Jafnréttislöggjöfin og jafnréttisstarf sveitarfélaganna

Hugrún R. Hjaltadóttir skrifar

Jafnréttislöggjöfin og jafnréttisstarf sveitarfélaganna

Í febrúar 2008 voru samþykkt ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, lög nr. 10/2008. Með þessum lögum voru gerðar töluverðar breytingar, m.a. á þeim ákvæðum sem snúa að sveitarfélögum. Í eldri lögum voru lagðar ákveðnar skyldur á sveitarfélögin, til dæmis skylda til að starfrækja jafnréttisnefnd og gera jafnréttisáætlun. Í nýju lögunum eru ekki lagðar nýjar skyldur á sveitarfélögin heldur hafa verkefni þeirra verið skýrð nánar.

Jafnréttisnefndir sveitarfélaganna
Í 12. gr. laganna er sérstaklega fjallað um sveitarstjórnir. Skipa skal jafnréttisnefnd að loknum sveitarstjórnarkosningum. Jafnréttisnefndin á að sjá um að jafnréttisáætlanir séu gerðar til fjögurra ára í senn. Gerð er krafa um að jafnréttisáætlanir séu lagðar fram í síðasta lagi einu ári eftir sveitarstjórnarkosningar til að tryggja að jafnréttismál komist á dagskrá nýrrar sveitarstjórnar við upphaf hvers kjörtímabils og að nýskipuð jafnréttisnefnd hafi skilgreint verkefni frá fyrsta starfsdegi. Í lögunum kemur einnig fram að jafnréttisnefndirnar eiga að sýna frumkvæði og aðhald þegar kemur að jafnrétti kvenna og karla í sveitarfélaginu.

Við lagabreytinguna sem var gerð árið 2000 var ákvæði um stærðarmörk sveitarfélaga afnumið og er því öllum sveitarfélögum skylt að skipa jafnréttisnefnd og gera jafnréttisáætlun. Ákvæði um fjölda fulltrúa í jafnréttisnefnd hefur einnig verið fellt út. Rétt er að taka fram að sveitarfélögum er heimilt, skv. 41. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1999, að sameina nefndir eða fela öðrum nefndum að fara með lögbundin verkefni jafnréttisnefndar. Þetta er gert í allnokkrum minni sveitarfélögum og eru þá félagsmálaráðum eða –nefndum oftast falin verkefni jafnréttisnefndar. Þetta er leið sem oft á tíðum hefur tekist vel. Hafa ber þó í huga að þegar slíkt er gert þarf að tryggja að nefndin hafi tíma til að sinna sínum lögbundnu skyldum varðandi bæði jafnréttismálin og öðrum málaflokkum sem nefndin er jafnframt ábyrg fyrir. Annars missir slík sameining marks.

Jafnréttisáætlanir sveitarfélaganna
Jafnréttisnefnd á samkvæmt lögum að hafa umsjón með gerð jafnréttisáætlunar til fjögurra ára eins og þegar hefur verð nefnt. Innihald slíkrar áætlunar er sérstaklega nefnt í greinum nr. 18-22, en þær fjalla um jafnréttisáætlanir á vinnumarkaði. Þar er skýrt kveðið á um að vinnustaðir með fleiri en 25 starfsmenn, á árs grundvelli, eigi að setja sér jafnréttisáætlun. Flest sveitarfélög eru slíkir vinnustaðir og eiga því að hafa jafnréttisáætlun sem snýr að starfsfólki. Í 18. gr. er kveðið á um að framkvæmdaáætlun eigi að fylgja með jafnréttisáætlun. Í 19. til 22. gr. er svo fjallað um launajafnrétti, laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs, kynbundna og kynferðislega áreitni. Öllum þessum atriðum þarf að gera skil í jafnréttisáætlun og tilgreina í framkvæmdaáætlun hvernig þeim markmiðum skuli náð.

