Karlar í hjúkrun

Christer Magnusson skrifar

Karlar í hjúkrun

Hjúkrunarstéttin er kvennastétt eins og allir vita. Þó eru til nokkrir karlkyns hjúkrunarfræðingar. Forvitnilegt er að skoða hverjir þeir eru og hvað varð til þess að þeir völdu að feta þessa óvenjulegu slóð. Í fyrra voru 50 ár síðan fyrstu karlmennirnir útskrifuðust úr Hjúkrunarkvennaskóla Íslands og kominn tími til að meta stöðuna hvert jafnvægi kynjanna er í þessari stétt.Í félagatali Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga eru nú 85 karlmenn og eru það um 2% af félagsmönnum. Í Hjúkrunarkvennatalinu, en það var gefið út 1969, voru karlmennirnir þrír. Hjúkrunarfræðingatal kom út tíu árum seinna og þá höfðu níu karlmenn bæst við. Hér verður sagt frá nokkrum karlmönnum í kvennastétt og velt upp ýmsum spurningum. Af hverju eru svo fáir karlmenn hjúkrunarfræðingar? Er æskilegt að fjölga karlmönnum í stéttinni?

Til forna var reyndar alvanalegt að karlmenn störfuðu við það sem nú er kallað hjúkrun. Hjá Rómverjum voru margir starfsmenn sjúkrahúsa grískir þrælar og er talið að flestir þeirra hafi verið karlmenn. Á Indlandi var nokkrum öldum fyrir Krist stofnaður fyrsti hjúkrunarskólinn sem vitað er um. Einungis karlmenn máttu nema þar því að karlmenn einir voru taldir nógu hreinir til þess. Í árdaga kristni voru stofnaðar klausturreglur, meðal annars til þess að sinna sjúkum, og talið sjálfsagt að munkarnir stunduðu hjúkrun. Síðar virðast nunnur hafa tekið við að veita sjúkrahjálp og hefur hjúkrun verið vel sinnt innan veggja klaustra í kaþólskum löndum. Hafa Íslendingar notið góðs af því alveg fram á 21. öld. Eftir siðaskiptin og þegar klaustur lögðust af varð hjúkrun hins vegar að lágstéttarvinnu í löndum mótmælenda. Þegar Florence Nightingale hóf endurbótastarf sitt var hjúkrun orðið mjög óvinsælt starf. Florence gerði hjúkrun að heiðvirðu starfi en hún var þó sjálf mótfallin því að karlmenn sinntu því. Eftir hennar tíð hafa karlar aðallega starfað við geðhjúkrun sem lengi vel hafði meira sameiginlegt með fangelsisvörslu en hjúkrun.

Fyrstir á Íslandi

Tveir fyrstu karlmennirnir í hjúkrun á Íslandi, þeir Geir Friðbergsson og Rögnvaldur Skagfjörð Stefánsson, útskrifuðust 1959. Rannveig Sigurbjörnsdóttir var með þeim í bekk. „Það var mjög skemmtilegt að fá þá í hópinn,“ segir Rannveig. „Þeir féllu vel inn í hópinn og bæði kennarar og nemar voru stoltir af þeim. Okkur fannst tímabært að fá karlmenn í stéttina.“ Geir og Rögnvaldur höfðu báðir lært hjúkrun í eitt ár í Danmörku og komu því fyrst í hópinn á öðru ári. „Þeir gátu auðvitað ekki búið á heimavistinni heldur bjuggu úti í bæ og mættu beint í tíma. Stundum stálust þeir til að koma í kaffi á vistinni,“ segir Rannveig.

Útskriftin í október 1959 vakti athygli og var meðal annars grein í Vísi þar sem bent var á að karlmennirnir tveir höfðu útskrifast á 40 ára afmælisári Hjúkrunarfélagsins. Í viðtalsgrein í Morgunblaðinu kemur fram að Geir hafði verið að vinna á Kleppi og þar hitt enskan hjúkrunarfræðing sem beindi áhuga hans að hjúkrun. Geir fór svo ásamt Pétri Björgvinssyni til Danmerkur til hjúkrunarnáms. Pétur lauk námi í Danmörku og virðist hafa ílengst þar.

