Kynjað náms- og starfsval

Þann 14. nóvember sl. birti Menntamálastofnun niðurstöður samantektar á tölfræði starfsnáms á Íslandi. Niðurstöðurnar sýndu að hlutfall ungs fólks sem velur starfsnám er einungis lægra í Litháen og Írlandi af Evrópuríkjunum 27 innan OECD. Ennfremur sýna niðurstöðurnar að hlutfall kvenna í starfsnámi er næstlægst á Íslandi af löndunum 27 og kynjamunurinn var næstmestur hér á landi. Þessar tölur eru nokkuð athyglisverðar, ekki síst í ljósi þess að Ísland er í fararbroddi á flestum sviðum jafnréttis í heiminum.

 

Nýverið lauk sam-norrænu verkefni sem Jafnréttisstofa tók þátt í um hvernig vinna megi gegn kynjuðu náms- og starfsvali. Þátttakendur auk Jafnréttisstofu voru Iðan – fræðslusetur, Akershus fylkeskommune í Noregi, menntamálastofnanir Svíðþjóðar og Finnlands auk tveggja verkmenntaskóla, annar á Álandseyjum og hinn í Österbotten í Finnlandi. Verkefnið, sem hófst í október 2017 og lauk í október 2018 og var styrkt af Norrænu upplýsingamiðstöðinni um kynjajafnrétti (NIKK - Nordisk Information för Kunskap om Kön) fólst í því að þátttakendur hittust á fjórum fundum þar sem þeir skiptust á upplýsingum og reynslu af aðgerðum sem miða að því að jafna kynjahlutföll í námi og starfi, með sérstaka áherslu á iðngreinar. Fundunum var svo fylgt eftir með ráðstefnum um kynjað náms- og starfsval þar sem verkefni og rannsóknir sem tengjast viðfangsefninu voru kynntar.

 

Gegnumgangandi í umræðum þátttakenda var mikilvægi sterkra fyrirmynda og þess að hafa fengið að kynnast starfi af eigin raun þegar kom að vali á námi. Sterkar fyrirmyndir, bæði í nærumhverfi og almennt, hafa mikil áhrif þegar kemur að náms- og starfsvali og því mikilvægt að einstaklingar af báðum kynjum séu sýnilegir í myndmáli og umræðum um kynskiptar greinar. Eins skiptir miklu að í heimsóknum barna og unglinga úr leik-, grunn- og framhaldsskólum á vinnustaði og í kynningum á námi og starfsgreinum í skólum séu einstaklingar af báðum kynjum sýnilegir.

 

Einn mikilvægasti þátturinn í að jafna þennan kynjamun er þó sá að brjóta niður staðlaðar kynjamyndir sem geta haft áhrif á val, bæði meðvitað og ómeðvitað. Þátttakendur í verkefninu voru sammála um að þar gegndu kennarar lykilhlutverki en að mikið skorti upp á markvissa kynja- og jafnréttisfræðslu í kennaranámi í öllum þátttökulöndum. Samkvæmt aðalnámsskrá er jafnrétti einn af sex grunnþáttum íslenskrar menntastefnu. Grunnþættir þessir eiga að fléttast inn í allt skólastarf og því er góð efnisleg þekking á inntaki og hugtökum sem tengjast jafnrétti kynjanna og jafnrétti í víðtækri merkingu frumskilyrði þess að vel takist til. Til að svo megi verða þarf kynjafræði að skipa stóran sess í bæði grunn- og framhaldsnámi kennara. Án markvissrar fræðslu er hætt við að kennara skorti þekkingu og verkfæri til að flétta jafnrétti inn í allt skólastarf eins og lög gera ráð fyrir.

 

Til að jafna kynjahlutföll í námi og starfi þurfa allir að leggjast á eitt, stjórnvöld, menntastofnanir, atvinnulífið, fag- og stéttarfélög og ekki síst foreldrar. Samfélag þar sem allir geta nýtt hæfileika sína til fulls án tillits til kyns eða annarra þátta er sterkara samfélag. Opnum augu barna okkar fyrir öllum þeim möguleikum sem þeim standa til boða. Hvetjum þau til að fara þær leiðir sem hugur þeirra hneigist til án þess að láta afdankaðar hugmyndir um kynjahlutverk beina þeim frá því námi og störfum sem hingað til hafa talist kvenna- eða karlastörf. Það græða allir á því.