Njóta konur og karlar jafnræðis við fjármögnun vísindarannsókna?

Hans Kristján Guðmundsson skrifar

Njóta konur og karlar jafnræðis við fjármögnun vísindarannsókna?

Á síðastliðnu ári tók greinarhöfundur þátt í hópi óháðra sérfræðinga á vegum ESB sem hafði það hlutverk að skoða sérstaklega stöðu, fjármögnun og styrkveitingar til vísindarannsókna í ljósi kyngervis umsækjenda, styrkþega og kynjahlutfalla í hópi þeirra sem að stefnumótun, mati og úthlutun koma.

Evrópusambandið (ESB) hefur um langt árabil unnið markvisst að því að stuðla að jafnræði karla og kvenna í vísindarannsóknum. Þetta er hluti af viðleitni sambandsins til að auka samkeppnishæfni og nýsköpunarmátt sinn. Stefna ESB hefur beinst að kynjasamþættingu í rannsóknum og þróun m.a. með því að auka þátt kvenna í rannsóknastörfum á öllum stigum. Niðurstöður þessarar vinnu má finna í fjölmörgum skýrslum sem unnar hafa verið á vegum ESB og reglubundið er birt tölfræði um konur og vísindi undir heitinu She Figures. Hagstofa Íslands og vinnuhópur menntamálaráðuneytis um konur og vísindi hefur tekið þátt í þessari vinnu og gagnasöfnun.

Á síðastliðnu ári tók greinarhöfundur þátt í hópi óháðra sérfræðinga á vegum ESB sem hafði það hlutverk að skoða sérstaklega stöðu, fjármögnun og styrkveitingar til vísindarannsókna í ljósi kyngervis umsækjenda, styrkþega og kynjahlutfalla í hópi þeirra sem að stefnumótun, mati og úthlutun koma. Hópurinn átti að skila áliti og tillögum til að stuðla að auknu gagnsæi og trúverðugleika matsferla við fjárveitingar til rannsókna.
Hópurinn safnaði og greindi gögn frá 33 Evrópuríkjum og einbeitti sér að samkeppnisfjármögnun til vísindarannsókna. Fyrst og fremst var unnið með opinber aðgengileg gögn en þar sem slík gögn voru ekki fyrir hendi var gagna aflað með aðstoð rannsóknarráða, sjóða og annarra umsýsluaðila um rannsóknafjárveitingar. Niðurstöður rannsóknanna voru birtar í skýrslunni “The Gender Challenge in Research Funding, Assessing the European National Scenes” sem Evrópusambandið gaf út fyrr á þessu ári. Í skýrslunni er gerð almenn grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar, dregnar ályktanir og lagðar fram tillögur til framþróunar. Ennfremur eru í skýrslunni stuttar greinargerðir um hvert og eitt hinna 33 landa sem rannsóknin náði til. Skýrsluna sjálfa og lengri greinargerðir um hvert land má nálgast á vefsíðum ESB.

