Jafnréttið og skólinn

Á síðasta ári var þess minnst að 100 ár voru liðin frá því að Danakonungur undirritaði lög sem veittu giftum konum kjósenda í Reykjavík og Hafnarfirði kosningarétt og kjörgengi til sveitastjórna. Þessi lög mörkuðu þáttaskil. Í lok janúar á þessu ári voru 100 ár liðin frá því að fyrstu konurnar voru kjörnar í bæjarstjórn en þá vann fyrsti kvennalistinn sem boðinn var fram hér á landi glæsilegan sigur er hann fékk fjórar konur kjörnar inn í 15 manna bæjarstjórn Reykjavíkur. Reykvískar konur kváðu sér hljóðs í fyrsta sinn innan einnar af valdastofnunum samfélagsins. Þær voru að stíga skref á langri leið til jafnréttis kynjanna.

Þessi afmæli minna okkur á að baráttan fyrir jafnrétti kynjanna á Íslandi hefur staðið mjög lengi, miklu lengur en í 100 ár og hún hefur kostað mikla vinnu og markvissar aðgerðir. Það var fyrir rúmum 100 árum sem hún tók að skila árangri einkum á mennta- og lagasviðinu. Á árunum 1900-1915 voru sett margvísleg lög sem tryggðu jafnrétti karla og kvenna, þar með talið réttinn til mennta. Friðrik konungur 8. undirritaði nefnilega fleiri merk lög 22. nóvember 1907. Þann dag voru einnig liðin 100 ár síðan sett voru ný fræðslulög sem skylduðu sveitafélögin til að koma á fót skólum og kváðu á um skólaskyldu 10-14 ára barna. Það var stórt skref í átt til jafnréttis þegnanna. Í kjölfarið var Kennaraskólinn stofnaður 1908. Þremur árum síðar rættist draumurinn um íslenskan háskóla sem var frá upphafi opinn konum jafnt sem körlum. Möguleikar Íslendinga, karla sem kvenna, til menntunar og betra lífs voru að stórbatna þó að fátækt, atvinnuleysi, kynjamisrétti og fjarlægð frá skólum og atvinnu heftu marga.

Ljón í vegi kvenna

Konur og karlar sem beittu sér fyrir auknum réttindum kvenna trúðu eða vildu flest trúa því að með lagalegum réttindum myndi allt breytast. Þjóðfélagið biði eftir kröftum kvenna. Dyr valdastofnana myndu opnast og karlar breiða út faðminn og bjóða þær velkomnar út á hinn opinbera vettvang. Það væri kvenna að grípa tækifærin. Þeirra beið það verkefni að breyta og bæta það sem „auga konunnar sá glöggar en auga karlmannsins“ eins og það var orðað í rökstuðningi kvenna. Það voru einkum kjör kvenna, barna, aldraðra og sjúkra. Lögin voru hindrunin. Þegar þeim yrði breytt myndu konur afla sér menntunar, vinna fyrir sér, sækjast eftir embættum, streyma inn á þing og í bæjarstjórnir, þó að flestar myndu sennilega sinna áfram búi og börnum. Ólafur Ólafsson fríkirkjuprestur skrifaði í barátturitinu Olnbogabarninu sem gefið var út árið 1892: „Það á að koma og kemur einhvern tíma sá tími, að konur sitja hjer á þingmannabekkjum og taka þátt í löggjöf lands og þjóðar, að konur sitja í dómarasætum, boða guðsorð, gegna læknastörfum, kenna við skólana og rækja hver önnur störf, sem karlmennirnir nú hafa einkarjett til að hafa með höndum“. Þessi framtíðarsýn Ólafs rættist ekki fyrr en mörgum áratugum síðar. Það reyndust mörg ljón í veginum, flest ósýnileg.

Það var ekki liðið nema ár frá því að konur eldri en 40 ára fengu kosningarétt til Alþingis að kvenréttindakonan Bríet Bjarnhéðinsdóttir áttaði sig á því að nánast allar dyr valdakerfisins voru harðlæstar og að ekki stóð til að opna þær. Hún bauð sig fram til Alþingis 1916 en var strikuð svo mikið út að hún féll niður um eitt sæti og komst ekki að. Hún kenndi áhugaleysi kvenna um en sagði líka síðar að karlar héldu konum utan girðingar, þeir hugsuðu bara um sig og kysu bara karla. Það kostaði sérframboð að tryggja konum sæti í nokkrum bæjarstjórnum og það var með kvennalista sem tókst að koma einni konu á þing árið 1922.

