Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga

Nauðsynlegt er að bæði kyn taki þátt í að móta samfélagið sem við búum í. Kynin alast upp við ólíka reynsluheima og hafa oft á tíðum mismunandi sýn á umhverfi sitt. Þær ákvarðanir sem stjórnmálamenn taka eru meðal annars byggðar á þeim hugmyndum sem þeir hafa um lífið og tilveruna og þess vegna er það raunverulegt lýðræðisspursmál að bæði kynin komi að ákvarðanatöku við stjórnun sveitarfélaga. Hlutfall kvenna í sveitarstjórnum á Íslandi hefur aukist hægt og bítandi síðastliðna hálfa öld og eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar voru konur rúmlega þriðjungur sveitarstjórnarmanna eða 36%. Á sama tíma hefur sveitarfélögum í landinu fækkað verulega og þau stækkað. Þar með hefur þeim sætum sem kosið er um fækkað verulega. Við upphaf kjörtímabilsins 2006-2010 voru sveitarfélögin í landinu 79 og hafði fækkað úr 105 í 79 á kjörtímabilinu þar á undan eða um 26. Í dag eru sveitarfélög 78 talsins.

Þar sem sveitarstjórnarkosningar verða á næsta ári þótti kjörið að ræða hlutfall karla og kvenna í sveitarstjórnum á landsfundi jafnréttisnefnda í ár en hann fór fram á Ísafirði 10.-11. september síðastliðinn. Einnig var Evrópuáttmáli um jafna stöðu karla og kvenna í sveitarfélögum og héruðum kynntur, áhrif hans og leiðir til að innleiða hann hérlendis.
Frummælendur á fundinum fjölluðu um hlut kynjanna í sveitarstjórnum frá ólíkum hliðum og stöðu kvenna almennt í áhrifastöðum samfélagsins. Mikið vær rætt um ástæður þess að konur ættu erfiðara með að komast til áhrifa en karlar og bent á ýmsa þætti í þeim efnum.

Meðal þess sem fram kom var að margt virðist benda til þess að konur eigi auðveldara með að komast til áhrifa í stærri, þéttbýlli sveitarfélögum. Hlutfall kvenna í sveitarstjórnum eftir kosningar árið 2006 var þannig mismunandi eftir stærð og landfræðilegri legu sveitarfélags. Konur eru hlutfallslega færri í sveitarstjórnum smærri sveitarfélaga á landsbyggðinni, og þá sérstaklega í sveitarfélögum með færri en 300 íbúa, en hlutfallslega eru konur flestar í stærri þéttbýlissveitarfélögum á suðvestur horni landsins. Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðingur benti á að ákveðin lausn varðandi hlut kvenna í minni sveitarstjórnum fælist í að sameina og stækka sveitarfélög sem og að fjölga sveitarstjórnarmönnum.

Kosningaformið var einnig rætt og neikvæð áhrif prófkjörs sem kunna að gera það verkum að konur og karlar draga sig í hlé þrátt fyrir áhuga á að ná til áhrifa í samfélaginu. Birna Lárusdóttir, bæjarfulltrúi á Ísafirði benti á neikvæðan fylgifisk prófkjörs sem birtist í slag samherja um sæti á flokkslista. Að prófkjöri loknu eiga síðan fyrrum andstæðingar í prófkjörsslag að vinna saman í viðkomandi flokki. Í prófkjörum skiptir tengslanet einstaklinga miklu máli og þau hafa karlar þróað í meiri mæli en konur. Þegar kosningaform eru skoðuð kemur einnig í ljós að konum gengur almennt betur að komast til áhrifa þar sem um bundna hlutfallskosningu er að ræða. Í sveitarstjórnarkosningunum árið 2002 var hlutfall kvenna í sveitarstjórn aðeins 25,5% þar sem kosning var óbundin á meðan hlutfall kvenna var 34% þar sem um bundna hlutfallskosningu var að ræða.

Sigrún Jónsdóttir, formaður starfshóps um aðgerðir stjórnvalda til að jafna stöðu kynjanna í sveitarstjórnum fjallaði m.a. um starfsumhverfi sveitarstjórnarmanna. Hún benti á nauðsyn þess að kynna sveitarstjórnarstigið sem jákvæðan starfsvettvang þannig að fleiri einstaklingar vildu bjóða sig fram til þeirra starfa. Það þyrfti að endurskoða starfsumhverfi sveitarstjórnarmanna hvað varðar t.d. fundartíma, álag og starfskjör. Miklar umræður sköpuðust um þennan þátt og ýmsar hugmyndir voru settar fram eins og t.d. að fjölga sveitarstjórnarmönnum í takt við það sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum, gera starf sveitarstjórnarfólks að fullu starfi án þess að fjölga þeim, gera sveitarstjórnarstarfið fjölskylduvænna o.fl.

