Kynjasamþætting í starfi Jafnréttisstofu

Með nýrri jafnréttislöggjöf árið 2008 var kynjasamþætting lögfest sem sú aðferð sem nota á til að ná fram auknu jafnrétti kynja í íslensku samfélagi.Jafnréttisstofa hefur eftirlit með framkvæmd jafnréttislaga auk þess sem hún hefur víðtækt fræðslu- og leiðbeiningahlutverk og hafa námskeið um kynjasamþættingu því skipað stóran sess í starfi stofunnar undanfarin ár.

Í orðskýringum í jafnréttislögum er kynjasamþætting skilgreind en hún felst í: „Að skipuleggja, bæta, þróa og leggja mat á stefnumótunarferli þannig að sjónarhorn kynjajafnréttis sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir þeirra sem alla jafna taka þátt í stefnumótun í samfélaginu.“

Um skyldur þeirra aðila sem bera ábyrgð á samþættingu kynjasjónarmiða segir í lögum nr. 10/2008 að jafnréttisnefndir sveitarfélaga skuli: „[H]afa umsjón með gerð jafnréttisáætlana til fjögurra ára, þar sem m.a. komi fram hvernig unnið skuli að kynjasamþættingu á öllum sviðum.“ Eins segir að jafnréttisfulltrúar ráðuneyta skuli: „[V]inna að kynjasamþættingu á málefnasviði ráðuneytisins.“ Að öðru leyti má skilja af 17. grein laganna að öllum ráðuneytum og öllum opinberum stofnununum sem heyra undir þau beri að samþætta kynjasjónarmið í allri sinni stefnumótun.

Í kjölfar ofangreindar lögfestingar kynjasamþættingar var hafist handa við að byggja upp þekkingu hjá starfsfólki Jafnréttisstofu, semja nýtt fræðsluefni og setja á fót námskeið um framkvæmd kynjasamþættingar. Jafnréttisstofa sótti um styrk í Progress-sjóð Evrópusambandsins árið 2007 en styrkurinn gaf aukið færi á að móta og efla uppbyggingarstarf á sviði kynjasamþættingar. Jafnréttisstofa hefur þrívegis hlotið styrk úr sjóðnum til að efla fræðslu og innleiðingu kynjasamþættingar í stefnumótun og ákvarðanatöku í opinberri stjórnsýslu. Verkefnin nefnast Samstíga/Side by Side og lauk síðasta verkefninu haustið 2012.

Í tengslum við verkefnin þrjú hafa verið gefnar út tvær handbækur undir titlinum Jöfnum leikinn. Annars vegar handbók um framkvæmd kynjasamþættingar að sænskri fyrirmynd með dæmum úr íslenskum veruleika og hinsvegar handbók um hlutverk stjórnenda hvað varðar innleiðingu kynjasamþættingar og ávinning þeirrar vinnu þegar litið er til gegnsæis og auknum gæðum í þjónustu við fjölbreyttan hóp þjónustuþega. Báðar handbækurnar eru kennsluefni í hagnýtum jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands og í mannauðsstjórnun við Háskólann á Akureyri. Þriðja handbókin Kynjakrónur kom út árið 2012 en hún fjallar um framkvæmd kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar og er unnin í samstarfi við starfshóp um innleiðingu hennar í fjármálaráðuneytinu.
 
Bækurnar þrjár eru nýttar á námskeiðum stofunnar um kynjasamþættingu og gerð jafnréttisáætlana en námskeiðin eru annarsvegar auglýst opin eða sérstaklega fyrir ákveðna aðila. Undanfarin 3 ár hafa verið haldin 60 námskeið með þátttöku víða úr stjórnsýslunni þar má nefna jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna, Byggðastofnun, Seðlabanka Íslands, Tryggingastofnun, Vinnumálastofnun, Lýðheilsustöð, LSH, FSA, Barnaverndarstofu, Umboðsmann barna, Flugumferðastjórn, Þróunarsamvinnustofnun, Umhverfisstofnun, Þjóðkirkjuna og embætti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess hafa stofnanir sveitarfélaga s.s. félagsþjónusta og skólar sótt námskeið, t.d. í Reykjavík, Hafnafirði, Fljótsdalshéraði, Fjallabyggð, Norðurþingi, á Ísafirði og Akureyri. Þess má einnig geta að fulltrúar ASÍ, BSRB og SFR auk sérfræðinga og fræðimanna á sviði jafnréttismála frá háskólum landsins hafa sótt námskeið Jafnréttisstofu.

Í tengslum við Samstíga verkefnin hafa erlendir sérfræðingar frá Svíþjóð, Finnlandi og Bretlandi komið til Íslands, kennt á námskeiðum og flutt erindi á þeim 5 ráðstefnum sem haldnar hafa verið um kynjasamþættingu á undanförnum árum. Sumir þessara erlendu sérfræðinga hafa heimsótt ráðuneyti og rætt sérstaklega við starfsfólk um þær leiðir sem hafa gefist best við innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar víða um heim.

Námskeið og ráðstefnur um kynjasamþættingu hafa skilað aukinni þekkingu á því hvað felst í kynjasamþættingu og hvernig aðferðafræðin getur nýst til að bæta opinbera þjónustu þannig að hún verði réttlát og gegnsæ. Handbækur stofunnar hafa nýst vel en áður var ekki til ýtarlegt efni um kynjasamþættingu hérlendis. Í framhaldi af námskeiðum stofunnar hafa ýmis ráðuneyti, opinberar stofnanir og nokkur sveitarfélög unnið tilraunaverkefni eða farið af stað með kynjasamþættingarvinnu sem við munum vonandi sjá afrakstur af á næstu mánuðum og árum.

Gaman er að geta þess að Samstíga-verkefnin hafa hlotið jákvæða athygli í Brussel og síðast liðið haust var tveimur starfskonum Jafnréttisstofu boðið að kynna verkefnin á fundi með fulltrúum aðildarríkjanna.

Á vefsíðunni www.samstiga.is gefur að líta upplýsingar um helstu ráðstefnur og útgáfur tengdar Samstíga-verkefnunum.

Bergljót Þrastardóttir