Staður kvenna er á heimilinu

Ingibjörg H. Bjarnson sem sat á þingi frá 1922-1930 mætti mikilli andstöðu og gagnrýni, bæði frá konum og körlum, sem snérist ekki síst um menntamál. Konur voru komnar að mörkum æskilegra breytinga, jafnvel of langt að mati þeirra sem réðu orðræðunni. Það varð að ýta þeim til baka. Vindar höfðu nefnilega breyst í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar frá breytilegri átt sem blés konum í allar áttir, yfir í eindregna norðanátt sem feykti nánast öllum konum inn í húsmæðraskóla. Í áratugi var sá áróður rekinn að staða kvenna væri og ætti að vera inni á heimilunum, þrátt fyrir verulega atvinnuþátttöku kvenna, giftra sem ógiftra. Þær áttu að búa sig undir starf húsmóðurinnar með því að sitja svo sem einn eða tvo vetur í húsmæðraskóla. Alls voru stofnaðir 12 húsmæðraskólar um allt land.

Nú vil ég ekki kasta rýrð á starf húsmæðraskólanna. Þar þróaðist merk kvennamenning, byggð á fornum hefðum, sem ég held að sé að glatast. Þeir áttu ríkan þátt í að bæta mataræði, heilsu og hreinlæti og voru kannski eina tækifæri margra stúlkna til að fara að heiman og mennta sig eitthvað. Það er hins vegar þessi einstefna sem ríkti hér varðandi menntun kvenna fram undir 1970 sem vekur margar spurningar. Hún leiddi til þess að mun færri konur gengu menntaveginn hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Hún átti sinn þátt í að efnahagsleg og pólitísk völd kvenna voru mun minni hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Hún á að mínum dómi ríkan þátt í að glíman við hefðbundna stöðu kvenna og staðalmyndir kynjanna hefur verði lengri og erfiðari hér á landi en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Hér ríkja sterkar og rótgrónar hugmyndir um karlmennsku og kvenleika sem erfiðlega gengur að breyta. Við erum einfaldlega skemmra á veg komin en frænkur okkar og frændur á Norðurlöndunum hvað varðar jafnstöðu kynjanna.

Kynjakerfið


Auðvitað komu fleiri þættir við sögu en einhliða menntun, svo sem menning okkar, efnahagserfiðleikar, atvinnuhættir, byggðastefna og þjóðernishyggja sem beindist að því að halda lífinu í íslenska bændasamfélaginu en þó fyrst og fremst rótgróið karlveldi eða kynjakerfið svo gripið sé til skilgreiningar sænska sagnfræðingsins Yvonne Hirdman. Kynjakerfið hefur tvö megineinkenni. Annað er að staða karla er yfirskipuð, staða kvenna undirskipuð. Karlar eru viðmiðið, hið rétta. Því þarf engu að breyta aðeins að færa konur nær gildum karla að mati þeirra sem valdið hafa. Hitt einkennið samkvæmt Hirdman er aðgreining kynjanna sem var áður mjög sýnileg í lögum en sést nú einkum í kynskiptu náms- og starfsvali sem vel að merkja er skýrari á hinum jafnréttissinnuðu Norðurlöndum en víðast hvar annars staðar. Þetta kerfi leitast við að halda konum og körlum á ákveðnum bás innan ramma viðurkenndrar karlmennsku og kvenleika. Aðferðin sem beitt var hér á landi til að halda konum niðri í ríkara mæli og lengur en á hinum Norðurlöndunum var einhæf menntun, einhæf störf og einhæfur boðskapur um hið æskilega hlutverk kvenna.

En svo hófst breytingaskeið. Það hófst hægt en bítandi undir lok sjötta áratugarins, óx ásmegin á þeim sjöunda, blómstraði á þeim áttunda og er enn í fullum skrúða. Efnahagur tók að stórbatna með auknu viðskiptafrelsi og síldarævintýri sem reyndar fékk snöggan endi þegar búið var að ausa allri síldinni upp. Aukinn iðnaður, útflutningur og vaxandi velferðarkerfi kallaði á meira vinnuafl. Það var sóst eftir vinnuafli kvenna.

