þróun (Sustainable Development Working Group – SDWG) um Kynjajafnrétti á Norðurslóðum (e. Gender Equality in the Arctic – GEA). GEA á rætur að rekja aftur til ársins 2013 og var upphaflega runnið undan rifjum utanríkisráðuneytisins í samstarfi við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Jafnréttisstofu. Verkefnið hefur síðan vaxið og dafnað með aðkomu fjölmargra alþjóðlegra samstarfsaðila undir styrkri stjórn Emblu Eirar Oddsdóttur hjá Norðurslóðaneti Íslands sem leitt hefur verkefnið frá árinu 2014. Frá upphafi hefur GEA lagt áherslu á mikilvægi jafnréttis og fjölbreytileika á öllum sviðum og markmið verkefnisins hefur verið að efla umræðu um jafnréttismál á Norðurslóðum og leggja grunn að upplýstri stefnumótun til framtíðar.

Fyrsti áfangi GEA verkefnisins fór fram á árunum 2013-2015 og gaf af sér ráðstefnuna “Gender Equality in the Arctic – Current Realities, Future Challenges“, sem haldin var á Akureyri í október 2014, og samnefnda samantektarskýrslu sem gefin var út af utanríkisráðuneytinu árið 2015. Strax í upphafi var lögð áhersla á samráð og samstarf við sem flesta hagsmunaaðila, ekki síst frumbyggja á Norðurslóðum. Á ráðstefnunni komu saman fulltrúar stefnumótandi stjórnvalda, fræðimenn, og fjöldi hagsmunaaðila s.s. úr viðskiptalífinu, frá félagasamtökum, áhrifafólk úr samfélögum á Norðurslóðum og síðast en ekki síst fulltrúar hagsmunasamtaka og samfélaga frumbyggja.

Í öðrum áfanga, sem hleypt var af stokkunum árið 2017, var áhersla lögð á áframhaldandi uppbyggingu þess samstarfsvettvangs sem fyrsti áfangi hafði skapað og að koma á laggirnar vefsíðu sem héldi utan um samstarfið, og útgefið efni og viðburði sem fjalla um kynjamál á Norðurslóðum. Vefsíðunni er einnig ætlað að dýpka og halda á lofti umræðu um kynjajafnrétti og hvetja til samstarfs milli þeirra sem að jafnréttismálum á Norðurslóðum starfa.

Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu (e. Arctic Council) af Finnlandi á vordögum 2019 og í tilefni af því var þriðja áfanga verkefnisins (GEA III) hleypt af stokkunum sem formennskuverkefni Íslands í Norðurskautsráðinu. Í GEA III felst meðal annars:

  • Áframhaldandi þróun og efling vefsíðu verkefnisins og samstarfs um jafnréttismál á Norðurslóðum.
  • Áframhaldandi söfnun efnis um jafnréttismál á Norðurslóðum á vefsíðu verkefnisins.
  • Útgáfa fréttabréfs verkefnisins – GEA Times - og dreifing efnis á samskiptamiðlum, s.s. Facebook, Twitter og LinkedIn.
  • Skipulagning og þátttaka í viðburðum sem tengjast jafnréttismálum á Norðurslóðum.

Megináhersla GEA III hefur hins vegar verið útgáfa hinnar nýútkomnu skýrslu um stöðu jafnréttismála á Norðurslóðum. Að baki skýrslunni standa tíu aðalhöfundar auk um 80 meðhöfunda og í anda GEA verkefnisins var mikil áhersla lögð á samstarf og virka þátttöku samstarfs- og hagaðila við undirbúning og vinnslu skýrslunnar. Meðal annars var lögð áhersla á að sjónarmið ungs fólks kæmu fram og var í þeim tilgangi settur á fót ráðgjafahópur ungmenna sem tók þátt í mótun, ritun og ritrýni skýrslunnar. Fulltrúar hópsins áttu sæti í ritstjórn auk aðalhöfunda skýrslunnar og fulltrúa SDWG frá bæði aðildarríkjum ráðsins og samtökum frumbyggja á Norðurslóðum. Að auki var sérfræðingahópur SDWG um samfélagsleg, efnahagsleg og menningarleg málefni fengin til að ráðleggja um efnistök á frumstigum verkefnisins. Leitast var við að efni skýrslunnar væri sett fram á skýran og aðgengilegan hátt.

Jafnréttisstofa tekur nú þátt í undirbúningi að fjórða áfanga GEA sem unninn verður í samstarfi við Norðurslóðanet Íslands, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, vinnuhóp Norðurskautsráðsins um sjálfbæra þróun, auk fjölda þátttakenda sem tekið hafa þátt í fyrri áföngum verkefnisins. Ísland hefur margt fram að færa í samstarfi um jafnréttismál, ekki hvað síst jákvæða reynslu af því að setja jafnréttismál á oddinn og reynslu af samþættingu kynjasjónarmiða. Að sama skapi er margt að læra af samstarfsaðilum okkar, má þar nefna hugmyndir frumbyggja á Norðurslóðum um kyn og kyngervi.

Í tilefni af útgáfu skýrslunnar efndi Norðurslóðanet Íslands til rafræns útgáfuteitis föstudaginn 14. maí síðastliðinn. Viðburðurinn var haldinn í samstarfi við utanríkisráðuneytið, Polar Institute við Wilson Center í Washington D.C., Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Jafnréttisstofu og Institute of Arctic Studies við Dartmouth háskóla í New Hampshire. Meðal þátttakenda í viðburðinum var Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, en upptöku af viðburðinum er að finna hér.

Jafnréttisstofa fagnar útgáfu skýrslunnar sem finna má á heimasíðu verkefnisins.

 

Höfundur er sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu og var verkefnisstjóri þriðja áfanga Gender Equality in the Arctic verkefnisins.