Konur í dreifbýli og kynheilbrigði kvenna

Fundur kvennanefndar SÞ 2012 Árlegur fundur kvennanefndar SÞ hófst í New York 27. febrúar og stóð til 9. mars. Að þessu sinni var aðalumræðuefnið valdefling kvenna í dreifbýli og útrýming hungurs og fátæktar. Önnur umræðuefni voru fjármögnun jafnréttisbaráttunnar og hvernig hægt væri að auka þátttöku drengja og karla í jafnréttisbaráttu.Kvennanefnd SÞ var stofnuð 1946 til að standa vörð um og ýta undir aukin réttindi kvenna í heiminum og enn er hún á vaktinni.
Fundirnir eru skipulagðir þannig að byrjað er á almennri umræðu þar sem ríkin greina frá stöðu mála innan sinna landamæra en síðan eru sérstakar panelumræður þar sem sérfræðingar eru kallaðir til. Alla daga eru svo hliðarviðburðir frá morgni til kvölds sem ýmist eru skipulagðir af ríkjum, stofnunum eða félagasamtökum. Norræna ráðherranefndin hefur skipulagt tvo hliðarviðburði undanfarin ár. Að þessu sinni voru þeir annars vegar fundur með þátttöku norrænu jafnréttisráðherranna (aðeins tveir þeirra gátu mætt) og hins vegar með sérfræðingum. Ráðherrafundurinn fjallaði um þær aðgerðir sem gripið hefur verið til á Norðurlöndunum undanfarin ár til að auka jafnrétti kynjanna en sérfræðingafundurinn fjallaði um stöðu kvenna í dreifbýli. Undirrituð tók þátt í ráðherrafundinum fyrir hönd Íslands en Aðalsteinn Þorsteinsson framkvæmdastjóri Byggðastofnunar flutti erindi um kynin á landsbyggðinni.  Þess má geta að Michelle Bachelet framkvæmdastýra UN Women tók þátt í ráðherrafundinum. Norrænu fundirnir voru vel sóttir og umræður fjörugar. Eftir ráðherrafundinn kom ungur maður til mín og sagði: „Hvernig má þetta vera. Þið eruð númer eitt í heiminum hvað varðar kynjajafnrétti en samt er svona mikið eftir.“ Það skal tekið fram að ég sat fundinn aðeins fyrri vikuna og missti því af umræðum um þátttöku karla. 

Menntun og heilsugæsla eru lykilatriði

Það er alltaf jafn fróðlegt og vekjandi að hlusta á ræður eða erindi fólks frá fátækum ríkjum ekki síst Afríku og Asíu. Vandamál okkar eru smávægileg miðað við það sem mörg þeirra glíma við, svo sem  barna- og mæðradauða, vatnsskort, hungur og fátækt, ólæsi og gríðarlegt kynbundið ofbeldi, að ekki sé minnst á vopnuð átök og skort á lýðræði og mannréttindum. Það kom t.d. fram að ofbeldi gegn konum er með því mesta sem mælist í sumum Kyrrahafseyjaríkjanna. Ekki komu fram skýringar á því en mér dettur helst í hug að þetta séu ríki í örum breytingum og kyngervi á fleygiferð sem oft skapar óöryggi og því miður iðulega ofbeldi. Mér fannst skemmtilegt hve fulltrúi Zwasilands var virkur á fundunum en karlinn sá er ráðherra í þessu sérkennilega ríki. Hann minntist margsinnis á það að á bak við hvern karl er móðir eða að í lifi hvers karls væri kona og því eiga menn að vera góðir við konur. Fróðlegt sjónarhorn! Í heimalandi hans ríkir konungur sem á ógrynni eiginkvenna og þykir hirðin með afbrigðum dýr í rekstri. Sá ágæti konungur heiðraði kvennaráðstefnuna í Peking með nærveru sinni árið 1995 og klæddist þá tveimur dúkum og einni fjöður. Ég á mynd af honum í mínum fórum. 

Vel var fylgst með öllu sem snerti ástand ríkjanna í N-Afríku þar sem allt hefur logað í átökum. Reyndar var áberandi hve mörg þeirra vantaði á fundinn en vikið var að stöðu þeirra með margvíslegum hætti. T.d. lögðu Frakkar áherslu á nauðsyn þess að hækka giftingaraldur og koma í veg fyrir þvingaðar giftingar sem og aukna menntun og heilsugæslu sem mjög hefur skort á í þessum heimshluta. Í rómönsku Ameríku er land eins og Níkaragva að rísa upp eftir áratuga innanlandsátök. Þar hefur verið mikið átak í gangi til að draga úr ólæsi kvenna á landsbyggðinni og hefur það gengið vel. Einnig er unnið að fjölgum samvinnufélaga (Coop) í eigu kvenna. 

Land í einkaeign eða sameign? 