Árið 1958 voru sett lög sem heimiluðu giftum konum að telja aðeins helming tekna sinna fram til skatts sem var auðvitað hið argasta óréttlæti, t.d. gagnvart einstæðum mæðrum. Þessi lög eru dæmi um markvissa aðgerð til að fá giftar konur út á vinnumarkaðinn. Þetta var eiginlega stórmerkileg löggjöf í ljósi ríkjandi hugmynda um hina ástkæru eiginkonu og elskandi móður sem ávallt beið með heitan mat eldaðan samkvæmt uppskrift frá Helgu Sigurðardóttur ef ekki upp úr dönsku blöðunum og sveif brosandi um með ryksuguna. Hvernig átti að koma þessu heim og saman? Annars vegar ríkjandi hugmyndum húsmæðrastefnunnar og hins vegar ísköldum veruleika vaxandi hóps útivinnandi kvenna sem bjó við hrópandi launamisrétti, tvöfalt vinnuálag, minni menntun en karlar, skort á úrræðum fyrir börn og mikla kvenfyrirlitningu sem m.a. mátti sjá í íslenskum bókmenntum?

Hann fékk bók en hún fékk nál og tvinna

Til að gera langa sögu stutta, þá streymdu konur út á vinnumarkaðinn, inn í láglaunastörfin og inn í skólana þar sem konum fjölgaði ár frá ári og fjölgar enn. Þrá og þörf fyrir menntun meðal kvenna var gríðarleg og hefur tekið marga áratugi að uppfylla hana. Menntun átti að færa konum frelsi og jafnrétti en hvort tveggja lét á sér standa. Alþingi, sveitastjórnir og aðrar mikilvægar stofnanir voru látnar óáreittar að sinni, nema reyndar kirkjan. Það varð harður árekstur við ríkjandi gildi og konur gerðu uppreisn. Rauðir sokkar voru dregnir upp að hné, kröfuspjöld fóru á loft og nánast engu var eirt í grannskoðun á íslensku samfélagi. Mörg málefni sem við ræðum nú af mikilli alvöru voru þó ekki komin á dagskrá kvennabaráttunnar svo sem ofbeldi gegn konum og kynferðisleg misnotkun á börnum.

Skólarnir fóru ekki varhluta af umræðum um stöðu kynjanna enda kennarar kynjunum væri mismunað og íhaldssömum kynímyndum haldið að börnum í skólum landsins. Karlar stjórnuðu, konur kenndu á lágum launum. Íslandssögubækur Jónasar frá Hriflu fjölluðu um hetjur – karla – sem riðu um héruð og skrautbúin skip fyrir landi. Þetta kölluðu rauðsokkur kvenmannslausa sögu Íslendinga. Benni átti bíl og Dóra dúkku sögðu lestrarbækurnar. Hann fékk bók en hún fékk nál og tvinna. Stelpur prjónuðu utan um herðatré og hekluðu pottaleppa, strákar smíðuðu hillur og skápa.

Síðan er mikið vatn til sjávar runnið en hvað hefur breyst? Hvað varð um kennarana sem ætluðu að bylta skólakerfinu og sögðu: við þurfum jafnréttisuppeldi? Hvað varð um jafnréttisfræðsluna sem kveðið var á um í fyrstu jafnréttislögunum frá 1976? Þá velktist löggjafinn ekki í vafa um mikilvægi skólanna við að tryggja jafnrétti kynjanna enda hefur reynslan kennt okkur hve mikilvæg menntun og fræðsla er við sköpun þjóðfélagsins. Það þurfti að byrja á byrjuninni, kynmótun barnanna.

Hvað varð um jafnrétti í skólastarfi?

Hvaða hlutverk leikur skólinn raunverulega í að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun eins og segir í lögum um grunnskóla, eða til að taka virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi eins og segir í lögum um framhaldsskóla? Lýðræðisþjóðfélag hlýtur að tryggja jafna möguleika beggja kynja til þátttöku og áhrifa eða hvað? Annars er það ekki lýðræðisþjóðfélag. Hvaða hlutverk leikur skólinn við að stuðla að samfélagi þar sem bæði drengir og stúlkur fá að njóta hæfileika sinna laus úr viðjum hefðbundinna staðalmynda? Hvernig sinnir skólinn því hlutverki að „búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu og atvinnulífi” og fræða bæði kyn um sömu störf, eins og segir í núgildandi jafnréttislögum?

Rannsóknir sýna því miður að þessu hlutverki er illa sinnt. Ef marka má niðurstöður Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar er það ágæta námsefni sem til er fyrir grunnskóla um jafnrétti kynjanna lítið notað. Ef marka má kannanir kennara innan KHÍ á viðhorfum kennaranema, sem vel að merkja eru konur í miklum meirihluta, finnst þeim óþarfi að læra kynjafræði og finnst jafnrétti kynjanna skipta litlu máli í starfi kennarans. Skólinn sem stofnun virðist ekki taka það hlutverk sitt alvarlega að jafna stöðu kynjanna, hann tekur þvert á móti þátt í að viðhalda óbreyttu ástandi með því að sinna ekki lögboðinni jafnréttisfræðslu.

