Niður með vopnin

Erindi flutt á málþingi um framlag íslenskra kvenna og stjórnvalda til friðaruppbyggingar á stríðsátakasvæðum, 13. desember 2013 á Þjóðminjasafni Íslands

Fyrir nákvæmlega mánuði síðan veittist mér sá heiður að sitja ráðstefnu í Osló í tilefni af 100  ára afmæli kosningaréttar kvenna í Noregi. Á ráðstefnunni sem markaði lok hátíðarhaldanna fengu raddir kvenna víðs vegar að úr heiminum að hljóma.

Konur frá Íran, Afganistan, Saudi-Arabíu, Nepal, Kólumbíu og Indlandi sögðu sögu sína eða ræddu ástandið í sínum heimalöndum. Flestar þeirra eru landflótta, en nokkrar voru skeleggar fræðikonur. Meðal ræðukvenna var friðarverðlaunahafinn Shirin Ebadi.frá Íran sem kom þeirri hugmynd á framfæri að Norðurlöndin ættu að senda kvensendiherra til múslimaríkjanna, það neyddi ráðamenn þar til að tala við konur. Þarna var líka ný framkvæmdastýra UN Women, Phuzile Mlambo-Ngcuka frá S-Afríku sem þakkaði Norðmönnum góðan stuðning við UN Women.

Fremst meðal jafningja var þó kempan Gro Harlem Brundtland sem jós af sínum viskubrunni allt frá æsku sinni sem ung kona í Noregi sem átti fyrst og fremst að giftast og eignast börn, gegnum árin í stjórnmálunum þegar hún myndaði fyrstu ríkisstjórnina í heiminum þar sem tala kvenna og karla var jöfn, yfir í starfið í öldungaráðinu sem Nelson Mandela kallaði saman til að ýta undir tillögur um viturlegar lausnir á vandamálum heimsins, þar með talið ófriði. Blessuð sé minning Nelsons Mandela.

 

Raddirnar voru margar og sumar sárar. Til að mynda stúlkunnar frá Afganistan sem var fyrirliði landsliðs kvenna í fótbolta en það var meira en gamla feðraveldið þoldi og hún varð að flýja land. Það er þó ekkert að finna í Kóraninum um bann við að konur spili fótbolta fremur en að þær megi keyra bíla eins og konur í Saudí-Arabíu hafa bent á.

Orð konunnar frá Kolumbíu voru hrollvekjandi en hún minnti á að í landi hennar hefur verið háð borgarastyrjöld í hálfa öld og fimm milljónir manna liggja í valnum. Indversk fræðikona spurði: af hverju sættum við okkur við hagkerfi í heiminum sem hrynur með reglulegu millibili og veldur ómældum skaða þar með talið styrjöldum? Getum við ekki fundið betri og réttlátari lausnir sem tryggja jöfnuð og frið? Mjög mikilvægar spurningar.

 

Friður og afvopnun aftur á dagskrá kvennahreyfinga

 

Það sem vakti sérstaka athygli mína  var hve friður, afvopnun og aðkoma kvenna að friðarsamningum fékk mikið rými í umræðunni. Þar var ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325/2000  og viðbætur við hana miðlæg en það var líka ljóst að friðarmálin eru aftur komin á dagskrá kvennabaráttunnar – orðin mainstream – eftir að hafa verið á hliðarlínunni síðan múrinn og járntjaldið féllu um 1990 í það minnsta hér á norðurslóðum.

 

Því miður er það ekki að ástæðulausu að stríð og friður kalla á aukna athygli og aðgerðir.

 

Hryllingurinn í Sýrlandi sem bitnar ekki síst á konum og börnum, átökin í Mið-Afríkulýðveldinu, Kongó og Afganistan svo dæmi séu tekin hrópa á okkur svo ekki sé minnst á púðurtunnuna í N-Afríku þar sem vonir margra kvenna um vor og sumar hvað varðar réttindi þeirra og frelsi breyttust í vonbrigði, haust og harðan vetur ofsókna og ofbeldis. Flóttafólk streymir yfir landamæri og það reynir á heiminn allan að bregðast við.

