Mega fyrirtæki vinna að kynjajafnrétti?

04.11.2019 Katrín Björg Ríkarðsdóttir skrifar

Mega fyrirtæki vinna að kynjajafnrétti?

Markmið þeirra laga sem í daglegu tali eru kölluð jafnréttislög og fjalla um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla er að jafna stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Þrátt fyrir það eru lögin mjög vinnumarkaðsmiðuð og gera þær kröfur til atvinnurekenda og stéttarfélaga að vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

Í takti við þá áherslu bera fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa 25 starfsmenn eða fleiri að jafnaði á ársgrundvelli ríkar skyldur fram yfir aðra. Skyldurnar felast í því að setja sér aðgerðabundnar jafnréttisáætlanir sem taka til a) launajafnréttis, b) lausra starfa, starfsþjálfunar, endurmenntunar og símenntunar, c) samræmingar fjölskyldu- og atvinnulífs og d) kynbundins ofbeldis, kynbundinnar áreitni og kynferðislegrar áreitni.

Meðal þess sem tiltekið er sem lagaskylda til að tryggja launajafnrétti er að fyrirtæki og stofnanir öðlist jafnlaunavottun. Allflest þeirra fyrirtækja og stofnana sem nú þegar hafa í framhaldi af jafnlaunavottun fengið heimild til að nota jafnlaunamerki gera það með miklu stolti og nota það gjarna í auglýsingar sínar til þess að gefa til kynna að þar fari fyrirtæki eða stofnun sem taki jafnréttismál alvarlega.

Það að fyrirtæki og stofnanir taki jafnréttismál alvarlega skiptir gríðarlegu máli. Þegar farið er að vinna markvisst að jafnréttismálum opnast gjarna fyrir nýjar hugmyndir og nýjar leiðir til þess að koma jafnrétti á í raun og þá á fleiri sviðum en þeim sem snerta starfsfólk beint. Stefna fyrirtækja og stofnana í jafnréttismálum þarf því ekki eingöngu að ná til þeirra atriða sem jafnréttislög leggja sérstaklega áherslu á.

Sem dæmi má nefna að nokkur sveitarfélög hérlendis hafa skrifað undir Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla og þar með samþykkt m.a. að þeir aðilar sem ætlunin er að kaupa þjónustu af beri sömu ábyrgð á að tryggja jafna stöðu kynjanna og viðkomandi sveitarfélög hefðu borið sjálf væri þjónustan milliliðalaus.

Einnig er rétt að benda á að í jafnréttislögunum er gert ráð fyrir að fyrirtæki og stofnanir geti gripið til sértækra aðgerða í því skyni að koma á jafnri stöðu kynjanna á ákveðnu sviði þar sem á annað kynið hallar. Það getur þurft tímabundið að veita öðru kyninu forgang til að ná jafnvægi.

Og svo ég svari spurningunni sem varpað er fram í fyrirsögn: Já, fyrirtæki mega og eiga að vinna að kynjajafnrétti. Við þurfum öll að leggjast á árarnar með að vinna að framgangi jafnréttismála samfélaginu til heilla. Jafnrétti snertir okkur öll og saman berum við ábyrgð á að stuðla að því.