Kvennasáttmáli Sameinuðu þjóðanna 30 ára

Árið 1979 lauk gerð CEDAW-samningsins - Samningsins um afnám allrar mismununar gegn konum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Hann var þá lagður fram til undirritunar og síðar staðfestingar viðkomandi þjóðþinga. Íslendingar undirrituðu sáttmálann á annarri kvennaráðstefnu SÞ í Kaupmannahöfn sumarið 1980 en hann var ekki staðfestur af Alþingi fyrr en 1985, reyndar eftir mikinn þrýsting frá kvennasamtökum. Þau vildu ekki senda íslenska sendinefnd á þriðju kvennaráðstefnu SÞ í Nairobi í Kenýa, undir lok kvennaáratugar SÞ, án þess að sáttmálinn hefði öðlast gildi á Íslandi. Þá ríktu þær óvenjulegu aðstæður á Íslandi að þar var kvenforseti, kvennalisti á Alþingi og öflug kvennahreyfingu sem komist hafði í heimspressuna eftir frækilegt kvennafrí á degi SÞ 24. okt. 1975. Slíkt ríki gat ekki verið þekkt fyrir að staðfesta ekki kvennasáttmálann að mati kvennasamtaka en stjórnvöld drógu lappirnar. Hann var þó staðfestur að lokum en síðan var hann settur ofan í skúffu þar sem þetta mikilvæga mannréttindaskjal hefur lengstum safnaði ryki.

Kvennasáttmálinn átti sér langan aðdraganda. Á síðustu áratugum 19. aldar var kvenréttindahreyfingin sprelllifandi og hver alþjóðasamtökin á fætur öðrum litu dagsins ljós. Konur kröfðust mannréttinda til að geta beitt sér fyrir betra samfélagi og friðsamlegri veröld. Það voru ekki bara kosningaréttur og kjörgengi, menntun og atvinna, heilsa og ofbeldi gegn konum sem voru til umræðu heldur einnig friður og afvopnun, systralag og samstaða þvert á landamæri.

Niður með vopnin

Árið 1889 gaf austuríska skáldkonan Bertha von Süttner út skáldsöguna Niður með vopnin sem hafði gífurleg áhrif á umræður um stríð og frið. Þess má geta að hún kom út hér á landi 1917. Süttner hafði horft á bráðunga frændur sína og vini senda í stríð austurísk-ungverska keisaradæmisins þar sem þeir féllu og skildu eftir sig sorgir og sár sem aldrei gréru. Hvers vegna? Hvaða málstaður var svo mikilvægur að hann krefðist þess að ungum karlmönnum væri fórnað? Süttner gerðist virk í sívaxandi friðarhreyfingum Evrópu þar sem fjöldi kvenna lét til sín taka og fékk hún friðarverðlaun Nobels árið 1905.
Hafi styrjaldir 19. aldar verið andstyggilegar keyrði um þverbak á 20. öld sem er blóðugasta öld mannkynssögunnar. Süttner lést áður en hildarleikurinn mikli – fyrri heimsstyrjöldin - hófst en þar var ungum mönnum slátrað á vígvöllunum sem aldrei fyrr enda vopnin æ öflugri. Í þessari styrjöld urðu almennir borgar fyrir meiri skakkaföllum en áður hafði þekkst, einkum vegna loftárása.
Hluti kvennahreyfingarinnar var afar ósáttur við styrjöldina og þar byrjar sagan um CEDAW-sáttmálann. Árið 1915 var boðað til friðarráðstefnu kvenna í Haag í Hollandi og þangað streymdu konur víða að þrátt fyrir ásakanir um landráð og drottinssvik. Bríeti Bjarnhéðinsdóttur var boðið að taka þátt en hún sá sér ekki fært að mæta því miður.