 

Nei, gott fólk. Þær vonir um frið og afvopnun sem spruttu upp eftir fall Sovétríkjanna og lok kalda stríðsins urðu fljótt að engu. Heimurinn hefur sjaldan glímt við jafn margvísleg, hættuleg og erfið átök og síðustu tvo áratugi. Vopnin tala, valdið traðkar á mannréttindum fólks víða um heim og nú síðast er enginn óhultur fyrir njósnum um einkalíf og athafnir. Big brother er svo sannarlega að fylgjast með þér, hver sem þú ert og hvar sem þú ert. Öld tortryggninnar ríkir.

 

Styrjöldin langa og mannskæða

 

Á næsta ári verða 100 ár liðin frá upphafi fyrri heimsstyrjaldarinnar. Það var stríðið sem átti að binda endi á öll stríð lærðum við í sögubókunum. En það var nú eitthvað annað. Austuríski rithöfundurinn og friðarsinninn Stefan Zweig lýsti í ævisögu sinni “Veröld sem var“ þeirri þjóðrembu- og hrokabylgju sem greip um sig sumarið 1914 og lýsti sér í hrópum og fjöldagöngum stríðinu til dýrðar. Það átti að vinna sigur á nokkrum vikum. 

 

Sá fögnuður hvarf fljótt þegar stríðið dróst á langinn og breyttist smám saman í martröð. Herirnir komust hvorki fram né aftur heldur grófu sig niður í skotgrafir sem teygðu sig tugi kílómetra. Hundruðum þúsunda ungra pilta var slátrað vegna þess að þær eldgömlu aðferðir sem beitt var í þessu stríði voru ekki í neinu samræmi við nýju vopnin sem beitt var, einkum öflugar fallbyssur og svo komu flugvélar og skriðdrekar til sögu undir lok stríðsins að ógleymdum eiturvopnum sem beitt var ótæpilega á báða bóga með hræðilegum afleiðingum.

 

Þetta stríð sem stóð í rúmlega fjögur löng ár var eins konar tilraunastöð vopnaiðnaðar í hraðri þróun. Fallbyssuskothríð dundi á hermönnum sem voru látnir hlaupa til móts við eldinn, vopnaðir rifflum, sverðum og byssustingjum.

 

Þetta höfum við séð í fjölda kvikmynda. Charlie Chaplin sýndi ástandið í írónísku ljósi í mynd sinni um Einræðisherrann þar sem rakarinn viðutan sem var svo ótrúlega líkur einræðisherranum Henkel (les Hitler), var látinn stýra risafallbyssu Þjóðverja, Stóru-Bertu, sem átti að geta náð alla leið til Bretlands. Hún bara snérist og hlaupið beindist ýmis að eigin her eða eitthver út í loftið. Stóra-Berta dugði hvorki til eins né neins fremur en svo margt anað sem gripið er til í stríðum.  

 

Heimsstyrjöldin fyrri hafði gríðarlegar afleiðingar. Fólk reis upp gegn þessu heimskulega stríði þegar smám saman varð ljóst hve mannfallið var feiknalegt. Bylting var gerð í Rússlandi, keisurum var steypt af stóli í Þýskalandi og Austurísk-ungverska keisaradæminu og víða voru gerðar uppreisnir. Frændur okkar Finnar háðu borgarastyrjöld sem enn er verið að gera upp.  

 

Friðarsamningarnir – Versalasamningarnir – fólu í sér niðurlægingu þeirra sem töpuðu, gömul stórveldi voru leyst upp og fjöldi nýrra ríkja varð til, þar á meðal Ísland sem varð frjálst og fullvalda ríki. Það sem átti að vera friðarsamningar fól í sér fræ haturs, hefnda og leiddu til síðari heimsstyrjaldarinnar. Friðurinn er brothættur eins og dæmin sanna og það er eins og ráðmenn geti ekkert lært af sögunni.