Þessi afstaða er að mínum dómi í fullu samræmi við ríkjandi hugmyndir og stöðu kynjanna í íslensku samfélagi. Jafnrétti kynjanna er sagt handan við hornið. Þetta viðhorf kalla þeir í Noregi: Þetta-er-allt-að-koma-stefnan og hún felur í sér að ekkert þarf að gera. Eru ekki konur að sækja fram á öllum sviðum? Ergo, það er ekkert vandamál til staðar.

Hér á landi hefur ekki fengist samþykkt að grípa til sértækra aðgerða eins og kvóta eða laga sem skylda stofnanir og fyrirtæki til að skipa konur í stjórnir. Slíkar aðgerðir hafa víða skilað miklum árangri. Jafnréttislög hafa verið í gildi í rúmlega 30 ár en þeim hefur ekki verið fylgt eftir með nauðsynlegum aðgerðum eða fjármagni. Fjöldi fyrirtækja virðir ekki jafnréttislög hvað varðar jafnréttisáætlanir. Launamisrétti kynjanna hefur verið staðfest í könnun eftir könnun en samt gerist ekki neitt. Fjölmiðlum finnst greinilega ásættanlegt að konur séu þriðjungur viðmælenda, í það minnsta breyttist ekkert á milli áranna 2000 og 2005. Karlar raða sér í efstu sæti framboðslistanna og það eru þeir sem eiga fyrirtækin, stjórna þeim, misvel eins og dæmin sanna. Akademían, kirkjan og vísindasamfélagið eru svo kapítuli út af fyrir sig. Þar fjölgar konum en þessar stofnanir þekkingar og trúar eru enn mjög karllægar.

Kenningar um viðhald valdsins

Jafnrétti kynjanna á langt í land og ástandið lagast ekki af sjálfu sér. Þess vegna höfum við sérstök jafnréttislög, þess vegna höfum við Jafnréttisstofu og jafnréttisnefndir, framkvæmdaáætlanir og kærunefnd. Ekki til að vera afsökun fyrir því að gera ekki neitt, heldur til að framkvæma, ýta á eftir og breyta hugarfarinu. Þess vegna er mikil þörf á fræðslu á öllum stigum og í öllum stofnunum samfélagsins.

Margendurteknar rannsóknir og reynsla í meira en hundrað ár sýna og sanna að það er samstaða, barátta og aðgerðir sem knýja fram breytingar. Til að geta breytt verðum við að skilja hvað býr að baki. Hér þarf að skyggnast dýpra. Á undanförnum áratugum hafa farið fram miklar rannsóknir á valdi og mismunandi formum þess ekki síst meðal femínista. Það er athyglisvert að þeir tveir karlkyns fræðimenn – báðir franskir - sem lagt hafa hvað mest til valda- og kynjaumræðunnar á undanförnum áratugum skynjuðu sig báðir utanveltu, þeir tilheyrðu hinum – the others, rétt eins og konur. Michel Foucault var samkynhneigður og velti mikið fyrir sér þeirri spurningu hvernig „einhverjir“ tóku sér það vald að segja að hann væri annars flokks mannvera, vegna kynhneigðar sinnar. Hann skilgreindi vald orðræðunnar sem í hans tilfelli var notuð til útilokunar.

Pierre Boudieu var bráðgáfaður sonur póstafgreiðslumanns utan af landi sem komst inn í aðal snobbmenntaskóla Frakklands þaðan sem nánast allir valdamenn landsins koma. Hann skynjaði sterkt að hann tilheyrði ekki þessum hópi. Í hverju lá munurinn? Hvernig héldu þeir völdum innan sinna raða og endurnýjuðu það stöðugt? Frekari rannsóknir hans á þjóðflokki í Alsír renndu stoðum undir kenningu hans um viðhald valdsins. Bourdieu skrifaði sérstaka bók um „yfirráð karla” sem eru eitt form valdsins.Við erum öll mótuð af sýnilegum og ósýnilegum reglum og því umhverfi sem við ölumst upp í – eða það sem Bourdieu kallaði habitus. Við tökum öll þátt í að viðhalda kerfinu, þar með talið stöðu kynjanna, nema að svo fari að við gerum uppreisn gegn því af einhverjum ástæðum. Valdhafar leyfa breytingar að vissu marki, sbr. það sem sagt var hér að framan um árangur áranna upp úr aldamótunum 1900. Það verða breytingar og nýtt valdajafnvægi skapast.