Rögnvaldur hafði svipaða sögu að segja. Hann hafði unnið á Elliheimilinu og fengið áhuga á starfinu. Þeir Geir og Rögnvaldur voru ekki samferða í skóla í Danmörku en báðir voru þeir fyrst í djáknaskóla sem var skilyrtur undirbúningur fyrir þá sem vildu fara í hjúkrunarskóla. Þeir færðu sig svo um set þegar þeir fréttu að karlmönnum hefði verið leyft að nema við Hjúkrunarkvennaskóla Íslands. Nafninu var breytt í Hjúkrunarskóla Íslands fyrst 1962.

Rögnvaldur giftist danskri hjúkrunarkonu, vann fyrst á Grund og lærði svo svæfingarhjúkrun. Hann fluttist seinna til Danmerkur þar sem hann býr enn. Geir giftist Hólmfríði Geirdal hjúkrunarfræðingi. Þau unnu fyrst saman á Kleppi þar sem var hægt að fá bústað og dagvistun fyrir börnin og fluttu svo á Hvammstanga. Rannveig Sigurbjörnsdóttir segist hafa leyst þau hjónin af eitt sumar til þess að þau gætu komist í sumarfrí saman. Geir lærði svo geislafræði og gerðist röntgenhjúkrunarfræðingur. Hann var lengi deildarstjóri röntgendeildar á Borgarspítalanum en lést 1997.

Af hverju eru karlmennirnir ekki fleiri?
 
Eftir að Geir og Rögnvaldur útskrifuðust hafa um 100 karlmenn starfað við hjúkrun á Íslandi. Þeir hafa annaðhvort numið hjúkrun hér á landi eða flutt hingað og starfað hér í skemmri eða lengri tíma. Það samsvarar að tveir karlmenn hafi tekið til starfa á ári hverju síðan um 1960. Karlmenn eru í öllum löndum í minnihluta í hjúkrun en óvíða eins fáir og á Íslandi. Á síðustu öld hafa konur gert innreið í karlastéttir og orðið til dæmis. prestar, læknar og jafnvel verkfræðingar en karlar sækja lítið í hefðbundnar kvennastéttir. Þetta er sérstaklega áberandi í hjúkrun. Af þeim 85 karlmönnum, sem eru núna í félaginu, eru einungis sjö undir þrítugu og því ljóst að ekki hefur fjölgað verulega í hópi ungra karlmanna undanfarin ár. Reyndar munu fjórir bætast við um það leyti og þetta tölublað kemur út. Hins vegar eru tólf í hópnum af erlendum uppruna þannig að alþjóðlegir fólksflutningar hafa átt sinn þátt í fjölgun karlmanna í hjúkrunarstétt á Íslandi. Þá eru frátaldir erlendir karlmenn sem eru í félagatalinu en búa ekki lengur hér á landi.

Það má velta fyrir sér af hverju það sækja ekki fleiri ungir karlmenn í hjúkrunarnám. Starfið er gríðarlega fjölbreytt og menntunin nýtist á marga lund. Það er þó mikið til innanstéttar leyndarmál. Hins vegar virðist það vera mjög fast í mönnum að það sé konum eðlislægt að sinna þessu starfi. Þórður Kristinsson mannfræðingur rannsakaði fyrir nokkrum árum reynslu karlmanna af hjúkrunarstörfum og heitir rannsóknarskýrsla hans „Kynlegir kvistir“. Þar segir einn viðmælandi, karlkyns hjúkrunarfræðingur, að hjúkrun sé „brennimerkt sem kvennastétt“. Það þurfi því talsverðan styrk og þroska til þess að brjótast í gegnum hinn hefðbundna starfsvalsramma. Þórður dregur þá ályktun að hin samfélagslega yfirburðarstaða karla, sem hefur verið ráðandi til skamms tíma, hafi hamlað karlmönnum ekki síður en konum. „Þegar karlar hunsa hina ráðandi karlmennsku með því að fara í kvennastarf eins og hjúkrun, er karlmennska þeirra oft dregin í efa. Þeir eru því skilgreindir út frá þeim gerðum karlmennsku sem þykja minna virði,“ segir í skýrslunni. Marilyn Jaffe-Ruiz, bandarískur hjúkrunarkennari, sagði í Tímariti hjúkrunarfræðinga fyrir ári að hún teldi hjúkrun hafa lítið aðdráttarafl fyrir unglingspilt sem á hugsanlega erfitt fyrir með sjálfsmynd sína. Marilyn taldi að leita ætti til eldri karlmanna þegar reynt er að fá fleiri umsækjendur í hjúkrunarnám. Í bandaríska tímaritinu „Nursing2003“ var talað við sex karlhjúkrunarfræðinga í áhrifastöðum og tóku þeir í sama streng. Einn þeirra benti einnig á að konur hafa sjálfar búið til varnargarða, til dæmis með því að banna karlmönnum að hefja nám. Hann sagði enn fremur að það hafi alltaf verið til karlar sem hafi viljað fara í hjúkrun en hindranirnar hafi verið nánast óyfirstíganlegar.

