Litla samfélagið

Lísbet Harðar-Ólafardóttir skrifar

Litla samfélagið

Sólstafir, eru eins og Aflið, eins og Stígamót, eins og Drekaslóð. Ég nota yfirleitt hliðstæð samtök til samlíkingar þegar ég útskýri fyrir nýjum eyrum um hvað starfsemi okkar í Sólstöfum snýst. Þetta á líka við í mínum heimabæ, Ísafirði, og á sama tíma og ég er ánægð með að fólk sýni okkur áhuga og sé forvitið er ég pínu vonsvikin að starfsemin sé ekki á allra vitorði eftir 10 ára starf í agnarsmáu samfélagi.

Á þjónustusvæði Sólstafa búa færri en 4000 manns, samt er fólk enn hissa og spyr hverjar við séum, hvað við séum að gera, hvort virkilega sé þörf á heilu batteríi í kringum „þessi“ mál. Ástæðan er sannarlega ekki sú að við höfum ekki verið sýnilegar. Sólstafir hafa alla tíð verið áberandi í samfélaginu. Við höfum staðið vaktina á bæjarhátíðum og farið inn í skóla og vinnustaði með námskeið og fyrirlestra. Til að mynda fræddum við alla starfsmenn sem starfa með börnum á Vestfjörðum um forvarnir gegn kynferðisofbeldi og hvernig mætti sjá einkenni þess. Við buðum líka öllu heilbrigðisstarfsfólki upp á sama námskeið.

Þögn samfélagsins

samfelagsleg_abyrgdKynferðisofbeldi virðist einhvernvegin vera enn meira feimnismál eftir því sem umhverfi þess er smærra. Þegar samfélagið samanstendur af fjölskyldu, kunningjum og vinnufélögum, er erfiðara að segja upphátt það sem segja þarf. Það er erfitt að nota réttu orðin og lýsingar á atburðum eru oft á tíðum sagðar tillitlslausar, óviðeigandi og meiðandi fyrir samfélagið. Landsbyggðin á nefnilega undir högg að sækja á svo mörgum stöðum, það er víst ekki neinum til góðs að draga upp einhverja svarta mynd af lífinu á hjaranum. Hér á fólk ekki að flassa fram hrottaskap, það gæti nefninlega haft i för með sér fælingarmátt. Staða brotaþola í svona umhverfi er margþætt og flókin. Sé á einstaklingi brotið í smáu samfélagi er krafan um þögn ekki eingöngu samfélagsleg, heldur líka persónuleg. Líkurnar á tengslum við geranda eru meiri og tengslin eru oftar en ekki flóknari en í stærri samfélögum. Þolendur ofbeldis þurfa fumlaust var til uppbyggingar eftir áfallið sem þeir hafa orðið fyrir, en vegna eðlis lítilla samfélaga getur griðarstöðum þolenda fækkað hratt eða þeir horfið alveg. Þegar litið er til þess að allstaðar er fólk sem þekkir til gefur auga leið að eðlilegt líf er svo að segja úr sögunni eftir að ofbeldið er gert opinbert. Allstaðar er einhver sem á tilfinningalegra hagsmuna að gæta vegna þess sem kom fyrir. Ábyrgðinni sem varpað er á brotaþola kynferðisofbeldis er því ekki bara hvað ofbeldið varðar, heldur afleiðingar þess á samfélagið líka. Þolandi ber allt í einu ábyrgð á upplifun lögregluþjónsins sem var í bekk með gerandanum, lækninum sem er systir hans og réttargæslumanninum sem spilar við hann fótbolta.

Við hjá Sólstöfum glímum líka við smæðina, engin okkar er í fullu starfi sem Sólstafakona og erum við allar í öðrum hlutverkum á öðrum stöðum. Við gerum ómælda kröfu á okkar sjálfar sem og þá sem til okkar leita að horfa fram hjá tengslum sem við höfum myndað í samfélaginu til þess að skapa þetta hlutlausa rými sem þarf til uppbyggingar. Við reynum eftir fremsta megni að bjóða skjólstæðingum okkar upp á þjónustu sem hentar hverju sinni og skapa þar með einhversskonar hlutlaust rými þar sem öruggt er að stíga fram og greina frá ofbeldinu. Oft kemur það fyrir að ein okkar er með öllu óhæf að sinna einstaklingi vegna tengsla.

Við sitjum fundi vegna fjárveitinga með sama fólki og við ætlum að hitta seinni partinn vegna fjáraflana barnanna okkar. Við hittum gerendur í búðinni, á leikskólanum, á tónleikum og í afmælisboðum. Allt er í kross. Það er því kannski ekki að undra að þetta sé bæði flókið og erfitt. Að engann langi að vita nokkurn skapaðan hlut um svona vont málefni, hvað þá að komast að því að einhver manni náinn hafi verið beittur – eða það sem verra væri, hafi beitt aðra manneskju svona grófu ofbeldi.

