Nú árið er liðið í aldanna skaut

Væntanlega mun árið 2008 verða lengi í minnum haft vegna þeirra miklu atburða sem urðu í byrjun október. Þeir munu móta kjör landsmanna á næstu árum en vonandi tekst okkur að komast fyrr út úr kreppunni en spáð er. Á slíkum tímum er mikilvægara en ella að standa vörð um mannréttindi, þar með talið jafnrétti kynjanna. Reynslan kennir okkur að stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins hættir til að horfa á atvinnulífið út frá körlum og grípa til aðgerða eins og vegagerðar, brúarsmíða og viðgerða sem einkum kalla á vinnuafl karla, meðan við okkur blasir að konur eru fyrirvinnur heimila sinna engu síður en karlar og margar konur eina fyrirvinna síns heimilis. Það er því brýnt að horfa á atvinnuástandið út frá báðum kynjum og grípa til aðgerða sem nýtast bæði konum og körlum, horfa til þjónustu og nýsköpunar við hlið verklegra framkvæmda.
Árið 2008 hófst fremur rólega hvað varðar jafnréttismál enda beðið eftir nýjum lögum. Í lok febrúar voru samþykkt ný jafnréttislög nr. 10/2008. Þar með hófst kynning á inntaki laganna og var starfsfólk Jafnréttisstofu á ferð og flugi það sem eftir lifði ársins við að fræða stéttarfélög, jafnréttisnefndir, sveitastjórnir og fleiri sem sýndu áhuga um þær nýjungar sem felast í lögunum. Í haust var svo gefinn út sérstakur bæklingur um lögin sem dreift var inn á hvert heimili í landinu.

Um mánaðarmótin febrúar-mars sótti jafnréttisstýra árlegan fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York. Þar var samræming atvinnu- og fjölskyldulífs ofarlega á baugi og var íslenska fæðingarorlofskerfið rækilega kynnt. Þá vakti athygli íslensku þátttakendanna að nýtt mál er komið á dagskrá, kyn og loftslagsbreytingar. Margir hvá þegar þeir heyra þetta en staðreyndin er sú að konur koma afar lítt að stefnumótun í umhverfismálum, meðan þær stýra neyslu heimilanna að stórum hluta og geta því haft mikil áhrif í þá veru að vernda umhverfið. Þá sýna rannsóknir að mun fleiri konur farast í hamförum en karlar og tengist það meðal annars því að konum víða um heim er gert að halda sig innan dyra. Í mörgum löndum læra konur ekki að synda, fatnaður flækist fyrir þeim þegar þarf að flýja og þær bera ábyrgða á börnunum sem þær yfirgefa helst ekki í neyð.

Allt árið störfuðu þrír hópar á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins að gerð tillagna um hvernig megi brúa launamun kynjanna. Einn hópurinn hefur þegar skilað skýrslu en hún snýr að almenna vinnumarkaðnum. Ráðgjafahópur félagsmálaráðherra lét gera stóra launakönnun sem náði til alls vinnumarkaðarins. Hún leiddi í ljós verulegan launamun og var einkum sláandi hve launamunur er mikill milli kvenna og karla á landsbyggðinni. Það er því ljóst að mikið verk er að vinna við að draga úr launamisrétti kynjanna. Bankahrunið leiddi í ljós að innan bankanna þreifst mikið launamisrétti og komu upp dæmi um allt að 100% launamun. Ekki gaf skipan í stjórnir og stjórnunarstöður nýju bankanna tilefni til mikillar bjartsýni um breytingar. Þrátt fyrir að tvær konur séu bankastjórar í fyrsta sinn í stóru bönkunum ráða karlar lögum og lofum við stjórn þeirra. Jafnréttislögin voru ekki virt við skipan í stjórnir bankanna en samkvæmt þeim skal hlutur annars hvors kynsins ekki vera minni en 40%. Í einu bankaráðanna eru fjórir karlar og ein kona og í öðru fjórar konur og einn karl. Það er hart þegar ráðherrar virða ekki lög landsins og hlýtur þetta að verða leiðrétt.

