Niðurstöður alþingiskosninga út frá kynjasjónarmiði

Freydís Jóna Freysteinsdóttir skrifar

Niðurstöður alþingiskosninga út frá kynjasjónarmiði

Nú þegar eru nýafstaðnar alþingiskosningar er mikilvægt að skoða stöðu mála út frá kynjasjónarmiði, þ.e. hvort kynið við vorum að kjósa í meira eða minna mæli á þing og þá ekki síst eftir landshlutum. Þá kemur því miður sú sorglega staðreynd í ljós að hlutfall kvenna var einungis 20% í norðausturkjördæmi og einnig í norðvesturkjördæmi (tvær konur af 10 fulltrúum komust inn á þing í hvoru kjördæmi). Þess má þó geta að einungis munaði 32 atkvæðum á landsvísu að þriðja konan kæmist inn í norðausturkjördæmi og hefði þá hlutfall kvenna orðið 30% hér. Í öðrum landshlutum var kynjahlutfallið mun jafnara eða á bilinu 45-64%. Svo þokast megi í átt til jafnréttis í stjórnmálum er nauðsynlegt að stjórnmálaflokkar hafi kynjasjónarmið í huga þegar raðað er á lista. Einnig þurfa konur að sjálfsögðu að vera viljugar til að bjóða sig fram. Jákvæð mismunum gæti verið nauðsynleg þar til jafnara kynjahlutfalli hefur verið náð á eðlilegan hátt.

Jafnréttistofa vann könnun um stöðu sveitarfélaga er varðar jafnréttismál á árinu 2008. Ýmis viðmið voru notuð í þeirri könnun, m.a. hlutfall kvenna í pólitískum nefndum og hlutfall kvenna í stjórnunarstöðum. Samkvæmt niðurstöðum þessarar könnunar komu öll sveitarfélögin í Þingeyjarsýslu fremur illa út nema eitt. Einungis tvö af þáverandi sjö sveitarfélögum voru yfir meðaltali en fimm sveitarfélög undir meðaltali (sjá á www.jafnrettisstofa.is). Þessar tvær „mælingar“, þ.e. niðurstöður kosninganna annars vegar og niðurstöður könnunar Jafnréttistofu hins vegar sýna að staða kvenna í Þingeyjarsýslu er almennt ekki nógu sterk. Velta má fyrir sér hvernig standi á því en brýnt er að jafna hlut kynja í Þingeyjarsýslu.

Rannsóknir hafa sýnt að þar sem staða kvenna er veik er karlaveldi mikið og öfugt. Í karlaveldi felst að karlar hafa meiri völd en konur. Í karlaveldissamfélögum vinna konur meira af heimilisstöfum, sjá meira um barnauppeldi og önnur hefðbundin kvennastörf, s.s. að sinna ættingjum sem þurfa á aðstoða að halda. Þetta getur átt sér stað í slíkum samfélögum jafnvel þó konan stundi fulla vinnu. Þegar megin ábyrgð á heimilinu hvílir á herðum konunnar er hætt við að slík tilhögun bitni á getu hennar til að sinna starfsframa og/eða stjórnmálum. Þessi störf sem hafa kallast hefðbundin kvennastörf eru ólaunuð, tímafrek og krefjandi. Rannsóknir hafa einnig sýnt að konur leggja almennt meiri áherslu á „mjúk“ mál í stjórnmálum, sem eru mál er varða velferð, menntun og heilbrigð (sjá í Newman og Grauerholz, 2002). Þessi munur endurspeglast í fleiri konum á framboðslistum vinstri flokka hér á landi, sem leggja meiri áherslu á félagshyggju en hægri/miðju flokkar.

Á starfssvæði Félagsþjónustu Norðurþings hefur verið samþykktur Evrópusáttmáli um jafna stöðu og rétt kynja en þessar tvær mælingar sýna að fylgja þarf þeim sáttmála eftir með framkvæmdum. Mikilvægt er að kennsla og aðstæður í leikskólum og grunnskólum á svæðinu sé skoðað út frá kynjasjónarmiði, t.d. hvort karlaveldis gæti í þeim bókum sem börnin lesa eða lesin eru fyrir börnin. Jafnframt er mikilvægt að athuga hvaða hugmyndir stúlkur og drengir hafa um atvinnutækifæri og hlutverk í samfélaginu. Ekki má gleyma hlutverki foreldra, þar sem foreldrar eru helstu fyrirmyndir barna sinna og því þurfa foreldrar einnig að huga að verkaskiptingu á heimilinu. Jafnframt er brýnt verkefni að huga að launamun kynjanna t.d. með því að fá óháðan aðila til að fara yfir launakjör starfsmanna hjá sveitarfélögum og fyrirtækum út frá kyni. Góð stefna ein og sér er nauðsynleg en ekki nægjanleg forsenda breytinga. Nauðsynlegt er að fylgja henni eftir líka.