Kynin í kreppunni

Á þeim erfiðu tímum sem þjóðin gengur nú í gegnum er brýnt að hafa kynjasjónarmið í huga við alla stefnumörkun og aðgerðir sem gripið verður til. Kreppan hefur kynjavídd. Reynslan kennir okkur að ráðamönnum hættir til að einblína á lausnir sem einkum gagnast körlum, svo sem vega- og brúargerð, viðgerðir húsa, virkjanir og verksmiðjur. Atvinnuþátttaka kvenna hér á landi er einhver hin mesta í heimi og það verður að hafa í huga þegar ákvarðanir verða teknar varðandi atvinnusköpun og aðgerðir í kreppunni. Konur vinna einkum við hvers konar þjónustu, ekki síst við fræðslu og umönnun sem þarf að efla og virða að verðleikum. Hjól velferðarþjóðfélaga nútímans snúast ekki nema að þjónusta við börn, sjúka og aldraða sé í lagi, þannig að bæði karlar og konur geti stundað vinnu utan heimilis. Það þarf að endumeta þau laun sem greidd eru fyrir fræðslu og umönnun eins og reyndar er kveðið á um í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Það vantar fólk í umönnunarstörfin og þar eru miklir möguleikar til að bæta bráðnauðsynlega þjónustu.

Einnig þarf að huga að því að þeir sem eru að missa vinnuna þessa dagana er vel menntað fólk, konur jafnt sem karlar, með mikla reynslu og þekkingu sem ekki má glatast. Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins, fór þá athyglisverðu leið að biðja háskóla landsins að opna þegar í stað brautir fyrir fólk til að bæta menntun sína. Það er sú aðgerð sem Finnar gripu til á sínum tíma til að mæta þeirri kreppu sem þeir lentu í upp úr 1990 og gafst afar vel. Þeir leiddu saman stjórnvöld, fulltrúa menntakerfisins og aðila vinnumarkaðarins og komu sér saman um tillögur til að rétta þjóðarskútuna af. Lausnin var stóraukin menntun, eða með öðrum orðum áhersla á þekkingarsamfélagið sem tók við af iðnaðarsamfélaginu. Þá leið mætti svo sannarlega taka til fyrirmyndar, að sjálfsögðu með þátttöku beggja kynja.

Að mörgu þarf að hyggja varðandi kynin við þær aðstæður sem nú ríkja. Beina þarf sjónum að því hvernig atvinnumissir, endurráðningar, áhyggjur og fjárhagserfiðleikar snerta hvort kyn um sig og koma í veg fyrir að konum og körlum verði mismunað. Hér á eftir verður bent á nokkur atriði sem vert er að hafa í huga.

1. Hlutur hvort kyns um sig verði ekki minni en 40% í þeim stjórnum og ráðum sem skipuð verða á næstunni, sbr. 15. gr. jafnréttislaga.

2. Gætt verði kynjajafnréttis við launasetningu innan ríkisbankanna nýju og dregið um leið úr launamun kynjanna.

3. Við endurráðningu verði konur og karlar ráðin í jöfnum mæli.

4. Við uppsagnir verði gætt jafnræðis milli kynja. Konur jafnt sem karlar eru fyrirvinnur heimila og mun fleiri konur en karlar eru einu fyrirvinnur fjölskyldna sinna.

5. Brýnt er að fræða fólk um félagsleg réttindi sín, t.d. að skrá sig þegar í stað á atvinnuleysisskrá til að missa ekki réttindi. Réttur til fæðingarorlofs getur glatast ef einn einasta dag vantar upp á samfellda vinnu í sex mánuði.

6. Spenna á vinnustöðum getur valdið auknu áreiti, einelti og kynferðislegri áreitni. Stjórnendur og trúnaðarmenn verða að vera vakandi hvað þetta varðar og grípa til aðgerða þegar í stað ef upp kemur.

7. Hætta er á auknu ofbeldi í nánum samböndum vegna ýmis konar erfiðleika. Brýnt er að auka þjónustu við þolendur ofbeldis og styrkja þær stofnanir sem vinna með þolendum, svo sem Stígamót og Kvennaathvarfið. Styrkja þarf verkefnið Karlar til ábyrgðar enn frekar þannig að það nái til gerenda um allt land.

8. Afar mikilvægt er að hafa vakandi auga með líðan barna sem finna vel fyrir þeirri miklu spennu og kvíða sem einkennir þjóðlífið. Það þarf að ræða við þau og hjálpa þeim við að takast á við erfiðleika sem kunna að hrjá heimili þeirra, ekki síst ef um ofbeldi er að ræða.

9. Aðgerðir í atvinnumálum taki mið af báðum kynjum og þeim sem eru að missa vinnu sína.

10. Samþættingar kynjasjónarmiða verði gætt við alla stefnumótun eins og jafnréttislög kveða á um.

11. Konur og karlar komi jafnt að öllum ákvörðunum sem varða framtíð þjóðarinnar.

Það er mikið verk að vinna við að koma þjóðarbúinu aftur á réttan kjöl. Þar verða bæði kyn að leggjast á árar og nýta þann sköpunarkraft sem býr í mismunandi reynslu og þekkingu. Vonandi skilar sú vinna okkur betra samfélagi jafnréttis og jöfnuðar, samvinnu og samstöðu.