Jafningjamat og mismunun
Við úthlutun fjár til rannsóknaverkefna í samkeppni er nær alltaf beitt svokölluðu jafningjamati (e. peer review) þar sem gæði verkefna og hæfni umsækjenda er metin af sérfræðingum á viðkomandi fræðasviði (jafningjum). Niðurstöður matsins ráða síðan úthlutun og oftar en ekki er hörð samkeppni milli vísindamanna og verkefna þannig að árangurshlutfall getur jafnvel verið lægra en 20%. Mikilvægt er þegar svo er háttað, að mælikvarðar séu hlutlægir og skýrir, matsferli gagnsæ, matsmenn hlutlægir í umsögnum sínum og að gætt sé þess að hvorki komi upp vanhæfi né frænddrægni eða önnur óeðlileg mismunun. Þótt slíkt jafningjamat sé yfirleitt álitið besta leiðin til samkeppnisfjármögnunar í rannsóknum er það langt frá því að vera fullkomið og því miður koma oft upp grunsemdir um óeðlileg vinnubrögð. Ýmsar rannsóknir á kynjajafnræði við slíka fjármögnun rannsókna og gæðamat hafa verið birtar á síðustu tveimur áratugum, þótt meira hafi verið unnið að athugunum á almennri stöðu kvenna í vísindum, möguleikum þeirra á starfsframa og á kynjahlutfalli í háskólasamfélaginu. Í slíkum rannsóknum hefur meðal annars verið sýnt að kynjamismunun getur átt sér stað við ritrýni, stöðuveitingar og framgangsmat með því að breyta nafni höfundar eða umsækjanda á sömu gögnum. Oft er vísað í rannsókn frá 1997 á úthlutun rannsóknarstyrkja til nýdoktora í líflæknisfræði í Svíþjóð þar sem höfundar sýndu fram á greinilega frænddrægni og kynjamismunun í niðurstöðum jafningjamats og er hún talin fyrsta skýra vísbendingin um slíka mismunun. (Wennerås, Christine and Agnes Wold, 1997). Síðan hefur fjöldi rannsókna á slíkri mismunun í jafningjamati verið unninn þar sem niðurstöður hafa verið á ýmsa vegu og háðar því hvaða fræðasvið er skoðað. Ég vísa í skýrsluna og heimildalista hennar til frekari glöggvunar um slíkar rannsóknir.

Staðan í Evrópu
Þótt öll þau ríki sem skoðuð voru í vinnu hópsins nýttu sér jafningjamat á einn eða annan hátt er talsverður munur á uppbyggingu og skipulagi úthlutunarkerfa og þeirra stofnana sem sjá um fjármögnun vísinda. Í flestum ríkjum sjá rannsóknarráð eða sambærilegir aðilar um umsýslu samkeppnisfjárveitinga, yfirleitt í armslengdar fjarlægð frá stjórnvöldum. Skipulagið er hins vegar svo fjölbreytilegt að beinn samanburður er erfiður og sérstaklega skorti víða á aðgengileg gögn og upplýsingar. Svo virðist að skipta megi þeim ríkjum sem rannsóknin náði til gróflega í tvo flokka: Þau sem sinna jafnræðismálum á virkan hátt m.a. með sértækum aðgerðum og hin sem ekki sinna þessum málum. Í fyrri hópnum eru Norðurlöndin öll og fer það mjög saman við leiðandi stöðu þeirra á lista „Gender Gap Report“ . Ekki er þó almennt hægt að tengja stöðu ríkja á þeim lista beint við tölur um fjölda kvenna í rannsóknum, þó það eigi við um öll Norðurlöndin nema Danmörku að saman fari lítið kynjabil og hátt hlutfall kvenna í rannsóknum. Í ljós kom að í hópi hinna virku ríkja eru fjölmörg dæmi um sértækar aðgerðir og stefnumörkun sem hvetja til aukins kynjajafnræðis í rannsóknum og markmiðssetning og átaksverkefni til að auka hlut kvenna. Þegar skoðað er kynjahlutfall í stjórnum, matsnefndum og stefnumarkandi vettvangi er hlutfall karla oftast yfirgnæfandi, en hins vegar er ekki að sjá að fjölgun kvenna á þeim vettvangi leiði beint til aukins árangurs kvenna í samkeppni um fjármagnið. Safnað var gögnum um árangurshlutfall karla og kvenna við úthlutanir – miðað við kyn verkefnisstjóra við úthlutun til samstarfsverkefna – bæði miðað við fjölda verkefna og upphæð styrkja. Af þeim gögnum sem tókst að safna kemur ekki fram neitt kerfisbundið mynstur og ekki er sjáanleg fylgni milli hlutfalls kynja starfandi á sviðinu og árangurs í samkeppni um styrki. Ójafnræði milli kynja í styrkveitingum er ekki almennt fyrir hendi þótt dæmi séu um það á ýmsum fræðasviðum í ýmsum löndum.

