Jafnréttismál eru sveitarstjórnarmál

17.04.2019 Arnfríður Aðalsteinsdóttir skrifar

Jafnréttismál eru sveitarstjórnarmál

Sveitarfélag þar sem markvisst er unnið að jafnrétti kynjanna er réttlátara samfélag fyrir íbúana og eftirsóknarverðara fyrir alla. Mikilvægt verkfæri í þeirri vinnu er jafnréttisáætlun með skýrum markmiðum og tímasettri aðgerðaáætlun þar sem ábyrgð og eftirfylgni er tryggð.

Vegna nálægðar við íbúana er sveitarstjórnarstigið í lykilstöðu til að vinna að jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins, hvort heldur sem stjórnvald, vinnuveitandi eða þjónustuveitandi.

Sveitarfélög sem stjórnvald

Sveitarstjórnarfólk þarf að vera meðvitað um mikilvægi jafnréttisstarfs og þess að koma jafnréttismálum í góðan farveg innan stjórnsýslunnar. Þar gegna jafnréttisnefndir og jafnréttisáætlanir mikilvægu hlutverki.

Að loknum sveitarstjórnarkosningum skulu sveitarstjórnir skipa jafnréttisnefndir sér til ráðgjafar í jafnréttismálum. Nefndirnar eiga að fylgjast með og hafa frumkvæði að aðgerðum til að tryggja jafnrétti kynjanna í sveitarfélaginu og hafa umsjón með gerð jafnréttisáætlana til fjögurra ára. Jafnréttisáætlunum skal fylgja framkvæmdaáætlun þar sem fram kemur hvernig leiðrétta á stöðu kynjanna í sveitarfélaginu og vinna að kynjasamþættingu. Leggja skal áætlanirnar fram til samþykktar í viðkomandi sveitarstjórn eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar.

Sveitarfélög sem vinnuveitendur

Ánægt og hæft starfsfólk skiptir sköpum fyrir árangur sveitarfélaga og fyrirtækja og stofnana á þeirra vegum. Ef nýta á krafta og kunnáttu alls starfsfólks til fullnustu er mikilvægt að á vinnustöðum sveitarfélagsins ríki jafnrétti og að hegðun á borð við kynbundið ofbeldi, kynbundna og kynferðislega áreitni sé ekki liðin. Einnig þarf að tryggja að starfsfólk geti samræmt fjölskyldu- og atvinnulíf.

Fyrirtækjum og stofnunum með 25 starfsmenn eða fleiri ber að setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Í jafnréttisáætluninni skal kveðið á um markmið og gerð áætlun um hvernig tryggja á starfsmönnum ofangreind réttindi sem tilgreind eru í 19.-22. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Sveitarfélög sem þjónustuveitendur

Sveitarfélög gegna veigamiklu hlutverki sem veitendur þjónustu, má þar m.a. nefna menntun barna og unglinga, tómstunda- og íþróttastarf og umönnun aldraðra. Sérstaklega þarf að huga að stöðu kynjanna við alla stefnumótun og ákvarðanatöku á þessum sviðum. Með því að nota aðferðafræði kynjasamþættingar má koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og tryggja betur félagslegt réttlæti í þjónustu sveitarfélagsins.

Að lokum

Mikilvægt er að verkefnum jafnréttisáætlunarinnar sé fylgt eftir og reglulega sé farið yfir framgang verkefnanna og skoðað hvað gekk vel og hvað betur má fara. Þannig verður jafnréttisáætlunin lifandi plagg og líklegri til að skila raunverulegum árangri.

Þann 19. mars kallaði Jafnréttisstofa eftir jafnréttisáætlunum frá sjötíu og tveimur sveitarfélögum. Innkölluninni lýkur 1. júní en þá er rúmt ár liðið frá síðustu sveitarstjórnarkosningum.

Leiðbeiningar um gerð jafnréttisáætlana og lesefni má nálgast á hér.

Ef eitthvað er óljóst og/eða ef aðstoðar er óskað er alltaf hægt að leita til Jafnréttisstofu.