Fundargestir voru almennt sammála um að það væri að endingu í höndum stjórnmálaflokkanna að sjá til þess að kynjahlutföll væru sem jöfnust í sveitarstjórnum. Það væri þeirra hlutverk að raða þannig á framboðslista að konur og karlar væru í jöfnum hlutföllum og að konur og karlar deildu tveimur efstu sætum á framboðslistum. Flokkarnir ættu að styðja við konur í framboði og reyna eftir megni að laða konur að flokkstarfinu. Miklar umræður sköpuðust um fyrirhugað persónukjör í næstu sveitarstjórnarkosningum og kostir og gallar slíks fyrirkomulags ræddir. Helstu gallar væru að þá er ekki hægt að sjá til þess að framboð endurspegluðu svokallaða fléttulista eða að kona og karl væru í efstu sætum. Kostir persónukjörs gætu hins vegar falist í frekari kynningu á frambjóðendum allt að kjördegi.

Seinni dagur landsfundarins var skipulagður með það að markmiði að kynna Evrópusáttmála um jafna stöðu karla og kvenna í sveitarfélögum og héruðum. Anna Guðrún Björnsdóttir, sviðstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sýndi fundgestum hvernig Evrópusáttmálinn er innleiddur en sáttmálanum fylgja greinagóðar leiðbeiningar um hvernig koma á honum í framkvæmd þannig að hann skili góðum árangri.

Evrópusáttmálinn hefur nú verið undirritaður af 4 íslenskum sveitarfélögum, Akureyrarkaupstað, Hafnarfjarðarbæ, Mosfellsbæ og Akranesi. Katrín Björk Ríkharðsdóttir, framkvæmdarstjóri samfélags- og mannréttindadeildar Akureyrarbæjar og Sigríður Indriðadóttir, mannauðstjóri Mosfellsbæjar sögðu frá sínum hugmyndum um innleiðingu sáttmálans. Katrín lýsti yfir ánægju sinni með hve vítt svið sáttmálinn nær yfir en nú gæfist kostur á að innleiða jafnréttisstarf sveitarfélagins inn í nýja málaflokka eins og skipulagsmál, innkaupamál bæjarfélagsins o.fl. Sigríður sagði frá innleiðingu ýmissa greina sáttmálans við gerð starfsmannastefnu Mosfellsbæjar en sú innleiðing gekk mjög vel.

Í kjölfar umræðna um innleiðingu sáttmálans kynnti Tryggvi Hallgrímsson, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu nýútgefna handbók um kynjasamþættingu sem Jafnréttisstofa hefur gefið út. Handbókin mun reynast sveitarstjórnarstiginu vel þegar kemur að því stuðla að jafnrétti kynjanna í allri þjónustu.Tryggvi kynnti aðferðarfræði kynjasamþættingar og síðan hófst vinna í hópum þar sem drög að aðgerðaráætlunum í jafnréttismálum voru rædd.

Fulltrúar Jafnréttisstofu og Sambands íslenskra sveitarfélaga undirrituðu viljayfirlýsingu um að innleiða Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum á landsfundinum en í viljayfirlýsingunni kemur fram að sambandið og Jafnréttisstofa muni vinna saman að því að innleiða Evrópusáttmálann.


Landsfundur jafnréttisnefnda tókst vel og mætti á fimmta tug sveitastjórnarmanna og starfsmanna sveitarfélaganna ásamt áhugafólki af svæðinu. Fulltrúar Akureyrarkaupstaðar bjóða til landsfundar jafnréttisnefnda sveitarfélaga að ári en í lok fundarins í ár voru eftirfarandi ályktanir sendar út:

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga skorar á stjórnmálaflokka og önnur framboð að tryggja jöfn hlutföll kynjanna í efstu sætum á framboðslistum til sveitarstjórnarkosninga vorið 2010. Það er á ábyrgð þeirra sem bjóða fram lista við kosningar að jafna hlutdeild kynja við ákvarðanatöku í stjórnmálum.

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga skorar á öll sveitarfélög að undirrita og hrinda í framkvæmd ,,Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum og héruðum“. Sáttmálinn kveður meðal annars á um aðgerðir sem sveitarfélögin geta tileinkað sér án þess að það feli í sér aukin fjárútlát. Erfið fjárhagsstaða sveitarfélaga þarf því ekki að leiða til frestunar á aðgerðum í jafnréttismálum.

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga skorar á alþingsmenn að skoða ítarlega hvaða áhrif samþykkt þess frumvarps um persónukjör sem nú liggur fyrir Alþingi, hefði á möguleika til að jafna stöðu kynjanna á þingi og í sveitarstjórnum.