Friðarráðstefna kvenna í Haag samþykkti ótrúlega merkilegar tillögur sem síðan voru kynntar fjölda ríkisstjórna og seinna lagðar fram í París árið 1919 þar sem uppgjör fór fram eftir lok styrjaldarinnar miklu 1914-1918. Þar ríktu neikvæð karllæg gildi svo sannarlega. Kúgun, hefndir, lítillækkun, yfirráð, hótanir og að stilla fyrrum „óvini“ upp við vegg. Þetta urðu sannkallaðir hefndarsamningar sem kröfðu Þjóðverja um gífurlegar skaðabætur og leystu austurísk-ungverska keisaradæmið upp í fjölda smáríkja. Samningarnir fólu í sér illgresisfræ sem breiddust út og urðu kveikjan að síðari heimsstyrjöldinni.

Friðarsamningarnir sem kenndir voru við konungssetrið Versali kváðu meðal annars á um stofnun alþjóðlegrar stofnunar – Þjóðabandalagsins – sem átti að hafa það hlutverk að tryggja frið í heiminum. Bandalagið fékk aðsetur í Genf í Sviss og þar risu hallirnar hver á fætur annarri yfir stofnanir sem voru dauðadæmdar frá upphafi vegna þess hvernig til þeirra var stofnað.

Kvennasamtök voru staðráðin í að tryggja réttindi og áhrif kvenna og því komu mörg þeirra upp bækistöðvum í Genf og gerðu hvað þær gátu til að þrýsta á um að konur fengju stöður hjá bandalaginu, þær yrðu skipaðar í nefndir, málefni kvenna rædd og að unnin yrði yfirlýsing um jafnrétti kynjanna. Eitt mikilvægasta málið snérist um ríkisborgararétt kvenna en í flestum ríkjum misstu konur ríkisborgararétt sinn við að giftast manni af öðru þjóðerni. Þar sem mikið var um þjóðarbrot og blöndun í nýjum ríkjum var þetta meiriháttar mál fyrir konur, t.d. stríðsekkjur sem gátu átt á hættu að vera vísað úr landi. Ingibjörg H. Bjarnason tók þetta mál upp hér á landi og fékk því framgengt að íslenskar konur héldu ríkisborgararétti sínum þrátt fyrir að giftast útlendingi. Meðal þess sem gert var á vegum Þjóðabandalagsins var könnun á réttindum kvenna í fjölda ríkja en ekki tókst að vinna úr henni áður en allt fór aftur í bál og brand.
 
Það voru nokkrar konur sem voru sendiherrar eða fulltrúar í sendinefndum sem ýttu á eftir málefnum kvenna innan Þjóðabandalagsins og fengu því framgengt að stofnuð var sérstök nefnd um málefni kvenna. Vinna hófst við gerð jafnréttissáttmála en áður en hann leit dagsins ljós braust út ný heimsstyrjöld, enn mannskæðari en sú fyrri. Að þessu sinni létu friðarhreyfingar kvenna í Vesturheimi lítið í sér heyra því styrjöldin snérist um það að stöðva yfirgang og árásarstefnu ríkja sem tróðu á mannréttindum, þar á meðal réttindum kvenna og byggðu á kenningum um yfirburði hvíta kynstofnsins sem bæri ekkert minna en heimsyfirráð.

Þrautseigja og ýtni í þágu kvenna

Í lok styrjaldarinnar hófust umræður um endurreisn Þjóðabandalagsins undir nýju nafni og með öflugra umboði þannig að nú tækist að koma í veg fyrir fleiri hildarleiki. Allir vita hvernig það hefur gengið. Boðað var til fundar sigurvegaranna og fjölmargra hlutlausra þjóða í San Francisco árið 1945 og þar voru allmargar konur, einkum frá Mið- og S-Ameríku sem fulltrúar sinna þjóða. Margar þeirra áttu rætur í kvennahreyfingunni. Þeim verður seint fullþökkuð þrautseigjan og ýtnin því þær gáfu ekki eftir kröfu um að kyn yrði nefnt sem einn þeirra þátta sem bæri að taka tillit til þegar mannréttindi ættu í hlut. Það fékkst samþykkt þannig að kynjasjónarhorn komst inn í fyrstu yfirlýsingu hinna Sameinuðu þjóða, þótt veikt væri. Það gekk ekki þrautalaust að ná því inn þó að kröfur um mannréttindi hafi verið afar sterkar eftir að heimurinn hafði horft upp á ótrúlegt virðingarleysi við mannslífin í fangabúðum, í útrýmingu Gyðinga, Romafólks, samkynhneigðra, fatlaðra og fleiri hópa.