Kynbundið náms- og starfsval


Viðhald valdsins og hefðanna fer víða fram. Mótun kynjanna byrjar nánast í vöggu með vali á litum og leikföngum, viðmóti og hvatningu. Foreldrar, ættingjar og kennarar leika stórt hlutverk að ógleymdu sjónvarpi og öðru því sem verður á vegi ungra barna. Við þekkjum öll hve fljótt lítil börn fá skýrar hugmyndir um stráka og stelpur. Doktorsrannsókn Guðbjargar Vilhjálmsdóttur sem einmitt gekk út frá kenningu Bourdieu um habitus leiddi í ljós að hugmyndir unglinga um náms- og starfsval kynjanna eru orðnar mjög fastmótaðar og hefðbundnar á aldrinum 13-15 ára. Rannsóknir Berglindar Rósar Magnúsdóttur sýna hvernig klárar stelpur víkja fyrir strákum í félagslífinu og jafnvel í námi af því að staðalmyndir í þeirra hópi leyfa ekki að stelpur skari fram úr. Það hefur sjaldnast þótt hæfa konum að vilja upp á dekk.

Könnun sem Samtök atvinnulífsins lét vinna á síðasta ári leiddi í ljós að hefðbundnar hugmyndir um náms- og starfsval láta ekkert undan síga. Rannsókn sem unnin var á vegum Háskólans í Reykjavík á síðasta ári sýndi að konur meta konur til lægri launa en karla og karlar meta aðra karla til mun hærri launa en konur. Undirskipuð staða kvenna er rækilega forrituð í hausinn á okkur. Síðast en ekki síst virðast rannsóknir þeirra Auðar Magndísar Leiknisdóttur og Andreu Hjálmsdóttur benda til þess að unga kynslóðin hafi neikvæðari afstöðu til jafnréttis kynjanna en kynslóð foreldra þeirra. Það má því vænta bakslags í jafnréttismálum verði ekki gripið til aðgerða gagnvar þessum valdhöfum framtíðarinnar.

En er einhver skaði skeður? Er þetta bara ekki allt í lagi, svo framarlega sem við leiðréttum launamisréttið? Mega stelpur ekki verða hjúkrunarfræðingar og strákar tölvunarfræðingar? Jú, vissulega en það færir nýja reynslu og oft nýjar spurningar inn í starfsgreinar að þar vinni bæði konur og karlar. Það breytir vinnustöðunum og það breytir valdahlutföllum að bæði kyn vinni saman. Það hefur haft veruleg áhrif á sumar greinar að konur hafa komið þar inn, t.d. læknisfræði og lögfræði. Rígbundnar hugmyndir um það hvað er við hæfi karla og kvenna eru líklegar til að hefta hæfileika fólks og hamla því að þjóðfélagið njóti sköpunarkrafta einstaklinganna. Kynskiptur vinnumarkaður er eitt af því sem viðheldur kynjamisrétti. Hann metur flest þau mikilvægu störf sem konur hafa löngum unnið til lægri launa en störf karla og viðheldur þar með lakari félagslegri og efnahagslegri stöðu kvenna.

Skólinn skiptir máli í jafnréttisuppeldi


En lífið snýst ekki bara um vinnu. Það snýst einnig um fjölskyldu og einkalíf. Verkaskiptingu á heimilum, uppeldi, tómstundir, tungumálið, orðræðuna, menningu, virðingu, samskipti, vald og ofbeldi. Þar kemur jafnrétti kynjanna mikið við sögu. Hvernig býr skólinn drengi og stúlkur undir þá hlið lífsins og hver er ábyrgð skólans?

Allir þeir sem unnið hafa við kennslu vita að það er hægt að hafa mikil áhrif á nemendur. Við höfum mörg hver kynnst kennurum sem opnuðu okkur nýja sýn á heiminn og sum okkar hafa eflaust séð augu nemenda opnast fyrir nýjum veruleika, nýjum skilningi á veröldinni. Það er hægt að breyta og jafna stöðu kynjanna en til þess þarf vitund, þekkingu, vilja og markvissar aðgerðir. Það gerist ekki af sjálfu sér.