Þegar röðin kemur að ríkjum eins og Pakistan og Bangladesh verða allar tölur svo háar að erfitt er að skilja þær fyrir konu sem tilheyrir 320.000 manna þjóð. Í Pakistan búa 180 milljónir manna, þar af 60% í sveitum landsins. Þar er verkefni í gangi við að dreifa landi í eigu ríkisins til kvenna og tryggja þannig að þær geti séð sér og sínum farborða. Í samtali sem við Gréta Gunnarsdóttir sendiherra áttum við konur frá S-Afríku gagnrýndi önnur þeirra þessa áherslu á að konur eignuðust land. Hún sagði að þar sem ekki væri  hefð fyrir eign kvenna á landi, erfðaréttur þeirra væri enginn og land hefði jafnvel tilheyrt ættbálkum, myndu karlarnir strax taka landið af konum og selja það. Þar með væru stórfyrirtæki komin í spilið með brask á landi og stórframleiðslu. Þessi þróun vær þegar hafin. Best væri að búa til samvinnufélög kvenna í kringum ákveðnar jarðir. Í máli sérfræðinga, m.a. frá Kenýa kom fram að þar í landi væri unnið að því að konur gerðust félagar í bændasamtökum, kæmu inn í landbúnaðarrannsóknir og beindu sjónum að ræktun á næringarríkari fæðu en framleidd er á mörgum svæðum. 

Sem dæmi um vandamál sem konur eiga við að stríða má nefna að í Íran hefur verið komið upp sérstökum miðstöðvum þar sem bændakonur geta gist og lært á námskeiðum í allt að 20 daga en hefðin er sú að þær mega ekki ferðast án karla og alls ekki gista einar á hótelum. En þær mega vera saman undir eftirliti virtra kvenna. Þeir norrænu sérfræðingar sem létu í sér heyra lögðu áherslu á mikilvægi menntunar og þýðingu fjarkennslu sem þyrfti að byggja upp en jafnframt mikilvægi kynheilbrigðis kvenna eða með öðrum orðum rétt kvenna til að ráða yfir eigin líkama og eigin barneignum (e. reproductive health og reproductive rights) en þau mál eru afar viðkvæm víða um heim, ekki síst innan veggja Vatíkansins í Róm sem telur sig óskeikult í þeim málum. 

Að rækta garðinn sinn

Athyglisvert verkefni er að finna í Jórdaníu sem ég held að við gætum lært af en það er áhersla á heimaræktun (Home Garden Project). Fólk er hvatt til að rækta sem mest af grænmeti, ávöxtum og kryddjurtum heima við (og hver er heima?) en það hefur m.a. í för með sér mun betri nýtingu dýrmæts vatns, auk þess að draga úr flutningum og vinna gegn mengun og gróðurhúsalofttegundum. Þá fannst mér merkilegt að heyra um nýung í Úrúgvæ en það eru hreyfanleg kvennaathvörf á landsbyggðinni. Ekki kom fram hvernig þau starfa, hvort um er að ræða rútu eða hvort starfsmenn flytja sig á milli bæja og húsa  en fróðlegt væri að kynna sér það. 

Fram kom í umræðum að ákveðið hefur verið að 11. október ár hvert verði helgaður stúlkubarninu. Í Pekingsáttmálanum og aðgerðaáætluninni frá 1995 er að finna sérstakan kafla um stúlkubarnið og var hann ræddur sérstaklega á fundi kvennanefndarinnar í fyrra. Stúlkur eiga víða mjög í vök að verjast, allt frá því að kvenkynsfóstrum er eytt í stórum stíl í móðurkviði eða stúlkubörn borin út, til menntunarskorts, barnagiftinga, ofbeldis og þrældóms. Við þurfum að ræða hvernig við högum þessum degi. 

Kynjuð hagstjórn í stjórnarskrám

Ýmislegt fleira mætti nefna af því sem ég heyrði á þeim fundum sem ég sótti. Á fundi um fjármögnun kynjajafnréttis var afar áhugavert að hlusta á fulltrúa Austurríkis en hann lýsti vinnunni við kynjaða hagstjórn og kynjaða fjárlagagerð í landi sínu. Austurríki og Ekvador hafa sett ákvæði um kynjaða hagstjórn inn í stjórnarskrár sínar og unnið er í samræmi við það. Fram kom að lykilatriðið er að sníða sér stakk eftir vexti, setja upp raunhæf verkefni, forgangsraða og leggja mat á árangurinn. Austurríkismaðurinn (Gerhard Stegger) verður á ferð hér á landi í júní og þá er um að gera að fá góðan fund með honum. Í þessari umræðu kom fram hve kyngreining allra talna er gríðarlega mikilvæg og hefur OECD m.a. tekið mið af því. 

Að lokum vil ég nefna fína ræðu Íslands í almennu umræðunum sem flutt var af Grétu Gunnarsdóttur sendiherra. Þar var komið víða við, greint frá því sem við höfum verið að gera en jafnframt minnt á þátttöku kvenna í „arabíska vorinu“ og nauðsyn þess að styðja baráttu þeirra fyrir mannréttindum. Einnig var lögð áhersla á að tryggja kynheilbrigði kvenna um heim allan. Ræðuna má finna á vef utanríkisráðuneytisins. 

Fundurinn næsta ár verður helgaður kynbundnu ofbeldi og þar með verða mjög mörg viðkvæm mál til umræðu og væntanlega heitt í kolunum þegar kemur að samþykkt fundarins. Eftir þrjú ár verða 20 ár liðin frá kvennaráðstefnunni í Kína en andrúmsloftið innan veggja Sameinuðu þjóðanna er þannig að ríki sem raunverulega styðja jafnrétti kynjanna þora ekki fyrir sitt litla líf að taka upp textana frá Peking af ótta við bakslag. Þannig er nú staðan í henni veröld árið 2012. 

Kristín Ástgeirsdóttir.