Sömu konur settu fram kröfu um að sérstök og sjálfstæð kvennanefnd starfaði innan Sameinuðu þjóðanna eins og innan Þjóðabandalagsins. Það fékkst samþykkt og tók Commission on the Status of Women eða kvennanefnd SÞ til starfa árið 1947 undir stjórn danska fulltrúans Bodil Bergtrup sem síðar varð sendiherra á Íslandi en hún var þá formaður danska kvennaráðsins. Nefndin skilgreindi hlutverk sitt þannig að hún ætti annars vegar að koma með tillögur um bætta stöðu kvenna og leggja fram skýrslur um stöðu mála á sviði stjórnmála, efnahagsmála, borgaralegra réttinda og menntunar, hins vegar að vekja athygli á málefnum kvenna sem krefðust tafarlausra úrlausna. Nefndin byrjaði á því að kalla fulltrúa 12 alþjóðlegra kvennahreyfinga á sinn fund til að kortleggja stöðuna og þaðan var lagt upp í langferð.

Árið 1946 hófst vinna við samningu mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem er mikilvægasta mannréttindaskjal heims. Nú reyndi mjög á konur innan Sameinuðu þjóðanna því enn á ný varð að beita öllum tiltækum rökum og ráðum til að sannfæra mannréttindafrömuðina um að það yrði að taka tillit til kyns sem mikilvægs þáttar við að skilgreina og tryggja mannréttindi. Formaður nefndarinnar sem samdi mannréttindasáttmálann var Elenor Roosevelt fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna og vann hún þar mikilvægt og merkilegt starf en það þurfti líka að sannfæra hana um nauðsyn þess að nefna kyn í textanum. Kynblindan er söm við sig.

Árin liðu en þegar kom fram á sjöunda áratuginn tók að draga til tíðinda. Árið 1963 kom bók Betty Friedan The Feminine Mystique út og mikil umræða hófst um stöðu kvenna sem virkjaði nýjan hóp kvenna. Kvennahreyfingin reis upp að nýju margefld. Umræðan hafði sín áhrif á kvennanefnd SÞ sem hóf vinnu við „Yfirlýsingu gegn kynjamisrétti“ sem var samþykkt 1967.
Á næstu árum efldist kvennahreyfingin sífellt meira einkum á Vesturlöndum en hún breiddist líka út til annarra heimsálfa. Það hafði sín áhrif innan SÞ þar sem kröfur um að konur yrðu ráðnar í áhrifastöður urðu æ háværari. Það leiddi til þess að þáverandi framkvæmdastjóri Kurt Waldheim réði Helvi Sipilä frá Finnlandi sem aðstoðarframkvæmda- stjóra. Hún hélt kröfum kvenna á lofti og kom því til leiðar að samþykkt var að boða til sérstakrar kvennaráðstefnu SÞ árið 1975. Jafnframt var ákveðið að það ár yrði tileinkað málefnum kvenna og yrði þar með kvennaár.