Að mínum dómi á skólinn að leika stórt hlutverk í að styrkja bæði kyn, frelsa stráka frá neikvæðum hliðum karlmennskuhugmynda og losa stelpur við hamlandi einkenni kvenleikans. Skólinn á að þekkja hindranirnar, vinna að því að ýta þeim úr vegi, ýta undir að hæfileikar einstaklinganna fái að njóta sín óháð staðalmyndum kynjanna. Kyn skiptir máli, það er ein mikilvægasta breyta hvers samfélags, það sem skiptir íbúum hvers lands í tvo nokkurn veginn jafn stóra hópa. Það er þó sífellt verið að afneita þýðingu kynsins og breiða þar með yfir vandamálin og misréttið. Þannig er valdi viðhaldið.

Hlutverk skólans er að búa nemendur undir líf og starf í síbreytilegum heimi, auka færni þeirra, starfsfærni sem og félagslega og persónulega færni. Skólinn á að vissu marki að viðhalda menningu, tungu og öflugu siðferði og þá meina ég siðferði byggt á virðingu við allar manneskjur, en hann á líka að vera gagnrýninn og opinn fyrir mismunandi þörfum og stöðu barna.

Kennarastéttin er í lykilstöðu. Hún verður að nýta sér nýjustu þekkingu á þjóðfélagi okkar og mæta nýjum ögrunum með opnum augum. Ein slík ögrun er kynbundið náms- og starfsval og leiðir til að breyta því. Önnur ögrun er uppeldi til áhrifa, virkni og umönnunar (e. empowerment) sem felst í því að styrkja sjálfsmynd og sjálfstraust stelpna þannig að þær sæki fram til valda og áhrifa og hvetja stráka til að sinna umönnun. Þriðja ögrunin er það kynferðisofbeldi sem fjöldi barna býr við og eitrar líf þeirra. Þar skiptir kyn miklu máli. Fjórða ögrunin er klám- og ofbeldisvæðing sem ýtir undir kvenfyrirlitningu og eykur enn á valdamisvægi kynjanna. Fimmta ögrunin er svo móðir Jörð sem við erum að breyta í ruslahaug og óræð framtíð nýrrar tækni og glímu við að bjarga jörðinni. Einnig þar skiptir kyn máli.

Bætum menntun kennara

Allir þeir sem annast menntun kennara gegna lykilhlutverki við að búa kennara undir flókið og sífellt erfiðara starf. Kennaramenntun sem tekur ekki mið af mismunandi stöðu kynjanna tekur þátt í að viðhalda ríkjandi kynjakerfi – kerfi misréttisins - í stað þess að vinna að breytingum á því. Hún horfir fram hjá margbreytileika, mismunandi þörfum og vandamálum nemenda og það er engum til góðs.

Það verður að gera kynjafræði að skyldugrein í kennaranámi. Það þarf að stórauka þekkingu kennara á kynjakerfinu. Það þarf að byggja upp vitund um kynbundið ofbeldi og afleiðingar þess, skilgreina viðbrögð við því og smíða ferla sem verða að vera til staðar börnunum til hjálpar. Það þarf að stórauka rannsóknir á stöðu kynjanna, þar með talið náms- og starfsval, orsakir þess og afleiðingar. Það þarf að kynna mun betur þær rannsóknir sem fyrir eru. Það þarf að stórauka samvinnu þeirra sem vinna að jafnrétti kynjanna og gegn kynbundnu ofbeldi. Það þarf að ganga markvisst í að endurmennta kennara í ljósi nýjustu þekkingar á stöðu og þörfum kynjanna. Jafnréttið þarf að fá það rými sem því ber lögum samkvæmt. Það á að vera fléttað inn í allt okkar starf, allt námsefni, allar ákvarðanir, alla kennslu.

Nú er unnið að verkefninu „Jafnrétti í skólum” á vegum fimm stærstu sveitarfélaganna, Félags- og tryggingamálaráðuneytis, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráðs. Unnin verða tilraunaverkefni innan grunn- og leikskóla, jafnframt því sem þekkingu verður safnað í sarpinn á heimasíðu verkefnisins. Þetta er góð byrjun en betur má ef duga skal.

Jafnrétti kynjanna snýst um réttlæti, mannréttindi, virðingu, betra samfélag og líf án ofbeldis og ógna. Reykvískar konur unnu stórsigur fyrir 100 árum eftir einhverja best skipulögðu kosningabaráttu sem um getur hér á landi. Við þurfum að skipleggja okkur betur, standa saman og grípa tækifærin til umbóta í þágu komandi kynslóða.