Styðjum þolanda

Þegar fregnir af ódæðum berast í okkar heimabæ eru tvö viðhorf sem mér hefur þótt hvað mest áberandi. Annarsvegar er það „ ég get ekki tekið afstöðu, ég tengist….“ og svo er það hið hvimleiða“ þetta hýtur að vera misskilningur, það eru alltaf tvær hliðar á öllum málum“. Þessi fyrstu viðbrögð koma næstum sjálfkrafa. Ég reyni meira að segja stundum að lauma þeim að hjá sjálfri mér þegar ég stend frammi fyrir máli sem mig langar ekki að eigi sér stoð í raunveruleikanum. Ég get sagt það strax og án refja að þetta eru stórhættuleg og skaðleg viðbrögð. Fyrir utan að þau eru röng. Að taka afstöðu gegn kynferðisofbeldi er ekki að úthýsa fólki eða fara fylktu liði heim til geranda og húðstrýkja. Að taka afstöðu er að styðja þolandann í raunum sínum. Að viðurkenna að einhver braut á rétti og beitti ofbeldi. Að segja upphátt að þú trúir frásögninni. Að berja niður þessar mýtur um að betur hefði nú farið ef einhver hefði eitthvað, einhvernvegin. Ekkert af því skiptir máli þegar ofbeldi hefur átt sér stað og þolandi leitar hjálpar. Ekkert skiptir máli í heiminum nema það sem þolandi segir.

Okkar álit, skoðanir eða tilfinningar eiga ekki heima á staðnum. Við hlustum. Til Sólstafa leita þessir einstaklingar í von um að fá einhverja lausn, einhverja skýringu og undantekningarlaust leita þeir eftir stuðningi. Oft eru Sólstafir eina haldreipi þessara einstaklinga, því við erum búin að lofa þessum stuðning fyrirfram. Við reynum eftir fremsta megni að búa til skjól.

Ég er starfskona Sólstafa, ég sinni brotaþolum sem leita sér aðstoðar á öllum stigum áfallsins sem kynferðisofbeldi hefur í för með sér. Stundum koma skjólstæðingar til okkar beint af sjúkrahúsinu eða beint úr aðstæðunum. Stundum líða vikur, mánuðir eða ár áður en fólk leitar sér aðstoðar. Það skiptir engu máli hversu langt er liðið eða hvað hefur átt sér stað í millitíðinni, við erum tilbúnar þegar einstaklingar þurfa á okkur að halda. Við stöndum í stöðugu stappi vegna fjármagns. Við verjum stöðu okkar til þriggja –  fjögurra mánaða í senn og hingað til höfum við aldrei unnið í heilt ár án þess að þurfa að horfast í augu við fjárskort sem gæti lokað á starfið sem við vinnum. Við höfum enn, eftir tæpann áratug, ekki greitt okkur laun.

Nýlega sóttum við um styrki til sveitafélaganna sem við þjónustum. Erindi okkar var ekki auðsvarað né var því tekið fagnandi. Við sóttum um 700.000 króna framlag og skuldbundum okkur til að inna af hendi ákveðna þjónustu í formi viðtala, fræðsluerinda og forvarnarfræðslu í staðinn. Fyrsta svar var þvert nei og umsókninni var hafnað. Frá hliðarlínunni heyrðum við af ástæðum á borð við “of stóra fjárhagslega skuldbindingu” og “menntunarskort starfskvenna”. Ég veit ekki með ykkur, en ósjálfrátt flissaði ég þegar ég hugsaði til þess að við báðum um klink, einungis tryggingu á húsnæði til 13 mánaða. Hvað menntunarstig varðar þá eru starfskonur okkar með framhaldsmenntun á sviði sálfræði, félagsfræði, kynjafræði og kennslufræða.

Gerendavæna umræðan

Á meðan gerendavæn umræða skekur samfélagið, og viðhorf þeirra sem fara með þessi mál innan réttarkerfisins eru löskuð og skökk virðist öll stjórnsýslan vera það líka. Nýlega tókum við til starfa í nýju húsnæði. Þar deilum við rými með Fjölskyldumiðstöð Ísafjarðar og sálfræðingur kemur og tekur viðtöl í rýminu einu sinni í mánuði. Aðgengi er fyrir fatlaða og hægt er að ganga inn bæði að framan, í miðbæ Ísafjarðar og að aftan þar sem inngangurinn snýr að fáfarnari götu. Húsnæðið er hlýlegt, fallegt og rúmar þá þjónustu sem við viljum veita. Við viljum geta boðið upp á hópastarf í okkar samfélagi, viðtöl fyrir brotaþola og hýst námskeið og umræðufundi. VIð ætlum okkur að standa straum af þeim fjölda mála sem koma upp á okkar svæði og gera það vel. Í vetur hefur mikið mætt á þeim sem starfa innan þessa málaflokks og fjöldi fólks sem til okkar leitar eykst með aukinni umræðu.

Til að þetta sé mögulegt verða yfirvöld, sama hvort um ræðir sveitafélög eða ríkið sjálft, að taka við sér og horfast í augu við þá raunverulegu vá sem blasir við. Afleiðingar kynferðisofbeldis eru miskunnarlausar, frekar og skeyta engu um afsakanir eða stöðu þjóðfélagsins hverju sinni. Þær skella á þolendum af fullum þunga, burt séð frá opnunartíma skrifstofa eða þröngsýni þeirra sem eiga að tryggja áðurnefnt skjól til úrvinnslu. Nú, eftir mikið stapp höfum við fengið áheyrn, en svör um krónutölu hafa enn ekki borist. Upphæðin er óráðin og framtið okkar því líka.


Erindi frá málþingi um aðgerðir gegn ofbeldi í nánum samböndum, heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi og afleiðingar þess á landsbyggðunum, sem haldið var af Jafnréttisstofu, Aflinu og Háskólanum á Akureyri þann 4. desember 2015.