Kynleg áhrif kreppunnar

Silja Bára Ómarsdóttir skrifar

Kynleg áhrif kreppunnar

- tapa sumir meira en aðrir?Þótt fæstir óski þess að ganga í gegnum efnahagsþrengingar á borð við þær sem íslenska þjóðin hefur upplifað síðastliðið ár, þá eru kreppur áhugavert félagslegt fyrirbæri. Það á auðvitað sérstaklega við þegar komið er út úr þeim og afleiðingarnar og áhrifin skoðuð. Sumt er hægt að sjá strax, eins og það hvort pilsfaldar lækki, kvikmyndastjörnur eldist o.s.frv. Annað er ekki alveg jafn sýnilegt, en einn erlendur pistlahöfundur hefur bent á að þegar fólk reynir að spara á heimilisútgjöldum séu pappírsbleiur ofarlega á niðurskurðalistanum. Börn læra því fyrr að nota klósettið – og flestir foreldrar fagna því eflaust. Algengasta mynstrið hins vegar er að niðurskurður hjá hinu opinbera veldur því að umönnunarstörf færast frekar inn á heimilin þar sem þeim er sinnt af konum, sem þiggja engin laun fyrir. Vinnuálag á konur eykst því gjarnan þegar þrengir að.

Störfum kvenna er frekar fórnað

Þær afleiðingar sem kreppur hafa á konur og karla hafa verið nokkuð hefðbundin í gegnum söguna. Störfum kvenna er frekar fórnað, þær víkja af vinnumarkaðnum og fara inn á heimilin. Yfirstandandi kreppa er merkileg í þessu samhengi, því það voru svo karllægir geirar sem hrundu í upphafi. Atvinnuleysi karla var því gífurlegt og í Bandaríkjunum er þessi samdráttartími gjarnan kallaður he-cession, til að ríma við recession. Fjármála- og byggingastarfsemi voru líka turnarnir tveir í íslensku atvinnulífi. Þegar þeir hurfu var lítið eftir af störfum fyrir karla. Þetta er auðvitað líka endurspeglun af því hversu kynskiptur íslenskur vinnumarkaður er.

Atvinnuleysi kvenna var mun minna framan af í kreppunni. Í apríl á þessu ári voru nærri tvisvar sinnum fleiri karlar en konur atvinnulaus á landinu, eða 9601 karl og 5213 konur. Í september hafði körlum á atvinnuleysisskrá fækkað um rúmlega 2000, voru 7230. Konum hafði hins vegar aðeins fækkað um 300, voru 4915. Þetta má túlka sem svo að kreppan hér á landi sé að leita í hefðbundin mynstur, þ.e. að karlar fái frekar vinnu en konur leiti annað hvort inn á heimilin, eða það sem virðist jafnvel líklegra: í skóla. Í Háskóla Íslands voru í október skráðir 13957 nemendur. Þar af voru 9249 konur, eða næstum nákvæmlega tvöfalt fleiri en karlarnir, sem voru 4708. Það er reyndar ekkert nýtt að konur séu fleiri í háskólanámi á Íslandi, en þetta vekur upp þá spurningu hvort konur séu nú ekki að hörfa inn á heimilin heldur í háskólanám þegar þrengir að á vinnumarkaði? Einnig er vert að spyrja af hverju karlar leiti ekki meira í nám þegar framboð á vinnu dregst svona harkalega saman, en karlar hafa um nokkurt skeið verið í minnihluta þeirra sem klára bæði framhaldsskóla og háskóla.

Ísland komið í efsta sæti

En hvaða áhrif hefur kreppan á jafnréttismál? Ísland hefur lengi verið ofarlega á lista yfir þau lönd þar sem jafnrétti kynjanna er hvað mest. Það, þrátt fyrir sífelldar áminningar um hverju megi breyta og hvað bæta. World Economic Forum (WEF) hefur staðið fyrir þessum mælingum í nokkur ár, og fyrir árið 2009 er Ísland komið í efsta sæti. En hvað felst í því? Og dugar að vera best í heimi, ef við erum að bera okkur við heim þar sem misrétti ríkir? Á mælikvarða WEF fær Ísland einkunnina 8,28 af 10 fyrir stöðu jafnréttismála en fékk í fyrra 8,0. Það sem er mælt er m.a. ungbarnadauði, lengd og greiðslur í fæðingarorlofi, læsi, atvinnuþátttaka kvenna og hlutfall kvenna á þingi og í ríkisstjórn.

