Konur og sveitarstjórnir í 100 ár

Í haust verða liðin 100 ár frá því að Danakonungur undirritaði lög sem veittu öllum konum á Íslandi kosningarétt og kjörgengi til sveitarstjórna. Það gerðist samtímis því að konur í Danmörku fengu þennan rétt og er þess nú minnst með margvíslegum hætti í Danaveldi.Við höfum hins vegar ekki haldið þessum viðburði hátt á lofti því ólíkt því sem gerðist í Danmörku hafði hluti íslenskra kvenna þegar öðlast kosningarétt og kjörgengi til sveitarstjórna, sýslu- og sóknarnefnda og þá um leið prestskosninga.

Það var árið 1882 sem Alþingi samþykkti að veita konum „sem áttu með sig sjálfar“, þ.e. áttu eignir og greiddu skatta, kosningarétt en ekki kjörgengi. Það þótti rétt að konur sem greiddu skatta hefðu eitthvað um það að segja hverjir ráðstöfuðu skattpeningunum, þó alls ekki þær sjálfar. Áður hafði Vilhelmína Lever borgarinna og veitingakona á Akureyri kosið í kosningum árið 1863 á þeirri forsendu að orðalagið í lögunum gerði ekki greinarmun og konum og körlum. Því var snarlega kippt í liðinn til að koma í veg fyrir að konur færu að kjósa.

Samþykkt Alþingis 1882 vakti verulega athygli erlendis enda fátítt að konur nytu kosningaréttar í heiminum. Afar fáar konur nýttu sér kosningaréttinn nema við prestskosningar í Reykjavík árið 1889 (?) þegar jafnvel Gunna grallari var dregin út úr kofa sínum til að kjósa sr. Sigurð í Vigur að sögn hneykslaðra blaða. Sr. Sigurður sigraði en hætti við að flytja suður. Árið 1902 var svo stigið næsta skref en þá fékk þessi hópur kvenna kjörgengi. Þegar hér var komið sögu var kvenréttindakonan Bríet Bjarnhéðinsdóttir orðin ekkja og þar sem hún var húseigandi fékk hún bæði kosningarétt og kjörgengi. Hún bauð sig ekki fram að sinni en hvatti konur í kringum sig til að kjósa með þeim árangri að stærri hópur kvenna kaus en áður hafði sést.
Árið 1907 dró til verulegra tíðinda. Á þessum árum giltu sérstök kosningalög fyrir hvern kaupstað. Þingmenn Reykjavíkur og Hafnarfjarðar hófu baráttu fyrir auknum kosningarétti kvenna vegna mikils þrýstings frá kvennahreyfingunni sem var afar öflug á þessum tíma og beitti sér fyrir fundum, skrifum, undirskriftasöfnunum og annars konar þrýstingi á þingmenn. Síðla árs undirritaði konungur lög sem gengu í gildi við upphaf árs 1908 en þau fólu í sér að giftar konur kjósenda í Reykjavík og Hafnarfirði fengu kosningarétt og kjörgengi til sveitastjórna. Þar með stækkaði hópur kvenkjósenda verulega. Eins og frægt er brugðust konur í Reykjavík snarlega við og buðu fram kvennalista sem náði þeim glæsilega árangri að fjórar konur voru kjörnar í bæjarstjórn.

Rökin fyrir sérstökum kvennalista voru af þrennum toga. Í fyrsta lagi þau að til þess að konur öðluðust mannréttindi á við karla, þar með talinn kosningarétt og kjörgengi til Alþingis, yrðu þær að sýna og sanna að þær vildu réttindin og myndu nota þau. Í öðru lagi sögðu kvennaframboðskonur að þeim stæðu ekki til boða örugg sæti á listum karla sem reyndar voru alls 18 í kosningunum 1908. Á þessum tíma gátu menn boðið sig fram á mörgum listum í senn. Í þriðja lagi voru rökin þau að konur hefðu aðrar málefnaáherslur en karlar, þær sæju vanda þar sem karlar sæju engan, eins og BB orðaði það. Hún nefndi sérstaklega málefni fátækra, barna, ekkna og svo auðvitað réttindamál kvenna. Stjórnmálin þyrftu á kröftum kvenna að halda. Auk þess væru konur á hærra siðferðisstigi en karlar og ekki veitti af að tukta þá aðeins til í stjórnmálunum.
Það var margt í kosningalögum upp úr aldamótunum 1900 sem kemur okkur spánskt fyrir sjónir nú til dags. Samkvæmt lögunum sem giltu um Reykjavík átti að varpa hlutkesti um sæti þriðjungs bæjarstjórnarfulltrúa á tveggja ára fresti og ganga til kosninga um sæti þeirra en kjörtímabilið var alls sex ár. Konurnar sem sátu í bæjarstjórn Reykjavíkur voru mjög óheppnar og töpuðu tvær þeirra hlutkesti árið 1910. Aðeins önnur þeirra náði kjöri aftur og fækkaði konum því um eina þrátt fyrir að allar konur í Reykjavík, þar með taldar vinnukonur sem greiddu einhvern skatt hefðu nú kosningarétt. Þetta sama ár buðu konur fram sérstaka kvennalista bæði á Akureyri og á Seyðisfirði. Á Seyðisfirði náði Sólveig Jónsdóttir húsfreyja kjöri en það var ekki fyrr en árið eftir sem Kristín Eggertsdóttir sjúkrahússtýra varð bæjarfulltrúi á Akureyri.