Sáttmáli í þágu réttinda kvenna

Fyrsta kvennaráðstefna SÞ var haldin í Mexíkó sumarið 1975 og þrátt fyrir miklar pólitískar deilur milli austurs og vesturs var samþykkt merkileg ályktun sem síðar leiddi til þess að CEDAW sáttmálinn var saminn. Í Mexíkósamþykktinni var einkum rætt um: alþjóðlega samvinnu og frið, stjórnmálaþátttöku kvenna, menntun og starfsþjálfun, atvinnu og efnahagslegt hlutverk, heilsu og næringu, fjölskylduna í nútímasamfélagi, mannfjölgun, húsnæði og aðbúnað fólks og loks önnur félagsleg málefni. Í kjölfar ráðstefnunnar var ákveðið að áratugurinn 1976-1985 yrði helgaður málefnum kvenna og að hafin yrði vinna við að semja sérstakan réttindasáttmála kvenna.

Sáttmálinn var tilbúinn 1979 og er í honum að finna allt það sem var til umfjöllunar í Mexíkó ásamt ýmsu fleiru. Það sem vekur ekki síst athygli við að skoða hann nú 30 árum síðar er viðurkenningin á sértækum aðgerðum konum til handa. Þar eru kröfur um að breyta menningu og hegðun eða það sem við í dag köllum staðalmyndir kynjanna. Einnig áhersla á að koma í veg fyrir verslun með konur og vændi sem hefur fengið mjög aukið vægi á síðustu árum sem og að móðurhlutverkið hindri konur ekki í að mennta sig, stunda atvinnu og taka þátt í stjórnmálum. Þetta síðast talda er enn eitt helsta deilumálið innan SÞ hvað varðar konur þar sem karlveldið í fjölda ríkja getur ekki sætt sig við að konur hafi stjórn á eigin líkama og þar með barneignum. Þetta snertir okkur líka því hvað er það sem heftir konur ef ekki ábyrgðin á heimili og börnum?
Síðar bættust ýmis málefni við í umræðunni um stöðu kvenna, einkum þó ofbeldi gegn konum. Viðbótarbókanir voru gerðar við CEDAW en niðurstaðan varð sú að gera sérstaka samþykkt um baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi.

CEDAW sáttmálinn hefði orðið gagnlaust plagg ef ekki hefði komið til kaflinn um eftirfylgnina sem er reyndar mjög umhugsunarverður fyrir okkur hér á landi sem kvörtum yfir virðingarleysi við jafnréttislögin. Það hefur hvarflað að mér hvort við ættum að taka upp svipaðar aðferðir, kalla stjórnendur fyrir, augliti til auglitis, og krefja þá svara í stað eilífra bréfaskrifta.

Sérstök nefnd var sett á laggir til að fylgja kvennasáttmálanum eftir með 27 sérfræðingum sem hafa það hlutverk að fylgjast með framgangi mála hjá hverri einustu aðildarþjóð SÞ. Fulltrúar ríkja eru kallaðir fyrir með nokkurra ára millibili og þeir spurðir spjörunum úr um framkvæmd einstakra greina sáttmálans.

Ísland verður líka að standa fyrir máli sínu

Síðast liðið sumar var Ísland kallað fyrir og sátum við þrjár fyrir svörum, Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir settur ráðuneytisstjóri og Hildur Jónsdóttir sérfræðingur í félags- og tryggingamálaráðuneytinu, ásamt mér. Klukkustundum saman vorum við yfirheyrðar um lögleiðingu vændis, launamisrétti, stöðu fráskyldra kvenna, meint virðingarleysi við CEDAW sáttmálann og ýmislegt fleira sem nefndarmenn vildu fá skýringar á. Er þó Ísland meðal hinna skástu hér í heimi. Við fengum ýmsar ábendingar en fróðlegt væri að skoða hvað sagt er við ríki eins og Sádí Arabíu, Jemen, Kúveit og ýmis önnur ríki sem setja frelsi kvenna miklar skorður. Það er svo spurningin hversu alvarlega ríki taka athugasemdirnar.