Tillögur um bætt skilyrði til kynjajafnræðis í rannsóknum
Í skýrslunni eru settar fram nokkrar tillögur sem flestar miða að því að auka tækifæri og hlut kvenna til þess að auðvelda jafnræði. Lagt var til að áhersla yrði lögð á að vinna gegn hættunni á kynjamismunun með sértækum aðgerðum, stöðugri vöktun á jafnrétti og hvatningu til rannsókna á sviðinu. Hvetja ber konur til að sækja styrki til samkeppnissjóða og stefna ber að því að auka tækifæri til jafnvægis milli starfs og fjölskyldulífs. Hvatt er til betri kynjadreifingar í þeim nefndum, stjórnum og ráðum sem koma að stefnumótun, mati og ákvarðanatöku um fjárveitingar og einnig til að auka meðvitund um kynjajafnræði. Hvatt er til vöktunar á kynjahlutfalli í tölfræði um rannsóknir og þróun með reglubundnum birtingum og hvatningu til rannsókna á sviðinu, sérstaklega með tilliti til kynjadreifingar í hópi mögulegra umsækjenda og kynjahlutfalli innan rannsóknahópa. Hvatt er til þess að auka gagnsæi í mati, vinna með vel skilgreindra ferla og mælikvarða, nýta jafningja af alþjóðlegum vettvangi til matsins, gæta vel að vanhæfismálum og hafa opna möguleika á andmælum og athugasemdum við úthlutun.

Staða Íslands
Gagnasöfnun og greining á stöðu Íslands beindist að Rannsóknasjóði Rannís og því kerfi sem markar stefnu hans, matsferli og ákvarðanatöku en sjóðurinn er eini samkeppnissjóðurinn til vísindarannsókna þar sem veruleg samkeppni – árangurshlutfall um 20-30 % - er um fjármagn á grundvelli skilgreinds gæðamatskerfis. Það eru þó aðeins um 14% opinberrar fjármögnunar til rannsókna sem beint er um sjóðinn. Sérstaklega var skoðað árangurshlutfall miðað við verkefnafjölda og upphæðum á mismunandi fræðasviðum með tilliti til kyns verkefnisstjóra. Naut greinarhöfundur dyggilegrar aðstoðar Rannís og Hagstofunnar við gagnaöflun og úrvinnslu og er það hér með þakkað. Í heildarskýrslu ESB er að finna stutta greinargerð um Ísland en lengri skýrsla er birt á vef ESB. Ísland er meðal þeirra ríkja heims sem hafa náð hvað mestum árangri í jafnrétti og jafnræði kynja. Það er því ánægjulegt að sjá að niðurstöður þessarar rannsóknar benda ekki til kynjamismununar við fjármögnun rannsókna og að jafnræði kynja í stjórnkerfi og matskerfi er þar til staðar. Um það bil þriðjungur umsækjenda eru konur, sem gæti rímað við upplýsingar Hagstofu að 30% hérlendra doktora eru konur, og að nálægt 22% af prófessorum við íslenska háskóla eru konur. Árangurshlutfall karla og kvenna við úthlutanir Rannsóknasjóðs er mjög svipað en þó yfirleitt hærra hjá konum en körlum. Munurinn er hins vegar ekki marktækur. Í heild er því niðurstaðan að kynjajafnræði ríki við úthlutun fjármagns í samkeppni á gæðagrundvelli. Athygli vekur þó að ekki er að finna neinar yfirlýsingar í stefnu sjóðsins um að gefa skuli gaum að slíku jafnræði og engar sértækar hvatningaraðgerðir hafa verið skipulagðar. Í stefnumörkun Vísinda- og tækniráðs er þó að finna almenna hvatningu til aðgerða til að tryggja jöfn tækifæri kvenna við samkeppnisfjármögnun.

Heimild:
Wennerås, Christine and Agnes Wold (1997), Nepotism and Sexism in Peer-Review, Nature 387(22 May): 341-343