Í nýjust skýrslu WEF fær Ísland 5,91 af 10 þegar staða kynjanna í stjórnmálum er skoðuð. Í fyrra fékk Ísland 5,0. Staða kvenna í stjórnmálum á heimsvísu er svo slæm að bæði í ár og í fyrra vorum við best í heimi. Þessi hækkun er að miklu leyti því að þakka að nú eru flokkar í meirihluta á þingi sem leggja sig fram við að jafna kynjahlutföllin og það endurspeglar áralanga baráttu kvenna fyrir pólitískum réttindum sínum. Þessir flokkar hafa líka staðið að mestu við það að jafna hlut kynjanna í ráðherraembættum, og það skilar sér inn í meðaltalið. Einn af þáttunum sem hefur hvað mest áhrif á þennan þátt er líka að Vigdís Finnbogadóttir var forseti 16 af síðustu 50 árum. Það er því ekki kreppan sem er að bæta stöðu jafnréttismála á Íslandi, þótt það sé freistandi að nota tölurnar til að halda því fram.

Annar þáttur sem mikilvægt er að skoða, sérstaklega í samhengi við atvinnuleysi og menntun er þátttaka kynjanna á vinnumarkaði og þau tækifæri sem þeim bjóðast þar. Á mælikvarða WEF er Ísland í 16. sæti hvað varðar efnahagsleg tækifæri og þátttöku, með einkunnina 7,5 af 10. Þegar skoðað er hvort sömu laun fáist fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf er Ísland aðeins í 70. sæti af 134 löndum. Konur fá þó rétt tæplega þrjá fjórðu af þeim launum sem karlar fá greidd út – og það er 8. besti árangur í heimi.

Gömul og góð gildi

Þegar harðnar í ári leitar fólk gjarnan í „gömul og góð gildi“. Það er auðvitað eðlilegt að við viljum hugsa betur um þá sem standa okkur næst þegar þrengir að. Börn og unglingar á Íslandi eru þegar farin að gefa til kynna að þeim líði betur en áður og ástæðan er sú að foreldrarnir eru meira heima en þau voru meðan á gróðærinu stóð. En gömul og góð gildi þýða líka gjarnan að konurnar séu heima frekar en karlarnir. Þau þýða að mikil vinna er unnin án þess að laun séu greidd. Þetta er hættan sem fylgir orðræðunni um að við eigum að vera góð við börnin okkar. Um leið er dregið úr greiðslum fyrir fæðingarorlof, en íslensk stjórnvöld stæra sig af því erlendis að þetta sé besta tækið til að auka jafnrétti.

Karlar hafa misst vinnu í meira mæli en konur í kreppunni hingað til. Allar vísbendingar eru um að það fari að breytast núna. Mikil áhersla er lögð á „mannaflsfrekar framkvæmdir“ sem auðvelt er að lesa sem „atvinnu fyrir karla“. Um leið og allt kapp er lagt á að ráðast í byggingu hátæknisjúkrahúss er dregið úr fjárframlögum til heilbrigðisgeirans, þar sem konur eru í tiltölulega lágt launuðum störfum. Álverið í Reyðarfirði er sennilega fremst í heimi hvað varðar kynjahlutföll í starfi, en þar voru konur 28% starfsmanna haustið 2008. Frekari uppbygging stóriðju mun því að óbreyttu gera lítið til að breyta atvinnuleysistölum karla og kvenna. Þegar til lengdar lætur er líklegra að konur tapi meira en karlar á kreppunni. Þannig hefur það oftast verið en það þarf ekki að vera þannig. Það þarf að setja þrýsting á stjórnvöld um að skoða þær ákvarðanir sem þau taka með tilliti til áhrifa og afleiðinga á bæði kynin.Greinin birtist í 7. tölublaði SFR í nóvember árið 2009.