Gagnrýnin er þó umhugsunarvrð. Ég tel að íslenskar konur, íslenskar kvennahreyfingar og íslensk stjórnvöld hafi alls ekki gefið Samningnum um afnám alls misréttis gegn konum nægjanlega athygli. Samningurinn er illa kynntur hér á landi og afar sjaldan er til hans vísað í dómum og löggjöf ef nokkurn tíma. Aðrar þjóðir hafa jafnvel leitt samninginn í lög og fyrir því ættum við að beita okkur til að auka vægi hans og sýna honum tilhlíðilega virðingu. Sama gildir reyndar um fleir sáttmála, t.d. hvað varðar réttindi barna.
Það er hægt að krefja stjórnvöld um aðgerðir á grundvelli samningsins og má t.d. vísa til 5. gr. um; „að aðildarríkin skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til að breyta félagslegum og menningarlegum hegðunarvenjum karla og kvenna með það fyrir augum að takast megi að uppræta fordóma og venjur sem byggjast á hugmyndinni um vanmátt eða ofurmátt annars hvort kynsins eða á viðteknum hlutverkum karla og kvenna.“ Eins og við vitum er náms- og starfsval kynjanna mjög kynbundið hér á landi. Ábyrgð á heimilum og börnum er enn að miklu leyti á herðum kvenna og hér ríkja mjög heftandi hugmyndir um það hvað hvoru kyni um sig leyfist sem m.a. birtast í starfsvali.

Einnig má nefna 7. gr. sem fjallar um þá skyldu stjórnvalda að afnema alla mismunun gegn konum á stjórnmálavettvangi og opinberum vettvangi í landinu. Hvað með Alþingi, sveitastjórnir, opinberar stjórnir, ráð og nefndir? Þar eigum við mikið verk að vinna en hvar eru aðgerðir hins opinbera í samræmi við 30 ára gamlan sáttmálann um afnám alls misréttis gegn konum? Hvar er þrýstingur kvennasamtaka á grundvelli sáttmálans? Ég veit að konur í ýmsum löndum hafa nýtt sáttmálann miklu betur en við og að víða hefur hann komið við sögu í dómum og við lagasetningu.

Alnæmisvandin ógnar framtíð kvenna

Á 30 ára afmæli CEDAW sáttmálans er vert að minna á að þótt hjörtunum svipi saman í Súdan og Grímsnesinu er kjörum kvenna og karla ótrúlga misskipt í þessum heimi. Á 53. fundi kvennanefndar SÞ í byrjun mars á þessu ári var umönnunarvandinn, einkum með tilliti til alnæmisvandans, aðal umræðuefnið. Sú sem hér heldur á penna hefur ekki fyrr áttað sig á því hvílíkt ofboðslegt vandamál er þarna á ferð og hvernig það er að rýra lífskjör og framtíðarmöguleika milljóna kvenna og barna. Á stórum svæðum í Afríku ræður heilbrigðiskerfið ekkert við vandann og sendir sjúklingana aftur heim í þorpið sitt og þar með hverfa þeir úr öllum skýrslum. Vandanum er velt yfir á þorpin. Þar eru nánast bara gamlar konur og börn eftir til að sjá um hina sjúku. Fram kom í einu erindanna að reikna mætti með að umönnun alnæmissjúklinga gæti tekið allt að sex klukkustundir ef sækja þarf vatn langar leiðir. Öll sú ólaunaða vinna kemur hvergi fram í ríkisbókhaldinu. Lífsskilyrði ungra kvenna eru að stórversna vegna þessa vanda. Nú bætist heimskreppan við þannig að verkefnin eru ærin. Því miklvægara er að standa vörð um mannréttindi kvenna. Konur á Íslandi verða að standa sig sem fyrirmyndir og styðja konur og karla um heim allan við að verja réttinn til lífs, frelsis og mannsæmandi kjara. Þar kemur CEDAW sáttmálinn að góðum notum. Við þurfum að koma honum til vegs og virðingar í okkar samfélagi og styðja framkvæmd hans hvar sem við fáum því við komið.

Kristín Ástgeirsdóttir
Jafnréttisstýra