Sigríður Matthíasdóttir sagnfræðingur hefur bent á að árin 1907-1911 hafi kvenréttindahreyfingin á Íslandi staðið á hátindi virkni og áhrifa enda komst hvert baráttumálið á fætur öðru í höfn. En andstaðan fór líka stöðugt vaxandi. Sumum fannst meira en nóg komið, konur væru komnar langt út fyrir sitt „eðlilega verksvið“. Maður að nafni Stefán Daníelsson skrifaði skáldsöguna „Kvenfrelsiskonur“ sem kom út árið1912 til að andmæla réttindum kvenna og sýna fram á að þau leiddu konur í gönur. Þar segir frá þremur valkyrjum sem telja sig færar í flestan sjó. Tvær bjóða sig fram til sveitastjórnar og sýslunefndar en sú þriðja gerist laganna vörður. Þær lenda allar í miklum hremmingum og komast fljótt að því að konum fer best að sitja heima við rokk, prjóna eða standa við eldhúsbekkinn í stað þess að vera að flandra milli bæja til að sitja fundi eða fást við róstusama róna í spillingarbælinu Reykjavík. Þær hverfa allar bljúgar og reynslunni ríkari í faðm hins sterka kyns.

Kvennahreyfingin í Reykjavík átti fulltrúa í bæjarstjórn til ársins 1922 er þeim tveimur sem þar sátu var „sparkað“ að sögn Ingu Láru Lárusdóttur ritstjóra sem var önnur þeirra. Næstu áratugina þar á eftir sátu ótrúlega fáar konur í sveitastjórnum hér á landi Fram undir 1970 þegar Rauðsokkahreyfingin varð til náði aðeins ein og ein kona kjöri. Það virtist vera ráðandi skoðun innan stjórnmálaflokkanna, sem voru að taka á sig þá mynd sem við þekkjum nú, að það dugaði alveg að hafa eina konu í sveitarstjórn, hún væri fulltrúi allra kvenna, í það minnsta í hennar flokki. Voru ekki allar konur eins hvort eð var, fæddar húsmæður og mæður? Dugði ekki að ein kona væri fulltrúi húsmæðrastéttarinnar eins og hún var kölluð. Þessum rökum var beitt á sama tíma og allt að þriðjungur kvenna, giftra sem ógiftra vann utan heimilis. Allt öðru máli gilti um karlmenn. Bændur, sjómenn, verkamenn, kaupmenn, iðnaðarmenn og embættismenn þurftu allir að eiga sína fulltrúa og helst marga.

Rannsóknir Auðar Styrkársdóttur stjórnmálafræðings hafa leitt í ljós að verulegur munur var á áherslum kvenna og karla í sveitastjórnum. Konur lögðu megináherslu á velferðarmál, ekki síst kjör barna og kvenna. Það tengdist hugmyndum um að samfélagslegt hlutverk kvenna væri að flytja reynslu húsmóðurinnar út af heimilunum inn á þjóðarheimilið. Konur áttu að verða eins konar þjóðfélagsmæður eins og sænskar fræðikonur hafa orðað það. Þar með ruddu konur braut fyrir velferðarkerfið og hófu ýmis konar starfsemi, t.d. rekstur leikvalla og leikskóla, sem síðar urðu verkefni sveitarfélaganna. Þótt svo háleitar hugmyndir um hlutverk kvenna séu okkur kannski fjarlægar þá er reyndin sú að enn þann dag í dag eru það konur sem einkum beita sér fyrir málefnum eins og barnavernd, skólamálum og jafnrétti kynjanna þótt verkaskipting milli kynjanna sé sem betur fer að breytast í stjórnmálum. Nýlegar kosningarannsóknir, sem við fáum að heyra meira um hér í dag, sýna að málefnaáherslur kvenna og karla eru enn nokkuð ólíkar.

Eins og ég nefndi hér að ofan voru konur mjög fáar meðal kjörinna fulltrúa fram yfir 1970. Það var reyndar ekki fyrr en með kosningunum 1982 þegar kvennaframboð hófu göngu sína að nýju sem konum tók að fjölga verulega. Fyrir kosningarnar 1982 var hlutur kvenna 6,2%, eftir þær fór hann upp í 12%. Á sama tíma var hlutur kvenna á hinum Norðurlöndunum kominn yfir 20%. Síðan óx hann jafnt og þétt en þó hægar og hægar. Í kosningunum 2006 komst hann upp í 36%. Danski stjórnmálafræðingurinn Drude Dahlerup hefur haldið því fram að Íslendingar og Danir hafi stöðvast við þröskuld sem er einhvers staðar í kringum 35%. Í síðustu alþingiskosningum klofuðu konur yfir hann og náðu 43% hlut. Mun það sama gerast í sveitastjórnarkosningunum á næsta ári eða þarf að grípa til aðgerða?

Rannsóknir víða um lönd hafa leitt í ljós að þar sem bæði kyn koma að málum með mismunandi reynslu og áherslur þar verður umræðan frjórri, rekstur betri og jafnræði meira, hvort sem um er að ræða fyrirtæki, stofnanir eða í stjórnmállum. Það er því öllum í hag að hlutur kvenna og karla sem kjörinna fulltrúa sé sem jafnastur.