Í hvaða störf fara karlarnir?

Það er almenn skoðun meðal félagsmanna og í samfélaginu að karlkyns hjúkrunarfræðingar vinni þar sem mikið er um tækni og hraðinn og spennan er sem mest. Slík störf er til dæmis að finna á bráðamóttöku, gjörgæsludeild og svæfingadeild. Ekki er að sjá nein áberandi merki í félagatalinu um að þetta sé rétt. Til eru karlar sem vinna á gjörgæslu og við svæfingar en hlutfallslega eru þeir líklega ekki fleiri en konurnar. Hins vegar vinna tiltölulega margir karlar við geðhjúkrun.

Oft er talað um að karlar séu fljótir að koma sér í stjórnunarstöður en þeir eru í raun ekki áberandi margir. Einn er hjúkrunarforstjóri og nokkrir eru deildarstjórar. Einnig hefur verið sagt að karlarnir hverfi í önnur störf. Veltan hefur þó alltaf verið mikil í hjúkrun. Margar konur fara árlega í önnur störf eða hverfa af vinnumarkaðnum tímabundið og ekkert sem bendir til þess að hlutfall karla sem fara úr hjúkrun sé hærra. Vitað er vissulega um nokkra karla sem vinna við sölu lyfja eða lækningatækja en konurnar eru talsvert fleiri. Líklega eru hlutföll þeirra sem vinna í hinum ýmsum sérgreinum eða störfum nokkuð svipuð í báðum kynjum en smæð karlahópsins gerir auðvitað að starfsval nokkra einstaklinga getur haft mikil tölfræðileg áhrif.

Hvað segir félagið?

Tímarit hjúkrunarfræðinga spurði Elsu B. Friðfinnsdóttur, formann Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, hvað henni fyndist um karlmenn í hjúkrun. Ættu að vera fleiri eða færri karlmenn í hjúkrun eða er þetta bara gott eins og það er? „Að mínu mati gildir það sama um hjúkrun og aðrar fag- og starfsgreinar. Heppilegast væri að hlutfall kynjanna væri sem jafnast í stéttinni,“ segir Elsa. Hún vekur þó athygli á hversu miklu lægra hlutfall karlmanna sé í hjúkrun hér á landi í samanburði við mörg önnur lönd. Skýringin á því sé líklega ekki einföld. „Kannski hefur smæð samfélagsins eitthvað með þetta að gera. Karlmenn, sem byrjað hafa í hjúkrunarnámi, hafa lýst óheppilegum viðbrögðum þeirra sem í kringum þá eru. Félagið þarf áfram að vinna að ímyndarmálum hjúkrunarfræðinga inn á við. Hjúkrunarfræðingar sjálfir tala gjarnan um stéttina í kvenkyni. Út á við þurfum við að skipta okkur af því hvernig talað er um hjúkrunarfræðinga í fjölmiðlum. Þar er oftar en ekki talað um hjúkrunarkonur eða jafnvel „hjúkkur“ og þannig er kvenímyndinni haldið á lofti.“ Elsa segir það skiljanlegt að ungir karlar séu hikandi að ganga inn í svo mikið kvennaríki en jafn nauðsynlegt að þeir geri það. „Á sama hátt og lögð er áhersla á mikilvægi þess að kvenlæg gildi nái jafnræði við hin karllægu í fjármálaheiminum og á fleiri sviðum, er jafn mikilvægt að karllæg gildi fái meira vægi í hjúkrun. Samstarf kynjanna og viðhorf beggja kynja til mála er alltaf farsælast.“

