Nýtum kosningaréttinn í þágu jafnréttis

Þann 19. júní var því fagnað að 100 ár voru liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt til Alþingis. Mikið var um dýrðir um land allt og víða var sagan rifjuð upp. Það er þó ekki síður ástæða til að horfa fram á við um leið og við minnumst þeirra fjölmörgu kvenna sem ruddu brautina fyrir okkur sem nú byggjum þetta land.„Konur viðurkenndar löglegir borgarar þjóðfélagsins“ skrifaði Bríet Bjarnhéðinsdóttir í blað sitt Kvennablaðið sem kom út 16. júlí 1915.  Þá var tæpur mánuður liðinn frá því að fréttir bárust af því að konungur hefði undirritað lögin sem veittu konum sem orðnar voru 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Það var líka liðin rúm vika frá því að konur fögnuðu nýfengnum réttindum á Austurvelli. Bríet var því í hátíðarskapi og auðvitað var það kjarni málsins að með kosningaréttinum var verið að viðurkenna konur sem fullgilda  borgara þó að réttindin væru takmörkuð við 40 ára aldur. Karlar fengu kosningarétt 25 ára. Reyndar varð lítill hópur vinnumanna að sitja við sama borð og konurnar en þeir fengu líka kosningarétt við þessar lagabreytingar. Bríet sagði reyndar að Íslendingar yrðu að athlægi um allan heim vegna þessa ákvæðis en það er önnur saga. Rétturinn varð jafn 1920. 

Kosningaréttur eru grundvallarmannréttindi sem barist var fyrir í áratugi. Hann felur í sér réttindi hvers og eins til að hafa áhrif á hvernig landinu er stjórnað, hverjir fara með völd en er líka réttur til að bjóða sig fram og láta rödd sína heyrast. Það er því sorglegt að sjá að kosningaþátttaka fer minnkandi hér á landi og vakti það athygli í síðustu sveitarstjórnarkosningum hve illa ungar konur skiluðu sér á kjörstað. Af hverju stafar það og hvernig á að bregðast við? Þeir sem ekki kjósa eru að láta aðra um að taka ákvarðanir um framtíðina. 

Konur voru ekki velkomnar

Það kom fljótt í ljós að þótt réttindin væru fengin var hreint ekki vilji til að konur tækju beinan þátt í stjórnmálum. Bríet bauð sig fram 1916 en náði ekki kjöri. Kosningaþátttaka kvenna var aðeins rúm 10% sem vekur margar spurningar. Fannst konum að stjórnmálin kæmu þeim ekki við? Var enginn sem þær gátu hugsað sér að kjósa eða hvað? Bríet varð mjög hugsandi yfir þessu og skrifaði að málið snérist ekki um það eitt að fá að kjósa heldur að hafa áhrif, koma konum og málefnum þeirra að. Þau mál voru að bæta stöðu kvenna, sinna kjörum fátækra, sjúkra, munaðarlausra og annarra sem höllum stóðu fæti. Það var skoðun Bríetar og þeirra kvenréttindakvenna sem stóðu að kvennalistanum 1922 að á þessum sviðum sæi „auga konunnar glöggar en auga karlmannsins“. Konur áttu að breyta og bæta, ekki síst vildu þær bæta heilbrigði þjóðarinnar með því að koma upp Landspítala, tryggja aðstöðu mæðra og ungabarna og byggja berklahæli. 

Þau átta ár sem Ingibjörg H. Bjarnason sat á þingi 1922-1930 beitti hún sér af alefli fyrir heilbrigðismálum, möguleikum kvenna til menntunar, stuðningi við kvennasamtök og auknu jafnrétti kynjanna. Hún lagði meðal annars til að konur yrðu skipaðar í allar opinberar nefndir en það náði ekki fram að ganga. Ingibjörg átti erfitt uppdráttar og hún fékk að finna að hún var óvelkomin á hinu háa Alþingi. Sama gilti um næstu tvær þingkonur þær Guðrúnu Lárusdóttur rithöfund og Katrínu Thoroddsen lækni. Enginn tók til máls þegar þær fluttu sín mál. Þingmönnum fannst greinilega ekki nógu merkilegt að ræða vernd barna, barnaheimili og fleiri slík mál.

Enn á ný þurfti kvennalista

Konur voru örfáar á þingi þar til ákveðið var að bjóða fram kvennalista 1983. Það varð að koma málefnum kvenna á dagskrá og það gerði Kvennalistinn. Flokkarnir hrukku við og tóku að stilla konum upp ofar á lista. Konum fjölgaði jafnt og þétt næstu árin og eru nú 40% þingmanna. Það er í sjálfu sér ágætt en af hverju eru  þær ekki enn fleiri?  Það sýnir lýðræðishalla þegar hlutur kvenna er mun minni en karla en í mínum huga skiptir mestu hvað gert er. Að því leyti er ég sammála „gömlu“ femínistunum. Það hafa allir rétt til að hafa sínar skoðanir en ég vil sjá konur og karla sem beita sér fyrir kynjajafnrétti og reyndar jafnrétti allra. Þar er enn mikið verk að vinna.

Við búum við launamisrétti og allt of kynskiptan vinnumarkað. Laun margra „kvennastétta“ eru allt of lág og störf þeirra vanmetin. Því miður búa margar konur við fátækt og það þarf að gefa gaum að kynjabreytunni í ýmsum hópum eins og meðal fatlaðra og fólks af erlendum uppruna. Það þarf að virða kynhneigð og kynvitund hvers og eins. Konur eru of fáar í stjórnum og við stjórn fyrirtækja. Skólarnir eiga langt í land með að sinna jafnréttisfræðslu og jafnréttissjónarmiðum í öllum greinum. Ofbeldi gegn konum er gríðarlegt áhyggjuefni eins og umræða undanfarinna vikna sannar. Kynferðisofbeldi gegn börnum er ólíðandi, sem og hatursorðræða og ofbeldi á netinu. Þátttaka karla í jafnréttisumræðunni þarf að stóraukast, kynjajafnrétti er sannarlega þeirra hagsmunamál og snýst um aukin lífsgæði. Á þessu 100 ára afmælisári vil ég sjá vaxandi virðingu fyrir þörfum og óskum einstaklinganna, hvort sem um er að ræða drengi eða stúlkur, konur eða karla. Stefnum markvisst að samfélagi réttlætis, jöfnuðar og jafnréttis fyrir alla.


---

Greinin birtist á visi.is 22. júní 2015