Jafnréttisáætlanir sveitarfélaganna þurfa jafnframt að uppfylla fleiri skyldur. Í fyrrnefndri 12. grein er tekið fram að í jafnréttisáætlun á að ...koma fram hvernig unnið skuli að kynjasamþættingu á öllum sviðum ásamt framkvæmdaáætlun um það hvernig leiðrétta skuli mismun á stöðu kvenna og karla innan sveitarfélagsins. Þetta er skylda sem lögð er á sveitarfélögin umfram þær skyldur sem sveitarfélagið hefur sem vinnuveitandi. Hér er tilgreint að sveitarfélögin eiga að vinna að jafnrétti kynjanna meðal íbúa sinna. Er því sveitarfélaginu ekkert óviðkomandi hvað varðar jafnréttisstarf innan þess. Hér ber að nefna að þetta á sérstaklega við um alla starfsemi sveitarfélagsins og þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir, en það má einnig túlka enn víðara og taka inn vinnumarkaðinn innan sveitarfélagsins. Þessi áhersla er ný í lögunum en þó ber að taka fram að mörg sveitarfélög hafa unnið að fjölbreyttu jafnréttisstarfi sem snýr að íbúum sveitarfélagsins þó slík lagaskylda hafi ekki verið til staðar. Það hefur verið gert að frumkvæði jafnréttisnefndanna. Í þessu samhengi má einnig nefna Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum og héruðum sem nú hefur verið þýddur á íslensku. Þetta er pólitísk viljayfirlýsing um að sveitarfélagið, sem undirritar sáttmálann, ætli að vinna að framgangi jafnréttis milli kvenna og karla í samræmi við ákvæði samningsins. Samningurinn getur reynst gagnlegt verkfæri við vinnu að jafnréttismálum innan sveitarfélaga en hann felur í sér ýmis nýmæli fyrir íslensk sveitarfélög. Með því að undirrita hann eru sveitarfélög líka orðin hluti af evrópsku tengslaneti og geta notið góðs af reynslu annarra evrópskra sveitarfélaga í jafnréttismálum. Samningurinn hefur náð mikilli útbreiðslu meðal sveitarfélaga í Evrópu og yfir 500 sveitarfélög og héruð hafa undirritað hann. Þar á meðal eru Mosfellsbær, Akureyri og Hafnarfjörður.

Skipun í nefndir, ráð og stjórnir
Þegar kemur að skipunum í nefndir, stjórnir og ráð á vegum sveitarfélaganna er 15. grein laganna afdráttarlaus en þar er kveðið á um að...
...við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að.
Þegar tilnefnt er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal tilnefna bæði karl og konu.
Nauðsynlegt er að þessi skylda sveitarfélagsins komi fram í jafnréttisáætlun til þess að öllum sem koma að starfsemi sveitarfélagsins sé þetta ljóst og til þess að tryggja að farið sé eftir lögunum. Þessari grein var töluvert breytt við endurskoðun laganna. Fyrir endurskoðun þeirra var ekki jafn skýrt til orða tekið heldur var talað um að ...þar sem því væri við komið, ættu að sitja bæði konu og karl í nefnum og ráðum. Slíkt orðalag hefur ekki skilað árangri og eru breytingar á lagatextanum nú í samræmi við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum og stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Nú er skýr lagaskylda að skipa konur og karla til jafns í nefndir, ráð og stjórnir ríkis og sveitarfélaga.

Menntun og skólastarf
Í 22. grein laganna er fjallað um menntun og skólastarf. Þar segir að...
...á öllum skólastigum skuli nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. skal lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu og atvinnulífi.
Þar segir einnig að ...kynjasamþættingar skuli gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð í skóla- og uppeldisstarfi, þar á meðal íþrótta- og tómstundastarfi. Þessi grein er töluvert breytt frá eldri löggjöf og er í henni stefnt saman málaflokkum sem eru sambærilegir en mismunandi aðilar eru ábyrgir fyrir, þar á meðal sveitarfélögin. Þau verða að vera meðvituð um þá ábyrgð sem þau hafa varðandi jafnréttismál sem tengjast menntun og skólastarfi og gera ráð fyrir því í jafnréttisáætlun sinni. Gaman er að segja frá því að 22. maí sl. undirritaði Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra, Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu og fulltrúar fimm sveitarfélaga samstarfssamning um þróunarverkefnið Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum. Sveitarfélögin fimm eru Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbær, Mosfellsbær og Akureyrarbær. Verkefnið er hugsað til eins ár og miðar að því að auka og efla jafnréttis- og kynjasjónarmið í leikskólum og grunnskólum. Sveitarfélögin tilnefndu öll einn leikskóla og einn grunnskóla til að sinna tilraunaverkefnum á sviði jafnréttisfræðslu á þessu skólaári. Einnig hefur verið sett upp heimasíða sem er aðgengileg öllum þeim sem vilja fræða og fræðast um jafnrétti í námi og starfi. Heimasíðuna má finna á slóðinni www.jafnrettiiskolum.is

Framkvæmdaáætlun samhliða jafnréttisáætlun
Í nýju lögunum er einnig kveðið á um framkvæmdaáætlun sem leggja skal fram samhliða jafnréttisáætlun. Slík framkvæmdaáætlun er nefnd í 12. grein og 18. grein. Í 12. grein segir að í henni skuli koma fram hvernig á að ná jafnrétti kynjanna innan sveitarfélagins. Í 18. grein er nefnt að í jafnréttisáætlun skuli... sérstaklega kveðið á um markmið og gerð áætlun um hvernig þeim skuli náð til að tryggja starfsmönnum þau réttindi sem kveðið er á um í 19.–22. gr. Í slíkum áætlunum ber að taka fram þau markmið og þær aðgerðir sem sveitarfélagið ætlar að nota til að koma á jafnrétti kynjanna. Hér er ekki átt við að jafnréttisáætlun og framkvæmdaáætlun séu tvö mismunandi skjöl. Þau mega vera það en geta einnig verið eitt og hið sama, svo lengi sem skjalið uppfyllir þau ákvæði lagananna sem við eiga. Ekki er nóg að setja sér almenn markmið um að í sveitarfélaginu skuli ríkja jafnrétti heldur verður að taka fram hvernig á að tryggja það.