Allt árið var unnið að framkvæmd aðgerðaáætlunar gegn kynbundnu ofbeldi. Meðal annars var neyðarkort gefið út á mörgum tungumálum, stór könnun hófst á umfangi og eðli ofbeldis í nánum samböndum og út kom bók Ingólfs V. Gíslasonar um Ofbeldi í nánum samböndum en hún er handbók ætluð fagstéttum sem koma að ofbeldismálum. Niðurstöður könnunarinnar munu liggja fyrir á næsta ári og munu þær án efa leggja grunn að frekari aðgerðum.

Á árinu hófst verkefnið Jafnrétti í skólum en það felur í sér að 10 leik- og grunnskólar vinna tilraunaverkefni um jafnrétti kynjanna. Í ljós hefur komið að skólar landsins hafa alls ekki staðið sig sem skyldi við að fræða nemendur um jafnréttismál og ekki einu sinni nýtt það námsefni sem til er þrátt fyrir að jafnréttislög hafi kveði á um skyldur skólanna í rúmlega 35 ár. Mikill áhugi er á þessu verkefni og verður spennandi að sjá hvað út úr því kemur.

Á kvennadaginn 19. júní efndi Jafnréttisstofa til kvennasögugöngu á Akureyri í samvinnu við Minjasafnið og Zontaklúbb Akureyrar. Mikil þátttaka var í göngunni þrátt fyrir kalsarigningu. Ríkisútvarpið tók lýsingu göngustjórans upp og kom hún afar vel út í útvarpi. Á afmæli Akureyrarbæjar gaf Jafnréttisstofa bænum leiðarlýsinguna til þess að hún yrði öllum aðgengileg á vef bæjarins.

Í byrjun september var landsþing jafnréttisnefnda sveitarfélaga haldið í Mosfellsbæ og var það vel sótt. Í kjölfarið skipulagði Jafnréttisstofa fundaferð um landið og náði að heimsækja Egilsstaði og Ísafjörð áður en hamfarir hófust í efnahagslífinu. Þráðurinn verður tekinn upp aftur á nýju ári.

Þátttaka feðra í fæðingarorlofi hér á landi hefur vakið mikla athygli erlendis og velta margar þjóðir fyrir sér hvernig ná megi slíkum árangri. Víða er mikil tregða við að viðurkenna skyldur feðra og gamlar kynjaímyndir ráðandi meðan aðrar þjóðir blóðöfunda okkur og vilja nýta formið og jafnvel ganga enn lengra, t.d. Finnar. Áhuginn er svo mikill að Evrópusambandið efndi til sérstaks námskeiðs þar sem sérfræðingum frá ríkjum sambandsins gafst kostur á að kynna sér kerfið hér á landi. Sérstök bók var gefin út á ensku af þessu tilefni, Equal rights to earn and care í ritstjórn þeirra Ingólfs V. Gíslasonar og Guðnýjar Eydal. Mesta athygli vöktu frásagnir ungra feðra sem höfðu nýtt sér rétt sinn til fæðingarorlofs.

Í haust var svo haldið málþing um sköpun framtíðaratvinnulífsins í samvinnu við Símey og Háskólann á Akureyri og Jafnréttisstofa lét mikið fyrir sér fara í árlegu 16 daga átaki Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi en það stendur frá 25. nóvember til 10. desember. Verkefnið Karlar til ábyrgðar var kynnt, efnt var til samstöðu á Ráðhústorgi, bókmenntadagskrá haldin og minnst 60 ára afmælis mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Hér hefur aðeins verið tæpt á nokkrum verkefnum Jafnréttisstofu en mikill tími fer i að sinna málefnum einstaklinga sem leita til stofunnar, einstökum verkefnum sem unnið er að, t.d. samþættingarverkefninu Side by side sem styrkt er af Evrópusambandinu, kynningarmálum og öðru því sem Jafnréttisstofa á að sinna lögum samkvæmt.

Næsta ár verður án efa viðburðaríkt. Í janúar verður haldið jafnréttisþing í samræmi við nýju lögin. Síðan taka við ýmis verkefni, fundir og ráðstefnur sem tengjast formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Jafnrétti og jöfn staða kynjanna verður án efa áberandi í umræðunni og margs að gæta í glímunni við uppsagnir og atvinnuleysi en einnig nýsköpun og stefnumótun til lengri tíma. Það á ekki að veita neinn afslátt af mannréttindum þótt kreppi að. Kynin eiga að sitja við sama borð og það á að hugsa öll mál út frá hagsmunum beggja kynja.