 

Konur unnu að friði

 

Meðan á heimsstyrjöldinni fyrri stóð reyndu hreyfingar kvenna allt sem þær gátu til að stöðva styrjöldina. Þær héldu friðarþing í Haag í Hollandi 1915 og margar konur hættu á að verða ákærðar fyrir landráð með því að mæta þar. Eftir að þinginu lauk fór hópur kvenna á milli ríkja með friðartillögur sem seinna höfðu veruleg áhrif á tillögur Wilsons Bandaríkjaforseta, ekki þó hefndirnar sem til komu vegna krafna Frakka og Breta.  Þessa framlags kvenna er þó sjaldan getið en þarf að draga betur fram í dagsljósið. Nýjar Friðarhreyfingar kvenna voru stofnaðar sem voru mjög virkar næstu áratugina en náðu því miður takmörkuðum árangri andspænis þeim fasisma sem tröllreið Evrópu á millistríðsárunum og leiddi til síðari heimsstyrjaldarinnar.

 

Á næsta ári verða líka 100 ár liðin frá því að austuríski rithöfundurinn og friðarsinninn Bertha von Suttner lést. Sem betur fer þurfti hún ekki að upplifa fyrri heimsstyrjöldina. Suttner var fyrsta konan í heiminum sem hlaut friðarverðlaun Nóbels, það var árið 1905, enda virk í friðarstarfi í kringum aldamótin 1900. Árið 1889 gaf hún út skáldsöguna Niður með vopnin sem vakti mikla athygli, en hún kom út á Íslandi árið 1917 meðan fyrri heimsstyrjöldin stóð sem hæst.  Kveikjan að sögu Suttner var rétt eitt stríðið sem  austuríski herinn háði af einhverjum ástæðum. Þar horfði Bertha von Suttner upp á dauða nokkurra ungra frænda sinna og það vakti margar spurningar í huga hennar. Í Niður með vopnin lýsir hún sorgum og missi fjölskyldu og spyr þeirrar mikilvægu spurningar: Hvers vegna einkennist menning okkar af vopnum og hatri í stað friðar og ástar?   

 

Heimsfriður – heimilisfriður var að þessu sinni yfirskrift árlegs 16 daga átaks Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Átök og styrjaldir snerta heimilin á margvíslegan hátt. Fólk flýr heimili sín, heimilin verða fyrir árásum og innrásum og styrjaldir ýta undir ofbeldi karla gegn konum innan fjölskyldna. Styrjaldir nútímans bitna harkalega á almennum borgurum, eyðileggingin er hrikaleg enda vopnin ægilegri og mannskæðari en nokkru sinni fyrr.

 

Hvað nú?

 

Er ekki kominn tími til að við tökum aftur upp kyndilinn frá Bertu von Suttner og fjölda annarra kvenna og beinum kröftunum aftur að því að kveða niður vopnin og hernaðarhyggjuna. Breyta menningunni úr stríði í frið úr hatri í ást. Útrýma ofbeldinu. Vopnasala er því miður mjög öflug atvinnugrein sem erfitt er að kljást við og ýtir undir nýjar og nýjar styrjaldir. Jafnvel Svíar og Norðmenn eru vopnasalar. Við þurfum nýja heimssýn í anda von Suttner, Gahndi, Mandela og allra þeirra kvenna sem krefjast sætis við samningaborðin til að stöðva átök og tryggja sér og börnum sínum framtíð. Við þurfum líka nýtt hagkerfi sem skapar jöfnuð og ver Móður Jörð í stað þess að eyðileggja hana.

 

Það er því mikið verk að vinna  og mikilvægt að við Íslendingar leggjum okkar af mörkum til friðargæslu og betri heims. Þar getur rödd og fordæmi lítillar þjóðar skipt máli og þar verða konur að láta til sín taka.      

 

Kristín Ástgeirsdóttir.