Eftirlitshlutverk Jafnréttisstofu
Eftirlitshlutverk Jafnréttisstofu hefur verið eflt með nýju lögunum. Áður var ekki kveðið á um að Jafnréttisstofa ætti að hafa eftirlit með framkvæmd laganna á sveitarstjórnarstígi með eins skýrum hætti og nú er gert. Í 12. grein nýju löggjafarinnar er jafnréttisnefndunum gert skylt að afhenda Jafnréttisstofu skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála innan viðkomandi sveitarfélags annað hvert ár. Með þessari málsgrein er ekki verið að taka upp hertari löggjöf gagnvart sveitarfélögunum heldur er verið að herða eftirlit með að löggjöfinni sé fylgt eftir. Þetta er gert til að auðvelda Jafnréttisstofu eftirlits- og fræðsluhlutverk sem hún hefur ásamt því að auka upplýsingaflæði og geta metið stöðu jafnréttismála í landinu. Á undanförnum árum hefur Jafnréttisstofa gert kannanir á jafnréttisáætlunum sveitarfélaga, tilvist þeirra og innihaldi. Einnig hefur Jafnréttisstofa frætt sveitarfélögin um skyldur þeirra samkvæmt jafnréttislögum og boðið til fræðslufundar fyrir nýskipaðar jafnréttisnefndir svo eitthvað sé nefnt.

Jafnréttisvogin er verkefni sem Jafnréttisstofa hefur unnið og snýr að mati jafnréttis í sveitarfélögum. Jafnréttisvogin var unnin í tengslum við Evrópuverkefni sem bar heitið Tea for two. Verkefnisstjórnun var í höndum Jafnréttisstofu en ráðgjöf, vinna við rannsóknir og gagnavinnsla í höndum sérfræðinga RHA – Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri. Eitt af markmiðum Jafnréttisvogarinnar fólst í að gera niðurstöður mælinga kunnar á heimasíðu verkefnisins, www.tft.gender.is. Þar geta sveitarfélög nú, með hjálp myndrænnar framsetningar niðurstaðna, metið árangur sinn í jafnréttismálum. Jafnréttisvoginni er ætlað að vera verkfæri til árangursmælingar sem nú hefur verið prófað einu sinni og verður þróað áfram í samstarfi við sveitarfélögin.

Gera má ráð fyrir að jafnréttisstarf sveitarfélaganna sé í stöðugri þróun og óhætt er að fullyrða að þar fari víða fram gott starf. Jafnréttisstofa vill að lokum benda á að upplýsingar um gerð jafnréttisáætlana eru á heimasíðu stofunnar www.jafnretti.is og starfsfólk Jafnréttisstofu veitir ókeypis leiðbeiningar og aðstoð í gegnum síma og tölvupóst. Einnig býður stofan upp á námskeið um gerð jafnréttisáætlana þar sem farið er í samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða ásamt öðrum aðferðum sem beitt er til að koma á jafnrétti kynjanna í raun. 
--------------------------------------------------------------------------------------------------------

12. gr.

Jafnréttisnefndir sveitarfélaga.

Sveitarstjórnir skulu að loknum sveitarstjórnarkosningum skipa jafnréttisnefndir sem fjalla um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla innan viðkomandi sveitarfélags. Skulu nefndirnar vera ráðgefandi fyrir sveitarstjórnir í málefnum er varða jafnrétti kynjanna og fylgjast með og hafa frumkvæði að aðgerðum, þar með talið sértækum aðgerðum, til að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla innan viðkomandi sveitarfélags.

Hver jafnréttisnefnd skal hafa umsjón með gerð jafnréttisáætlana til fjögurra ára, þar sem m.a. komi fram hvernig unnið skuli að kynjasamþættingu á öllum sviðum ásamt framkvæmdaáætlun um það hvernig leiðrétta skuli mismun á stöðu kvenna og karla innan sveitarfélagsins. Jafnréttisáætlanir skulu lagðar fram til samþykktar í viðkomandi sveitarstjórn eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar.
Hver nefnd skal annað hvert ár afhenda Jafnréttisstofu skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála innan viðkomandi sveitarfélags.