En myndi eitthvað breytast ef karlmennirnir í félaginu væru fleiri? „Ég er ekki í vafa um að umræða og störf félagsins myndu taka breytingum ef karlmenn væru fleiri í hópi þeirra sem virkastir eru í störfum fyrir félagið. Ég held að sá munur, sem greindur er á milli kynjanna varðandi stjórnunaraðferðir, meðferð fjármuna, áræði í ákvarðanatöku og fleira, myndi einnig koma fram í störfum félagsins ef þar réðu fleiri karlmenn ríkjum. Það sama má segja um fagið, orðræðan yrði örugglega önnur.“ Elsa gerir ráð fyrir að þróun fagsins gæti orðið önnur ef fleiri karlar væru í félaginu. „Ég leyfi mér að álykta að rannsóknasvið karlmanna í hjúkrun séu oft önnur en kvennanna. Þá myndi bein þjónusta við skjólstæðinga augljóslega einnig breytast mikið,“ segir Elsa.
En hvað með kjaramálin? „Ég var lengi þeirrar skoðunar að fámenni karla í hjúkrun skapaði vanda í kjarabaráttunni, sérstaklega með tilliti til samanburðar á kjörum við hefðbundnar karlastéttir með jafn langt nám að baki. En eftir að hafa leitt samninga félagsins um kaup og kjör undanfarin ár hef ég komist að þeirri niðurstöðu að affarasælla sé fyrir hjúkrunarfræðinga að leggja kynjamálin til hliðar í kjarabaráttunni og leggja áherslu á menntun og ábyrgð hjúkrunarfræðinga.“ Elsa segir hjúkrunarfræðinga vera aðra meginstoðina í heilbrigðiskerfi þjóðarinnar og margt annað sé sértækt fyrir hjúkrunarfræðinga. „Ég er sem sagt á því að hjúkrunarfræðingar eigi eins og aðrir að komast áfram og ná árangri í kjarabaráttu á eigin verðleikum fyrst og fremst en ekki með skírskotun til annarra,“ segir Elsa.

Að lokum fer Elsa yfir hvað félagið hefur gert til þess að reyna að fjölga karlmönnum í stéttinni. Hún segir að fyrir allmörgum árum hafi verið reynt að stofna sérstaka deild karla í hjúkrun í félaginu. Tilgangurinn var að styrkja hópinn og ná betur til þeirra ungu manna sem væru að velja sér brautir í háskólanámi. Lítið varð úr þeirri deild eins og kemur fram í viðtali við Jóhann Marinósson. „Þau ímyndarverkefni, sem félagið hefur staðið fyrir undanfarin ár, bæði verkefnið „Hvað veistu um hjúkrun“ og það ímyndarverkefni sem verið hefur í gangi frá því 2007 undir merkinu „Þegar mest á reynir“, hafa meðal annars átt að vekja ungt fólk, ekki síður unga karlmenn, til umhugsunar um fjölbreytileikann í störfum hjúkrunarfræðinga og hversu margar dyr hérlendis og erlendis nám í hjúkrunarfræði opnar. Ég hef í minni formannstíð reynt að auka vægi ungra hjúkrunarfræðinga og karlmanna í hjúkrun í stjórn félagsins og í nefndum á vegum þess. Það tel ég mikilvægt til að fá fleiri sjónarmið inn í umræðuna og til að styrkja fag- og stéttarvitund ungra hjúkrunarfræðinga. Ég tel einnig mikilvægt að sama breidd sjáist á skrifstofu félagsins en þar starfa nú einstaklingar á aldursbilinu 30 til 64 ára. Tveir þeirra eru karlmenn en ég legg nú reyndar áherslu á að þeir voru ráðnir eins og aðrir á skrifstofu félagsins vegna hæfni og reynslu en ekki vegna kyns,“ segir Elsa.

Hjúkrun hentar ekki síður körlum

Þeir karlar sem hafa farið í hjúkrun virðast ekki hugsa mikið um að þeir séu öðruvísi. Þeir hafa sjaldan tekið meðvitaða ákvörðun um að brjótast í gegnum starfsvalsrammann eins og áður hefur verið nefnt. Þó finna þeir fyrir því á ýmsan hátt að þeir séu í minnihluta, ekki síst á námstímanum. Kvenkyns hjúkrunarfræðingar virðast talsvert meira uppteknar af því að karlar séu í stéttinni. En hjúkrun er starf sem hentar körlum ekki síður en konum. Yfirleitt er betra fyrir allar starfsstéttir að kynhlutfallið sé sem jafnast á sama hátt og að fjölbreytni á öllum sviðum sé eftirsóknarverð.
Það eru sögulegar ástæður fyrir því að konur hafa lagt undir sig hjúkrun en það mun líklega smám saman breytast þó að hægt gangi.


Greinin birtist fyrst í Tímariti hjúkrunarfræðinga 3. tbl. 2010.